BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Öruggt í efri byggðum!

22.01.2022 image

Það var fámennt í Kórnum enda áhorfendabann. Aldrei verið færri áhorfendur á innbyrðis mótsleik þessara liða (staðfest)

Blikar unnu öruggan 2:0 sigur á HK-ingum í síðasta leik riðilsins í fotbolti.net mótinu. Leikurinn átti að fara fram á Kópavogsvelli en var færður inn í Kórinn til að sleppa við vindstrengi sem buldu á höfuðborgarsvæðinu. Því miður máttu engir áhorfendur mæta á leikinn en spiidieo kerfið gerði áhugasömum Blikum fært að berja leikinn augum. Reyndar höfðu forráðamenn fyrirtækisins stillt myndavélinni svo hátt upp í heiðursstúkunni í Kórnum og því var stundum erfitt að þekkja leikmennina í sundur. En aðalatriðið var nú samt að geta séð leikinn í streymi.

Strax frá byrjun var ljóst að Blikar ætluðu ekki að gefa tommu eftir í leiknum. Boltinn gekk hratt manna á millum og ef hann tapaðist voru strax 2-3 leikmenn komnir að pressa HK-ingana. Við tókum því smám saman yfir völdin en það var samt ekki fyrr en á 30. mínútu að Gísli skoraði fyrra markið sitt eftir flottan undirbúning Jasons Daða.  Skömmu fyrir leikhlé bætti Gísli öðru marki sínu við en nú eftir frábæran snúning hjá Kidda Steindórs. Staðan því 2:0 í leikhléi.

Síðari hálfleikur var rólegri. Blikar stjórnuðu öllum leiknum og áttu þeir rauðklæddu ekki eitt einasta færi í háfleiknum. En hungrið var ekki alveg nógu mikið í þeim grænu og þrátt fyrir nokkur þokkaleg færi þá náðum við ekki að bæta við fleiri mörkum. Lokatölur því 2:0 sigur og þar með erum við komnir úrslit á fotbolti.net mótinu 2022. Andstæðingar okkar verða að öllum líkindum Stjörnumenn og verður leikurinn spilaður um næstu helgi.

-AP

image

Þetta var þriðji sigur Blika af þremur mögulegum í riðlinum og leikur liðið því til úrslita en líklegast er að liðið mætir Stjörnunni sem er með fullt hús stiga í riðli 2.

Til baka