BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Þreytulegur ósigur í Evrópudeildinni

17.08.2025 image

Það var mikil spenna í loftinu á stilltu fimmtudagskvöldi þegar liðið Zrinjski frá Mostar, hinni fögru óopinberu höfuðborg Herzegovinu, kom í heimsókn í Kópavoginn. Mjög skipulagður og vandvirkur jafnteflisleikur á útivelli gaf góðar vonir um framhaldið. Byrjunarliðið hjá Breiðablik kom ekki mikið á óvart en það skipuðu Anton Ari Einarsson, Ásgeir Helgi Orrason, Kristinn Jónsson, Viktor Örn Margeirsson, Damir Muminovic, Höskuldur Gunnlaugsson, Viktor Karl Einarsson,  Valgeir Valgeirsson, Óli Valur Ómarsson, Águst Orri Thorsteinsson og Tobias Thomsen.

Leikurinn var hins vegar vart byrjaður og mér svelgdist illa á heitu kaffinu þegar hinn knái framherji Zrinjski Nemanja Bilbija skoraði mark. Reyndar mikið heppnismark, boltinn lenti að vísu í fæti Nemanja en alls óvíst að hann hafi vitað mikið af því. Þaðan hrökk boltinn og tíminn  hægði á sér og nær stoppaði á meðan boltinn lak af mikilli óheppni framhjá Antoni og í markið. Óheppni já en reyndar voru þrír Blikar nálægt Nemnja og boltinn hefði mögulega aldrei átt að komast til hans yfirleitt. Staðan 0-1 en leikurinn rétt að byrja nógur tími til að jafna leikinn. 

Hins vegar verður að viðurkennast að Breiðabliks liðið var bara alls ekki gott það sem eftir var af þessum fyrri hálfleik. Ég skráði ekki hjá mér neitt færi sem við fengum nema hvað rétt fyrir hálfleik átti Tobias hálffæri. Engin vafi er á því að Zrinjski var betri liðið í fyrri hálfleik þótt þeir væru bara alls ekki að gera mikið, höfðu þetta bara mjög einfalt og það virkaði vel. Það vantaði alltaf herslumuninn hjá Breiðablik til að spilið gengi upp. En allt í góðu allur, seinni hálfleikurinn var eftir. Nægur tími til að skora mörk. 

Eftir hið fínasta kaffi og góða samloku hjá Blikaklúbbnum, takk fyrir mig, var ég rétt að setjast niður þegar ósköpin dundu yfir. Zrinjski átti horn sem Valgeir gerðu sér lítið fyrir og skallaði í eigið mark. Ég veit ekki hvort þetta var algjör óheppni eða hvort honum fannst hann allt í einu vera í sókn því skallinn var mjög glæsilegur og Anton átti ekki séns. Staðan 0-2 og þetta farið að líta illa út.

En nú hresstust okkar menn aðeins við mótlætið og settu meiri kraft í leikinn. Það skilaði sér þegar Viktor Karl var straujaður í teignum og víti réttilega dæmt. Höskuldur skoraði að sjálfsögðu af öryggi og vonin lifði.

image

Davíð, Arnór Gauti og Kristinn Steindórs komu þá inn á í stað Óla, Ásgeirs og Viktors Karls. Kraftur færðist í Blika sem áttu dauðafæri rétt fyrir sjötugustu mínútu þegar Kristinn Steindórs negldi á markið en markvörður Zrinjski varði snilldarlega. Óheppnir Blikar þar. Kristinn var í miklu stuði og fékk aftur færi stuttu seinna en hann skaut yfir markið. Þegar líða fór að lokum leiksins þá komu Aron Bjarna og Kristófer Ingi inn á fyrir Valgeir og Kristinn Jónsson, Blikar reyndu og reyndu en því miður gerðist ekki mikið. Vonin dó svo þegar Arnór Gauti fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt þegar komið var fram í uppbótartíma. Niðurstaðan 1-2 og Breiðablik úr leik í Evrópudeildinni.

Á meðan á leiknum stóð fannst mér að Breiðablik hefði átt að gera miklu betur en eftir á að hyggja þá Zrinjski auðvitað gott lið. Þetta eru satt að segja mjög jöfn lið að getu og þetta einvígi hefði hæglega getað dottið hvorum megin sem er. Maður spyr sig líka hvernig farið hefði ef Breiðablik hefði ekki verið að spila toppleik í deildinni örfáum dögum fyrir þennan mikilvæga Evrópuleik. Þeir voru mjög lengi í gang og án efa þreytumerki á liðinu. Við komumst aldrei að því. En nú þarf liðið og stuðningsfólkið að taka á öllu sínu gegn Virtus frá San Marínó og tryggja þannig skemmtilega Evrópuleiki fram eftir hausti. Við þurfum öll að mæta á völlinn. 

Úlfar Harri

Til baka