BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Mjólkurbikar 2018: Valur-Breiðablik - 8-liða úrslit!

23.06.2018

Leikir í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarkeppni KSÍ 2018 hefjast á mánudaginn með 3 leikjum. Blikar eiga leik gegn Val á Origo-vellinum. Liðin áttust síðast við í Bikarkeppni KSÍ á Kópavogsvelli fyrir 10 árum, en 25 ár eru liðin síðan liðin mættust á heimavelli Vals. Leikur liðanna á Origo-vellinum á mánudaginn hefst kl. 20:00!

Leið liðanna í 8-liða úrslit

Í 16-liða úrslitum unnu Blikar KR 1:0 í miklum baráttuleik á Kópavogsvelli. Nánar um leikinn. Sama dag unnu Valsmenn Bikarmeistara ÍBV 3:2 á Origo-vellinum.

Í 32-liða úrslitum unnu Blikar 1-3 þolinmæðissigur á Leiknismönnum í Breiðaholtinu. Valsmenn sigruðu lið Keflavíkur 2:0 á Origo-vellinum.

Sagan

Innbyrgðis viðureignir liðanna í Bikarkeppni KSÍ frá 1965 til dagsins í dag eru 11 leikir + leikur gegn U-23 liði Vals árið 1995, nánar.

Fyrsti bikarleikur liðanna var í 2. umferð á Melavellinum í ágúst 1965 í leik sem B-lið Vals vann 3:1.

Sagan sýnir að Blikum hefur reynst erfitt að ná hagstæðum bikarúrslitum á útivelli gegn Val. Valsmenn hafa yfirhöndina í bikarleikjum. Eru með 6 sigra gegn 4 sigrum Blika og 1 jafntefli, en framlengdum undanúrslitaleik liðanna á Laugardalsvelli í 31. ágúst 1976 lauk með 0:0 jafntefli. Reglur þess tíma sögðu að spila þyrfti annan leik til að fá úrslit, leik sem Valsmenn unnu 0:3 á Kópavogsvelli 2. september. Valsmenn urðu svo Bikarmeistarar 1976 eftir 3:0 sigur gegn ÍA á Laugardalsvelli.

5-4 viðureign liðanna á Valsvelli árið 1991

Viðureign liðanna í 4-liða úrslitum árið 1991 bauð upp á allt. Eftir 120 mínútna leik var staðan 1-1 (Steindór Elíson á 53. mín og Gunnar Már Másson á 60. mín) og úrslitin réðust ekki fyrr en í fimmtu vítaspyrnu Blika þegar Steindór Elíson skaut framhjá markinu. „Líklega var ég of öruggur með mig, ég sá að Bjarni var farinn af stað í hægra hornið og ætlaði því að renna boltanum í það vinstra. Ég hitti hann illa og það er óneitanlega sárt að tapa leiknum á þennan hátt,“ sagði Steindór eftir spyrnuna.

Vítakeppnin*:

*Athyglisvert að af 9 leikmönnum sem tóku víti í leiknum árið 1991 hafa 6 spilað með Breiðabliki og einn er nú aðalþjálfari meistarflokks karla.

Jóhann Berg Guðmundsson skorar í sigri á Val 2008

Nokkrir núverandi HM farar tókust á þegar Breiðablik vann Val 1:0 í 16-liða úrslitum Bikarkeppninnar á Kópavogsvelli 3. júlí 2008, en þá höfðu liðin ekki mætt hvort öðru í bikarleik síðan í 2:0 sigurleik Blika á Kópavogsvelli 8. júlí 1999.   

Jóhann Berg Guðmundsson spilaði allan leikinn og skoraði mark Blika á 67. mín. „Ég er búinn að bíða lengi eftir þessu marki og það var tilvalið af fá það á þesaari stundu.“ sagði hinn 17 ára Jóhann Berg Guðmundsson, leikmaður Breiðabliks. Jóhann skaut Blikum í 8-liða úrslit VISA-bikarsins með því að skora eina markið í 1-0 sigri á Val.

Birkir Már Sævarsson var í byrjunarliði Vals og spilaði allan leikinn. Alfreð Finnbogason var hinsvegar ónotaður varamaður Blika í leiknum. Guðmundur Benediktsson kom inn á hjá Val á 55. mín. Sjá leikskýrslu KSÍ hér.

Blikar fylgdu svo eftir sigrinum á Val með því að vinna lið Keflvíkinga í 8-liða úrslitum 3:2 í á Kópavogsvelli með tveimur mörkum frá Jóa Berg og sigurmarki frá Magga Palla á 84. mín eftir að, aðstoðarþjálfarinn okkar, Guðmundir Steinarsson jafnaði leikinn 2-2 fyrir Keflvíkinga á 64. mín.

Undanúrslitaleikurinn við KR er mörgum Blikum enn í fersku minni. Það var hart barist innan vallar sem utan. Dómarinn, Jóhannes Valgeirsson, gaf 7 spjöld á liðin & liðsstjórn. Jafnt var eftir venulegan leiktíma 0-0. Bæði liða skora mark í framlengingu. Fyrst Marel Baldvinsson fyrir Blika á 96. mín en Pétur Marteinsson jafnar fyrir KR á 101. mín. KR-ingar vinna vítakeppnina örugglega og verða svo Bikarmeistarar 2008 með því að sigra Fjölni 1-0 í úrslitaleiknum.

Áfram Breiðablik !

Sjáumst öll á Origo-vellinum á Mánudagskvöld og hvetjum okkar menn til sigurs.

Valsmenn eru ríkjandi Íslandsmeistarar og hafa verið á blússandi siglingu í deildinni að undanförnu. Við vorum hins vegar frekar óheppnir að tala fyrir þeim fyrr í sumar og strákarnir okkar eru staðráðnir að komast áfram í Mjólkurbikarnum.

Leikurinn hefst kl. 20:00!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka