Ljótustu sigrarnir eru oft þeir sætustu!
20.07.2025


Blikar létu sér nægja að skora eitt mark gegn bitlausum Vestramönnum á Kópavogsvelli í gær. Það var Viktor Karl sem setti markið á smekklegan hátt strax á tíundu mínútu leiksins.

Þrátt fyrir mikla yfirburði tókst okkar drengjum ekki að bæta við mörkum en það skipti ekki máli því mark Viktors var það eina í leiknum. Leiksins verður ekki minnst fyrir falleg tilþrif en eins og einn ágætur maður sagði ,,ljótustu sigrarnir eru oft þeir sætustu.“
Það voru höggvin nokkur skörð í Blikaliðið í þessum leik. Valgeir, Ásgeir Helgi og Arnór Gauti voru allir í leikbanni eftir að hafa fengið aðeins of mörg gul spjöld í undanförnum leikjum. Þar að auki á Andri Rafn enn við meiðsli að stríða og ekki alveg vitað hvenær hann verður leikfær á nýjan. En það gladdi stuðningsmenn Blika óendanlega að sjá Damir Muminovic aftur í græna búningnum. Hann lék hægra megin í þriggja manna vörn í fyrri hálfleik og virtist aðeins ryðgaður til að byrja með. En þegar þjálfararnir breyttu í fjögurra manna varnarlínu í síðari hálfleik og Damir kom sér fyrir við síns gamla makkers Viktors Arnars þá sá maður glitta í gömlu snillina á nýja leik! Velkominn heim Damir!
Vestfirðingarnir spiluðu fast á okkur í fyrri hálfleik og áður en flautað var til leikhlés höfðu fjórir þeirra fengið gula spjaldið. Dómarinn hefði gjarnan getað tekið fastar á gestunum því mörg þessara brota voru algjör óþarfi og menn allt of seinir í tæklingar. Svo kórónaði dómarinn þessa vitleysu með því að gefa Óla Val gult spjald fyrir það sem hann taldi leikaraskap. Staðreyndin var sú að leikmaður Vestra gaf Óla Val fasta eyrnarfíkju þannig að hann steinlá. Svo kom allt í einu gult spjald á okkar mann. Hvaða bull er þetta!
Annars voru mörg góð tilþrif hjá okkar drengjum í leiknum. En einbeitingu og smá heppni vantaði til að skora fleiri mörk. Danska dýnamítið okkar Tóbias Thomsen átti til dæmis frábær tilþrif undir lok fyrri hálfleiks þegar hann reyndi bakfallsspyrnu en knötturinn small í stöng gestanna. Í síðari hálfleik átti síðan Daninn aftur skot í stöngina. Aron Bjarnason kom inn á um miðjan síðari hálfleik og átti sannkallað dauðafæri en skaut beint á markvörðinn. En eitt mark dugði að þessu sinni og við nýtum bara færin betur gegn Lech Posnan í næsta leik!
Laugardagar kl.14.00 um mitt sumar hafa ekki talist bestu dagarnir til að draga að áhorfendur. Það reyndist raunin og aðeins rúmlega 600 áhorfendur lögðu leið sína á leikinn að þessu sinni. Það telst nú frekar slakt hjá okkur Blikum en er þó ívið betra en hjá flestum öðrum liðum í deildinni. Hins vegar gerir þátttaka okkar í undankeppni Meistaradeildar það nauðsynlegt að spila á þessum óheppilega tíma.
Að vanda voru Kópacabanadrengirnir undir tryggri forystu Hilmars Jökuls og Sindra trommara mættir og studdu vel við bakið á Blikaliðinu. Þessi stuðningur er ómetanlegur enda hafa leikmennirnir haft orð á því að stuðningurinn úr stúkunni sé í raun 12 leikmaður þeirra. Hafið mikla þökk fyrir Kópacabana strákar!
Liðið okkar er nú á leið til Póllands þar sem það mætir pólsku meisturunum í Lech Posnan í næstu umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu. Leikurinn fer fram í Posnan á þriðjudaginn og verður leikurinn sýndur í beinni útsendingu á Sýn kl.18.30. Við gerum ráð fyrir að Blikar muni safnast saman í Græna herberginu í stúkunni á Kópavogsvelli til að horfa á leikinn saman. Þetta verður eitthvað!
-AP
@breidablikfc @ViktorEinarsson með of mikið Aura ????↕️???????? #aurafarming ♬ original sound - Breidablik FC