BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sagan skrifuð í Laugardal

06.10.2023 image

Fimmtudagurinn 5. október er stór dagur í íslenskri knattspyrnusögu: fyrsti heimaleikur íslensks karlaliðs í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu. Það sem gerir þetta enn sögulegra er að gestirnir voru FC Zorya Luhansk frá Úkraínu. Liðið er nær eingöngu skipað Úkraínumönnum. Það verður að spila heimaleiki sína í Sambandsdeildinni í Póllandi af augljósum ástæðum: Luhansk er í Donetskt-héraði og er býsna nærri landamærum Rússlands.  Þegar herra Google er spurður um Luhansk birtir hann mynd af íbúðarblokk sem Rússar hafa sprengt. Skyldu börnin hafi komist út áður?

Það var því ekki að undra að gestirnir skyldu ganga inn á Laugardalsvöll í dag með úkraínska fánann um herðar sér. Á pöllunum sungu stuðningsmenn þeirra ýmist ZORYA! eða UKRAINA! og veifuðu gula og bláa fánanum.

Það var svalt en þurrt og nánast logn í Laugardal. Grasið á þjóðarleikvanginum virkaði blautt og þungt eftir rigningu síðasta sólarhringinn – meira um það síðar.

Lið okkar manna var þannig skipað:

Sovéskt landslið

Hafi stuðningslið Blika talið FC Zorya auðvelda bráð var það ekki byggt á staðreyndum. Þeir náðu jafntefli gegn Ghent á dögunum í Sambandsdeildinni. Og þetta er sögufrægt lið. Árið 1972 stefndi í að Zorya yrði sovéskur meistari. Það var fáheyrt að lið frá útjöðrum þessa mikla ríkis næði slíkum hæðum. Á öllum þeim árum sem Sovétríkin voru við lýði vann lið sem ekki kom frá einni af höfuðborgum landsins deildina aðeins fjórum sinnum. Knattspyrnusamband ríkisins ákvað því að senda alla leikmenn Zorya sem fulltrúa lands og þjóðar á mót erlendis – sem landslið. Forsvarsmenn liðsins voru sannfærðir um að tilgangurinn væri að þreyta leikmennina. Allt kom fyrir ekki – Zorya varð sovéskur meistari.

Hér kemur játning: Þessi fróðleiksmoli er ekki afrakstur ýtarlegrar rannsóknar á knattspyrnusögu Sovétríkjanna. Hann er fenginn frá úkraínskum kunningja úr bókaútgáfunni, Eliash Strongowski. Þess má geta að þegar stríðið hófst – nokkrum mánuðum eftir að hann var gestur Bókmenntahátíðarinnar í Reykjavík – varð hann að flýja heimalandið með fatlaðan ungling, ungt barn og konu, og reynir nú að þrauka í Póllandi. Þess má geta að Úkraína er ekki stærri en svo að vinur bróður hans, sem ólst upp í sama bæ og þeir, lék eitt sinn með FC Zorya.

Hreppstjórasnýtur

En aftur að leiknum. Það mátti sjá á okkar mönnum að þeir eru vanir því að spila á rennisléttu teppi, vel vökvuðu, þar sem boltinn ferðast hratt. Því var öfugt farið í dag. Völlurinn virtist býsna þungur og sendingar á „seinni þriðjungi vallarins“, eins og stundum er sagt, voru of lausar og boltinn ferðaðist því hægt. Léttleikandi Blikar voru þannig á hálfgerðum útivelli. Því fóru fínar stöður forgörðum, tækifæri sem hefðu getað orðið urðu aldrei að veruleika.

Liðin skiptust á að sækja, án þess þó að skapa neina sérstaka hættu. Sá sem hér heldur á penna velti því fyrir sér hvort Antoni Ara yrði ekki kalt í þessu aðgerðarleysi. Þá var hálftími liðinn af leiknum. Klæmint fékk þá högg á hnéð og lá sárþjáður í grasinu um hríð. Það vakti athygli tíðindamanns Blikar.is að dómarinn tók af því tilefni upp vasaklút og skömmu síðar drundi hreppstjórasnýtur um gjörvalla stúkuna. Nema hvað gestirnir höfðu fengið hornspyrnu. Og þegar leikurinn fór af stað tóku þeir nánast óáreittir stutt horn, sendu boltann á fjærstöngina þar sem þeirra maður skallaði í netið.

Þetta var um það bil það eina sem sætti tíðindum í fyrri hálfleik – fyrir utan að Anton Ari varði þegar Úkraínumaður var kominn einn í gegn.

Færin koma í kippum

Í hálfleik var ekki um annað rætt en að okkar menn þyrftu að vera ákveðnari í sendingum og þora að skjóta – það væri ekki nauðsynlegt að spila sig inn í mark andstæðinganna.

Seinni hálfleikur hófst með nokkrum látum. Gísli skaut framhjá eftir sendingu frá Jasoni, markmaðurinn kýldi boltann frá eftir hættulega hornspyrnu, okkar menn gáfu tvö góð færi og síðan varði Anton Ari glæsilega skot innan teigs.

Það sem eftir lifði leiks sannaðist aftur á móti hið fornkveðna að færin koma í kippum. Gísli átti þrjú hörkuskot á markið: eitt var varið, annað fór í slá og það þriðja framhjá. Markvörðurinn varði frá Jasoni Daða og hann átti annað skot framhjá en sá úkraínski sýndi sannarlega úr hverju hann er gerður þegar hann varði glæsilega hörkuskalla frá Höskuldi af stuttu færi á 79. mínútu. Með öðrum orðum: okkar menn sóttu, gestirnir vörðu vígið.

Æsilegar lokamínútur

Nú var komið fram í uppbótartíma. Gísli átti bakfallsspyrnu framhjá. Þá héldu allir í stúkunni að þetta væri búið. Nei, aldeilis ekki, sagði Kristinn Steindórs og sendi boltann fyrir þar sem Viktor Örn (af öllum mönnum!) var mættur með stóru tána á nærstöng en því miður fór boltinn í hliðarnetið. Var þetta þá búið? Nei, sagði Anton Logi sem hafði átt stórkostlegan leik sem hægri bakvörður, djúpur miðjumaður og örugglega eitthvað fleira. Hann var skyndilega kominn í frábært færi í miðjum teig andstæðinganna. Allan leikinn hafði hann verið ískaldur á boltanum, ekki látið sér bregða þótt sótt væri að honum úr öllum áttum, alltaf gat hann galdrað fram fallega sendingu nema núna var hann aðeins of rólegur, tók eina litla aukasnertingu og þá var færið farið.

Þar með lauk þessum sögulega leik; fyrstu viðureign íslensks karlaliðs í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu. Síðari hálfleikurinn var skínandi góður hjá Kópavogspiltum og eftir að Oliver kom inn á fyrir Alexander varð spil okkar manna hraðara og færin hættulegri. En eigi tjóir að dvelja við það heldur bíta í skjaldarrendur og leggja Stjörnuna að velli á sunnudaginn og tryggja þannig bronsið á Íslandsmótinu. Svo er það auðvitað Ghent í Belgíu. Úr því að FC Zorya náði jafntefli við það ágæta lið eru okkar mönnum allir vegir færir – ef þeir tapa sér ekki í belgíska súkkulaðinu fyrir leik.

-PMÓ

Til baka