BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Næsta Evrópuverkefni tekur við

31.07.2025 image

Blikar urðu að lúta í gras 0:1 gegn sterku meistaraliði Lech Posnan  á Kópavogsvelli í gærkvöldi. Spilamennska okkar pilta var góð en heppnina vantaði að þessu sinni til að ná í betri úrslit. Það má því segja að við höfum fallið með sæmd úr undankeppni Meistaradeildarinnar eftir erfiðan útleik í Póllandi.

Forsvarsmenn knattspyrnudeildar voru nú ekki vongóðir að mæting yrði sérstaklega góð á þennan leik eftir slæm úrslit úr fyrri leiknum. En menn ráku upp stór augu þegar miðasalan fór á fullt skrið nokkrum dögum fyrir heimaleikinn. Þegar leikdagur rann upp bjartur og fagur reyndist vera uppselt á leikinn! Og þegar hliðinu voru opnuð klukkutíma fyrir leik þá kom skýringin í ljós. Um 5% af öllum Pólverjum á Íslandi höfðu ákveðið að mæta á leikinn!

Kiddi keðja og hans fólk í öryggisgæsluteyminu og sjálfboðaliðarnir frá Blikunum í öryggisgæslunni klóruðu sig í kollinum og veltu fyrir sér hvernig væri hægt að tryggja ró og frið á vellinum. En þetta reyndust óþarfa áhyggjur. ,,Últras“ stuðningsmennirnir sem komu sérstaklega frá Póllandi til að sjá leikinn voru settir í gömlu stúkuna og þar höfðu Siggi Thor, bræðurnir Siggi og Raggi Sverrissynir og Ólafur Hjálmarsson góð tök á öryggisgæslunni.

Íslendingar og Pólverjar blönduðust vel í nýju stúkuni og þar var bara stemming. Að vísu komu tilskipanir frá lögreglunni að ekki mætti fara með bjór upp í stúkuna og höfðu Blikarnir í öryggisteyminu í nýju stúkunni í nógu að snúast að snúa fólki til baka með glösin sín. Sem betur fer tóku langflestir þvi ljúfmannlega og kláruðu veigarnar áður en fólkið snéri aftur í sætin sín. Bjórsala á leikjum hefur verið umdeild og eru þessar nýju reglur ágætis millileið á milli þeirra sem vilja stoppa algjörlega sölu á söngvatninu og þeirra sem vilja hafa sem mest frelsi í þessum málum.

Leikurinn sjálfur bar þess mikil merki að engin trúði því að Blikar gætu snúið taflinu sér í vil. En Blikaliðið spilaði fína bolta og var óheppið að skora ekki í leiknum. Þegar leikið er gegn svona sterkum andstæðingum eins og Lech Posnan má ekki gera nein mistök. Og við gerðum ein mistök og því fór sem fór. Það jákvæða við leikinn er að yngri leikmenn fengu eldskírn i Evrópuleik og þjálfararnir gátu rúllað vel á mannskapnum.

Næsta verkefni Blikaliðsins er leikur gegn KA í Bestu deildinni á sunnudag kl.16.30 á Kópavogsvelli. Og svo nokkrum dögum síðar mætum við bosníska meistaraliðinu Mostar í Bosníu 7. ágúst undankeppni Evrópudeildarinnar. Heimaleikurinn verður síðan á Kópavogsvelli fimmtudaginn 14. ágúst. Við eigum harma að hefna gegn því liði og nú þurfa allir góðir Blikar að taka 14. ágúst frá og mæta með fjölmenni á Kópavogsvöll

Áfram Blikar- alla leið!

AP

Til baka