BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Mörkin telja

05.05.2023 image

Fótboltinn er skrýtin skepna, það sannaðist enn og aftur í kvöld þegar Blikar sóttu granna okkar í Garðabæ heim í 5 umferð Bestu deildarinnar. Bæði lið í dramatískum viðureignum í 4. umferðinni. Okkar menn með góðan sigur gegn Fram í sannkölluðum markasúpuspennutrylli í Árbænum og Stjörnumenn með súrt tap á Hlíðarenda eftir að hafa unnið upp 2ja marka forystu Valsmanna. Nóg um það. Slatti af Blikum í stúkunni í kvöld en hefðu sannarlega mátt vera fleiri. Heyrðist varla bofs. Annað var uppi á teningnum hjá heimamönnum, sem voru álíka margir og kannski eilítið færri, en trölluðu og sungu allan leikinn og studdu vel við bakið á sínum mönnum. Við skíttöpuðum sem sagt fyrir Silfuskeiðinni. Hvar er Hilmar Jökull? Það þarf að sækja manninn strax!
Veðrið sæmilegt, alskýjað með goluskít af austri og hiti rétt um 8°C. Margar góðar minningar úr þessari stúku ylja en dugðu ekki til að halda á manni hita enda stúkan álíka hlý og notaleg og ísskápur.

Liðsskipan okkar manna í kvöld var sem hér segir;

image

Blikar byrjuðu með boltann og héldu honum fyrstu 2 mínúturnar áður en heimamenn komust í tæri við hann. Svo var þetta jafnt í nokkrar mínútur en á 9. mínútu kom fyrsta mark leiksins. Blikar voru með boltann á vallarhelmingi Stjörnumanna og brotið var á okkar manni en dómarinn beitti hagnaði og Blika komust að vítateignum og þar kom Patrik boltanum til Gísla sem lék laglega á varnarmann og lagði svo boltann snyrtilega í bláhornið. Notaði hægri fótinn til þess arna og af mikilli yfirvegun. 0-1 og tóku nú Blikar við sér í stúkunni. Ekki aldauðir.

image

Og nú var stutt í næsta skammt og hann var líka vel fram reiddur. Eftir klafs í vítateig heimamanna barst boltinn til Viktors Karls sem lyfti boltanum snyrtilega inn fyrir með öfugum snúningi. Jason náðu boltanum alveg við endamörk og gaf fyrir markið beint á kollinn á Stefáni Inga sem gerði engin mistök og skallaði af öryggi í netið. Vel gert hjá okkar mönnum en þarna sváfu heimamenn illa á verðinum, héldu kannski að Jason myndi ekki ná boltanum á endalínunni. Staðan 0-2 og Blikar í sjöunda himni.

image

Áfram héldu okkar menn næstu mínúturnar. Hörkuskot Patriks frá vítateig sleikti stöngina og okkar menn voru eins og gammar sveimandi í kringum heimamenn og hirtu af þeim boltann hvað eftir annað. Bara eitt lið á vellinum. En þetta breyttist eins og hendi væri veifað og á 2 mínútum sneru Stjörnumenn leiknum sér í vil og tóku öll völd á vellinum. Okkar menn létu axlirnar síga, lögðust í þver- og feilsendingar á eigin vallarhelmingi og næstu 25 mínútur var leikur okkar manna í henglum. Leikmenn héldu ekki boltanum, fóru norðanmegin í vanhugsuð návígi, náðu sér í klaufaleg spjöld og engu líkara en þeir væru í álögum. Anton Ari, sem hefur legið undir nokkurri gagnrýni í byrjun móts kom hins vegar í veg fyrir að heimamenn næðu að gera sér mat úr klaufagangi okkar manna. 3 stórbrotnar markvörslur þegar maður var búinn að bóka mark og Anton öruggur í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Vel gert. Svona svara menn fyrir sig.
Patrik þurfti að yfirgefa völlinn eftir návígi og Ágúst Hlynsson kom inn í hans stað. En það var Stefán Ingi sem átti lokaorðið af okkar hálfu þegar hann komst einn í gegn í lok hálfleiksins. Hann gerði mjög vel í að halda í skefjum varnarmanni sem hékk á honum, en náði ekki alveg nógu góðu skoti og boltinn naumlega framhjá. 

Staðan því 0-2 i leikhléi og það skal játað hér að það var vel sloppið, sé öllu til skila haldið. Heimamenn hefðu hæglega getað sett 1-2 mörk á okkur.
Lítill tími til að gæða sér á mat & drykk. Miklar og heitar samræður um liðið og sýndist sitt hverjum. Frábært korter, svo ferlegur kafli og loks smá glæta í lokin. Sumir hafa bara ekki smekk fyrir svona sveiflum. Menn samt þokkalega sannfærðir eða eigum við að segja vongóðir um að þjálfarar myndu stilla varnarleik liðsins af fyrir seinni hálfleikinn. 

Svo hófst hann og heimamenn heldur hressari til að byrja með en smám saman jafnaðist þetta og leikurinn róaðist. Ágúst átti góða tilraun úr aukaspyrnu sem markvörður varði í slá og aftur fyrir. Jason komst í góða stöðu en varnarmaður komst fyrir sendingu hans og bjargaði í horn. Annars var fátt tíðinda annað en Oliver og Arnór komu inn fyrir Anton Loga og Andra Rafn og skömmu síðar kom Klæmint inn fyrir Stefán Inga. Hjá Stjörnunni var ekkert að frétta og Blikar lokuðu vel á flestar tilraunir þeirra til að koma sér inn í leikinn með marki. Undir lok leiks fékk Jason hins vegar dauðafæri en hitti ekki markið og Klæmint fékk álitlegt færi sömuleiðis en hitti bara markvörðinn. Blikar sigldu sigrinum nokkuð örugglega heim og fóru því burt með öll stigin. Það er það sem skiptir máli og við erum enn með í mótinu.
Frammistaðan kannski ekki jafn fulkomin og  úrslitin en það má bæta. Umhugsunar- og kannski áhyggjuefni hve gjörsamlega slökknaði á liðinu eftir frábæra byrjun og tvö falleg mörk. Anton Ari fær plús í kladdann að þessu sinni fyrir að halda hreinu. Það er að vísu hans hlutverk en það má segja að hann hafi staðið sig sérlega vel í vinnunni í kvöld. 

Næsti leikur okkar manna er gegn heimamönnum í Lautinni í Árbænum á mánudaginn næsta kl. 20:15.

Þangað mætum við og vonandi kemur líka Hilmar Jökull með fúttið og trommuna. Þá gæti orðið gaman.

Áfram Breiðablik

OWK

image

Til baka