BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sambandsdeild UEFA 2021/2022: Breiðablik - FK Austria Wien fimmtudag 29. júlí kl.17:30!

27.07.2021 image

Breiðablik mætir FK Austria Wien á Kópavogsvelli á fimmtudaginn í seinni leik leik liðanna í undankeppni Sambandsdeildar UEFA 2021/2022 (Europe Conference League).

Leikurinn hefst klukkan 17:30 að staðartíma hér heima (klukkan 19:30 að staðartíma í Austurríki). 

Blikar gerðu frábært 1:1 jafntefli gegn þeim austurrísku á útivelli í fyrri leik liðanna á Viola Park vellinum á fimmtudaginn í síðstu viku. Mark okkar manna gerði miðjumaðurinn knái Alexander Helgi Sigurðarson snemma í seinni hálfleik eftir góða stoðsendingu frá Árna Vilhjálmssyni.

Blikaliðið spilaði mjög vel í leiknum og átti í fullu tré við þetta fornfræga lið. Reyndar má færa góð rök fyrir því að við höfum haft undirtökin í leiknum og með smá heppni hefðum við getað hirt öll stigin í leiknum. Úrslitin setja okkur í dauðafæri fyrir seinni leikinn á Kópavogsvelli á fimmtudaginn.

Miðasala á leikinn er í fullum gangi á www.tix.is 

Allt um fyrri leikinn hér:

FK Austria Wien var stofnað í mars 1911 og er því 110 ár. Liðið hefur unnið oftast í efstu deild í Austurríki eða 24 sinnum - síðast keppnistímabilið 2012/2013. Bikarmeistaratitlar FK Austria Wien eru 27.

Bæði lið spiluðu deildaleik á sunnudaginn. Okkar menn lutu í gras í gríðarlega svekkjandi 2:0 tapi á útivelli gegn Keflvíkingum. Þeir Austurrísku höfðu unnið sex leiki í röð í deild og æfingaleikjum sumarsins en töpuðu töpuðu 2:1 gegn SV Ried á útivelli í fyrsta deildarleik austurríska keppnistímabilsins 2021/2022 á sunnudaginn. SV Ried komst í 2:0 með mörkum á 56' og 67' áður en Austria skoraði á 75'.

Níu uppaldir gegn Austria Wien

Það gleður alltaf jafn mikið að sjá hverju uppeldisstarf Breiðbliks er að skila, en hvorki fleiri né færri en 9 uppaldir Blikar tóku þátt í leiknum gegn Austri Wien í Austurríki. þetta er góður vitnisburður um það frábæra starf sem Hákon Sverrisson og félagar hans eru að vinna í yngri flokkum félagsins.

image

Byrjunarlið Breiðabliks í fyrri leiknum: Afrari röö f.v.: Alexander Helgi Sigurðarson, Árni Vilhjálmsson, Davíð Ingvarsson, Viktor Örn Margeirsson, Damir Muminovic, Anton Ari Einarsson. Fremri röð f.v.: Kristinn Steindórsson, Gísli Eyjólfsson, Oliver Sigurjónsson, Viktor Karl Einarsson, Höskuldur Gunnlaugsson. Mynd: Breiðablik. 

Ekki fyrsta heimsókn liðs frá Austurríki á Kópavogsvöll

Árið 2013 er Breiðabliksliðið í 2. umf undankeppni Evrópudeildar UEFA eftir að hafa lagt FC Santa Coloma að velli með 4:0 sigri á Kópavogsvelli og 0:0 út í Andorra. Ellert Hreinsson var í miklu stuði í leiknum á Kópavogsvelli. Hann skoraði þrennu og varð þar með fyrsti, og eini Blikinn, til að skora þrennu í Evrópuleik.

Breiðablik drógst svo gegn stórliði Sturm Graz frá Austurríki. Fyrri leikurinn var á Kópavogsvelli og lauk með 0:0 jafnteli. Nánar um leikinn hér

Vísir skrifar 2013:

"Það var af mikilli elju sem heimamenn í Breiðabliki knúðu fram jafntefli í leik þeirra gegn Sturm Graz frá Austurríki í kvöld.  Leikurinn byrjaði nokkuð rólega en Blikar virtust ætla sér aðeins um of í upphafi og „nýtt“ leikskipulag þeirra virtist aðeins vera að vefjast fyrir mönnum."

"Gestirnir úr Sturm Graz voru mun meira með boltann og var þeirra hættulegastur uppi við mark Blika maður að nafni Marco Djuricin. Það var hann sem átti hættulegustu færin í fyrri hálfleik en Gunnleifur Gunnleifsson markvörður Blika var vel vakandi á verðinum."

"Í síðari hálfleik var það sama uppi á teningnum. Blikarnir börðust eins og grenjandi ljón og gaman hefði verið að hafa mælitæki á mönnum eins og Kristni Jónssyni, Elfari Árna Aðalsteinssyni og Andra Rafni Yeoman í þessum leik. Menn hlupu um eins og híenur allan leikinn og mátti oft sjá framherjann Elfar Árna kominn niður í öftustu varnarlínu andandi ofan í hálsmálið á andstæðingum."

Til upprifjunnar þá er þetta Evrópuhópurinn 2013:

image

Evrópuhópur Breiðabliks 2013 - Leikmenn og þjálfarar. Aftari röð f.v.: Ólafur H. Kristjánsson aðalþjálfari, Úlfar Hinriksson aðstoðarþjálfari, Ósvald Jarl Traustason, Elfar Árni Aðalsteinsson, Nichlas Rohde, Renee Gerard Japp Troost, Ellert Hreinsson, Þórður Steinar Hreiðarsson, Sverrir Ingi Ingason, Viggó Kristjánsson, Atli Fannar Jónsson, Guðmundur Benediktsson aðftoðarþjálfari. Fremri röð f.v.: Páll Olgeir Þorsteinsson, Guðjón Pétur Lýðsson, Jökull Ingason Elísarbetarson, Olgeir Sigurgeirsson, Gunnleifur Gunnleifsson, Finnur Orri Margeirsson fyrirliði, Arnór Bjarki Hafsteinsson, Árni Vilhjálmsson, Kristinn Jónsson, Andri Rafn Yeoman, Tómas Óli Garðarsson. Á myndina vantar Gísla Pál Helgason og Ólaf Pétursson markmannsþjálfara. Mynd: HVH

Dagskrá

Við vekjum athygli á breyttum leiktíma en leikurinn hefst kl.17:30 fimmtudaginn 29.júlí á Kópavogsvelli (klukkan 19:30 að staðartíma í Austurríki). 

Miðasala á leik Breiðabliks og Austria Wien er á Tix.is

Eftir að nýjustu samkomutakmarkanir tóku gildi er ljóst að við getum tekið á móti 700 áhorfendum á leikinn í fjórum sóttvarnarhólfum.

Við mælum með VIP miðunum fyrir svanga og þyrsta en þar verða í boði veitingar frá kl.16:30.

Af sóttvarnarástæðum, verður Blikasjoppan því miður lokuð.

Leikurinn er í beinni á Stöð 2 Sport. Útsending hefst kl.17:15.

Linkur í beina textalýsingu UEFA frá leiknum Hér.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar

!

image

Til baka