BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pepsi MAX deild karla 2019: Breiðablik – KA miðvikudag kl.18:00!

05.08.2019

Strákarnir okkar fá mjög verðugt verkefni á miðvikudaginn þegar KA-menn koma í heimsókn í Kópavoginn. Leikurinn hefst kl.18:00!

Blikar eru í næst-efsta sæti Pepsi MAX deildarinnar með 23 stig en KA menn verma næst-neðsta sætið með 16 stig. Í síðustu 5 leikjum eru liðin með nákvæmlega sama árangur; 1 sigur, 1 jafntefli og 3 töp. KA vann FH 1:0 í síðasta leik fyrir norðan en Blikar töpuðum síðasta leik 3:2 fyrir Víkingum í Víkinni.

Þrátt fyrir tapið í Víkinni var Blikaliðið að spila flottan fótbolta. Boltinn fékk að fljóta vel með jörðinni og við komum okkur í fínar stöður og fengum nokkur góð tækifæri til að skora fleiri mörk. Og það má ekki gleyma því að við skoruðum 2 mörk og í flestum tilfellum hefði það dugað til að taka þrjú stig.

En við verðum að fara að sigra í leikjum ef ekki á illa að fara þegar upp per staðið í lok september. Það eru 4 deildarleikir á dagskrá í ágúst og 4 leikir í september: 8 deildarleikir = 24 stig í boði. Stigaöflun Blikliðsins apríl-júní var á pari og yfir í samanburði við apríl-júní í fyrra. Í apríl tökum við 3 stig af 3 mögulegum (100%). Í maí 10 stig af 15 mögulegum (67%). Í júní vinnur liðið 9 stig af 12 mögulegum (75%). Í júlí í ár er árangurinn mjög rýr eða aðeins 1 stig af 12 mögulegum (8%), en júlí í fyrra var gjöfulli. Þá náði liðið í 11 stig af 15 mögulegum (73%). Í ágúst í fyrra tók liðið 6 stig af 12 mögulegum (50%). Blikaliðið kláraði svo mótið í fyrra með stæl og landaði 10 stigum af 12 mögulegum í september (83%).

Við erum með góðan mannskap í höndunum en leikmennirnir og þjálfararnir verða að finna þá blöndu sem dugir til að landa sigri. Þrátt fyrir góða spilamennsku á köflum í undanförnum leikjum erum við að gera afdrifarík mistök sem verða þess valdandi að við fáum ekkert út úr leikjum. Þessu gengi verður að snúa við!

KA og Breiðablik á Akureyri 15.05.19

Leikurinn byrjaði með miklum látum. Menn voru rétt sestir þegar Thomas þvingaði KA-menn til að gefa hornspyrnu. Upp úr henni var hann togaður niður og víti réttilega dæmt. Hann fór sjálfur á punktinn og lét reyna á þanþol netmöskvanna. Nánar á blikar.is

Klippur úr leiknum í boði BlikarTV

Sagan

Heilt yfir fellur sagan með Blikum þegar úrslit allra mótsleiki liðanna er skoðuð. Mótsleikirnir eru samtals 39 í öllum mótum frá upphafi. Blikar hafa yfirhöndina með 25 sigra gegn 10 sigrum KA manna og jafnteflin eru 4. Meira>

A-deild: 17 leikir (12-2-3) / B-deild: 10 leikir (6-1-3) / Bikarkeppni: 4 leikir (1-0-3) / Deildarblikar KSÍ: 8 leikir (6-1-1)

Efsta deild

Innbyrðis viðureignir liðanna í efstu deild eru 17 leikir. Blikar leiða þar með 12 sigra gegn 3 sigrum KA manna. Liðin skora mikið í þessum 17 leikjum eða 47 mörk.

Blikaliðinu hefur gengið vel gegn KA á Kóapvogsvelli. Í 8 efstu deildar leikjum gegn Akureyrarliðinu frá 1978 til 2018 hafa blikar unnið 6 viðureignir, gert 1 jafntefli og tapað einu sinni.

Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild á Kópavogsvelli dreifast á tímabilið 1978 – 2018. Nánar>

Síðustu deildarleikir gegn KA á Kópavogsvelli

2018: Gott silfur! Blikar unnu öruggan 4:0 sigur á KA mönnum í lokaleik Pepsi-deildarkeppnistímabilið 2018. Nánar>

2017: Blikar fengu skell gegn nýliðunum í fyrsta leik í Pepsi-deild karla 2017. Nánar>

Sögustund

Góðar tengingar hafa verið milli liðanna í gegnum árin. Núna eru 2 fyrrverandi leikmenn Breiðabliks að spila og starfa með KA-liðinu. Steinþór Freyr Þorsteinsson og Elfar Árni Aðalsteinsson. Einnig er framkvæmdastjóri KA, Sævar Pétursson, fyrrverandi leikmaður Blika með 119 mótsleiki og 23 mörk með Blikum.

Svo má ekki gleyma því að bræðurnir og Stór-Blikarnir Einar, Hinrik og Þórarinn Þórhallssynir (Huldusynir) hafa allir leikið með báðum liðum. Einar 1979, Þórarinn (Tóti) 1983/1984 og Hinrik lék yfir 100 leiki með KA á árunum 1981 til 1987. Nánar>

Leikmenn

Leikmannahópur Blika er töluvert breyttur frá síðasta tímabili. Viktor Karl Einarsson kemur frá Varnamo í Svíðþjóð þar sem hann var á láni frá AZ Alkmaar. Þórir Guðjónsson kemur til okkar frá Fjölni. Kwame Quee kemur frá Víkingum í Ólafsvík en er svo lánaður til Reykjavíkur Víkinga í júlí-glugganum. Guðjón Pétur Lýðsson kemur frá KA. GPL10 lék í fyrra með Íslandsmeisturum Vals. Einnig er Thomas Mikkelsen með Blikum frá fyrsta mótsleik í ár. Thomas kom til okkar í júlí-glugganum í fyrra. Rétt fyrir mót ganga Höskuldur Gunnlaugsson og Arnar Sveinn Geirsson til liðs við Breiðablik. Höskuldur kemur á láni til okkar út keppnistímabilið frá Halmstads BK. Arnar Sveinn Geirsson kemur til okkar frá Íslandsmeisturum Vals og gerir tveggja ára samning við Breiðablik. Svo er Gísli Eyjólfsson kominn til baka eftir rúmlega hálfs árs dvöl á láni hjá sænska 1.deildarliðinu Mjallby. Þá er Aron Bjarnason farinn til ungverska úrvalsdeildarliðsins Újpest. Og Blikinn snjalli Kolbeinn Þórðarson hefur samið við belgíska 1. deildarliðið Lommel til þriggja ára. Og rétt fyrir gluggalok kvittaði Alfons Sampsted upp á lánssamning frá Norrköpingút keppnistímabilið 2019. 

Leikmannahópur Breiðabliks 2019

Dagskrá

Við hvetjum að sjálfsögðu alla Blika að mæta snemma á miðvikudaginn og styðja strákana okkar til sigurs.

Slepptu röðinni – sæktu Stubb! Stubbur auðveldar stuðningsmönnum að kaupa miða á leiki í Pepsi Max. Smelltu hér til að ná í appið í dag.

Það verður kaldur í nýju tjaldi, börger á grilli og rjúkandi kaffi.

Sparkvellir verða á sínum stað fyrir krakkana.

Veðurspáin fyrir Kópavogsvöll á miðvikudaginn er fín.

Leikurinn á Kópavogsvelli hefst kl.18:00!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka