BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pepsi MAX 2021: Breiðablik - Keflavík

13.05.2021 image

Þriðja umferð Pepsi MAX karla 2021 fer fram miðvikudag og fimmtudag í þessari viku. Á fimmtudagskvöld er leikur hjá okkar mönnum. Aftur fáum við nýliða en lið Keflavíkur kemur í heimsókn á Kópavogsvöll. Flautað verður til leiks kl.19:15. Leikurinn verður sýndur í beinni á Stöð 2 Sport.

Svona lítur stöðutaflan út eftir 2 umferðir:

image

Sagan

Keflavíkurliðið er sá andstæðingur sem Breiðablik hefur oftast keppt við í opinberum mótum frá upphafi knattspyrnudeildar Breiðabliks árið 1957.

Samkvæmt vef KSÍ eru innbyrðis leikir Breiðabliks og Keflavíkur 81 í opinberum mótsleikjum frá árinu 1962. Blikar leiða með 37 sigra gegn 30 sigrum Keflavíkurliðsins. Jafnteflin eru 14. Skoruð mörk eru 295 og skiptast þannig að Blikar hafa skorað 144 mörk gegn 151 marki Keflvíkinga.

Reynar er heildarfjöldi mótsleikja 123 leikir þegar leikjum sem ekki eru skráðir á KSÍ er bætt við. Um er að ræða 3 leiki í gömlu B-deildinni og 37 leiki í Litlu bikarkeppninni árin 1965 - 1995. Fyrstu opinberi leikur liðanna, er 8:0 tap Blika gegn Keflavík á Njarðvíkurvelli 23 júní 1957 en árið 1957 var fyrsta árið sem Breiðablik sendi lið til keppni í meistaraflokki karla. Síðari 2 leikirnir voru í gömlu B-deildinni árið 1962. Leikur 24. júní 1962 tapaðist 2:3. Leikurinn var heimaleikur Breiðabliks og spilaður á gamla Melavellinum sem þá var heimavöllur Breiðabliks þar til Vallargerðisvöllur í Kópavogi var vígður árið 1964. Hinn leikurinn 1962 fór fram í Keflavík og tapaðist 8:2. Og svo eru það 37 leikir í Litlu bikarkeppninni eins og áður segir.

image

1977 Litli Bikarinn á Vallargerðisvelli. Breiðablik - Keflavík 1-1. Á mynd: Ólafur Hákonarson, Magnús Steinþórsson og Einar Þórhallsson. Mynd: DV

Efsta deild

Innbyrðis viðureignir liðanna í efstu deild eru 56 leikir. 

Fyrsti efstu deildar leikur liðanna var árið 1971 – sama ár og Breiðablik lék í fyrsta sinn í efstu deild. Í 56 efstu deilar viðureignum liðanna hafa Keflvíkingar unnið 23 leiki, Breiðablik 20 og jafntefli er niðurstaðan í 13 viðureignum. Markatalan er 98:86 okkar mönnum í óhag. 

En ef við færum okkur aðeins nær í tíma og lítum á tölfræðina, eins og hún er eftir að Blikar koma aftur upp í efstu deild árið 2006, þá er tölfræðin með Blikum. Í 22 efstu deildar leikjum liðanna frá 2006 til 2018 leiða Blikar með 11 sigra gegn 5 sigrum Keflvíkinga. Jafnteflin eru 6. Liðin skora 80 mörk í þessum leikjum, Blikar 43 mörk gegn 37 mörkum Suðurnesjaliðsins.

Síðustu 5 deildaleikir á Kópavogsvelli:

Leikmannahópurinn

Tíðindamaður blikar.is spurði Óskar Hrafn þjálfara um stöðuna á leikmannahópnum og þá sérstaklega um Viktor Karl, Elfar Frey og Davíð Örn. 

"Viktor Karl er klár í slaginn en Elfar Freyr og Davíð munu að öllum líkindum byrja að æfa á fullu næstu viku. Að öðru leyti eru allir heilir og tilbúnir" sagði Óskar Hrafn. 

Leikmannahópur Breiðabliks 2021:

image

Stuðningsmaðurinn

Segja má að SpáBliki þriðju umferðar, sé öfgasinnaður Kópavogsbúi, er fæddur í bænum og hefur búið í kringum Álfhólinn meira og minna alla sína hunds- og kattartíð, en þaðan sér of veröld alla.

Pétur Már Ólafsson: Hvernig fer leikurinn?

„Þegar ég á æskuárum ungur var,“ eins og segir í kvæðinu, var ÍBK stórveldi sem vann titla í það minnsta annað hvert ár. Undanfarið hefur gengi Keflvíkinga aftur á móti verið heldur lakara. Reykjanesskaginn hefur haft hægt um sig um aldir en þar er nú farið að gjósa. Gildir það sama um hinn forna knattspyrnurisa? Er hann að vakna? Hjá Suðurnesjamönnum eru þrjú stig í húsi eftir að „Keflvíkingar keyrðu yfir Stjörnuna“, eins og hinn hlutlausi Moggi orðaði það. Og Stjarnan gerði jafntefli við Leikni – eins og sumir.

Það getur sannarlega brugðið til beggja vona á fimmtudaginn. Mér segir samt svo hugur að okkar menn taki upp þráðinn þar sem frá var horfið í lokin á móti Leikni og skelli Keflvíkingum með tveimur mörkum gegn engu. Kjaftshöggið á Kópavogsvelli í fyrstu umferð er að baki, brasið í Breiðholti um helgina er í ösku og tími kominn til að gyrða sig í brók. Enda er staðan þannig að ef við vinnum rest fer bikarinn í Smárann. Þetta þarf ekki að vera flókið.

image

Reykjanesskagi gýs eftir margra alda hlé – er Suðurnesjarisinn líka að rumska á knattspyrnusviðinu?

Dagskrá

Góðar fréttir! Nýjar reglur þýða að Kópavogsvöllur getur tekið á móti 600 áhorfendum á fimmtudaginn - 450 í aðalstúkuna og 150 í gömlu stúkuna.

Miðasala á Tix.is

image

Hamborgarar verða á grillinu og meðlæti í sjoppunni. Njótið vel!

Leikurinn hefst kl.19:15 og er sýndur í beinni á Stöð 2 Sport.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Klippur úr síðasta leik liðanna sem var í Fótbolta.net mótinu í Reykjaneshöllinni í lok janúar á þessu ári:

Til baka