BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Lengjubikarinn 2020: Breiðablik - ÍA á föstudag kl.19:15!

26.02.2020 image

Næsti leikur strákanna í Lengjubikarnum 2020 er við sjóðheita Skagamenn á föstudagskvöld kl.19:15 á Kópavogsvelli. Frítt er inn á leikinn.

Þetta er þriðji leikur beggja liða í mótinu. Blikamenn eru með 6 stig eftir sigur í fyrstu 2 leikjunum.

Skagamenn eru með 3 stig eftir tvo leiki. Þeir töpuðu fyrsta leiknum gegn KR 2:4 en unnu góðan 3:0 sigur gegn Leiknismönnum um helgina.

Sagan

Leikurinn á föstudaginn verður 116.mótsleikur Breiðabliks og ÍA frá upphafi.

Liðin hafa mæst 8 sinnum innbyrðis í Lengjubikarnum (Deildabikar).

Þeir eru ekki margir innbyrðis leikir liðanna í 24 ára sögu Deildabikarsins. Sjö sinnum hafa liðin mæst í Deildabikarnum (Lengjubikarnum). Síðust 3 leikir hafa allir endað með 2:2 jafntefli. Blikar sigra leikina 4 þar á undan. Blikar tapa fyrir ÍA í fyrsta úrslitaleik Deildabikarsins árið 1996. KSÍ sá um skipluag Deildabikarsins frá upphafi. Fram að þeim tíma var Litla bikarkeppnin/Litli bikarinn 1961-1995 mótið sem Faxaflóaliðin nýttu sér til undirbúnings fyrir keppnistímabilið. Mótið byrjaði árið 1961. Aðal hvatamaður að stofnun Litlu bikarkeppninnar var Albert Guðmundsson. Mótið var hugsað sem æfingamót fyrir utanbæjarliðin vegna Íslandsmóta. Leikin var tvöföld umferð með einhverjum undantekningum. Fyrstu 4 árin 1961-1964 voru þetta 4 lið: Keflavík, Akranes og KRH (Knattspyrnuráð Hafnarfjarðar = FH og Haukar). Breiðablik bætist við árið 1965. Þannig er svo fyrirkomulag keppninnar næstu 10 árin. Árið 1976 verða liðin 5 þegar í FH og Haukar mæta til leiks sem sitt hvort liðið en ekki undir merkjum KRH. Þetta 5-liða fyrirkomulagið varði næstu 12 árin. Eftir að Selfyssingar, Stjörnumenn og Víðismenn bætast við árið 1987 eru liðin orðin 8. Tekin er upp einföld umferð og riðlaskipting. Árið 1993 eru þáttökulið orðin 12 þegar Grindavík, ÍBV, HK og Grótta bætast við. Undir lok 34 ára sögu Litla bikarsins (Litlu bikarkeppninnar) árið 1995 voru þáttökuliðn orðin 16: Afturelding, Breiðablik, FH, Grindavík, Grótta, Haukar, HK, ÍA, ÍBK, ÍBV, Reynir, Selfoss, Skallagrímur, Stjarnan, Víðir og Ægir.  Leikið var í 4 riðlum frá 20.apríl til 1.maí. 8-liða úrslit fór fram dagna 4. og 5. maí. Undanúrslit 9. maí. Skagamenn unnu sinn undanúrslitaleik 3:1 gegn ÍBK á Akranesvelli og léku því til úrslita gegn FH-ingum sem unnu Stjörnumenn 3:2 í undanúrslitum á Kaplakrikavelli. Skagamenn sigruðu svo í síðasta leik Litla bikarsins á Akranesvelli 13. maí 1995 með því legga FH-inga 3:2 í framlengdum leik. Staðan var 2:2 eftir venjulegan leiktíma og því framlengt. Skagamenn voru einum færri mest allan seinni hálfleikinn og í framlengingunni en Alexander Högnason fékk rautt spjald í upphafi síðari hálfleiks. Sigursteinn Gíslason, Kári Steinn Reynisson og Stefán Þórðarson skoruðu mörk ÍA en Hörður Magnússon og Jón Erling Ragnarsson svöruðu fyrir FH.

En aftur að tölfræði liðanna sem mætast í 3.umferð Lengjubikarsins á föstudagskvöld. Innbyrðis leikir liðanna í Deildabikar KSÍ (lengjubikarnum) eru sjö: 3 jafntefli, 3 Blikasigrar. Sigurleikur ÍA var af merkilegri gerðinni því um var að ræða fyrsta úrslitaleik í Deildabikar KSÍ sem leikinn var fyrst árið 1996. Skagamenn léku sem sagt til úrslita, og sigruðu, í síðasta leik Litlu bikarkeppninnar 1995 og líka í fyrsta úrslitaleik Deildabikars KSÍ 1996. Leikið var á Kapalkrikavelli 15. maí. Jafnt var eftir venjulegan leiktíma og því framlengt. Skagamenn skoruðu 2 mörk í framlengingunni gegn engu marki Blikamanna.

15.05 20:00
1996
ÍA
Breiðablik
3:1
4
1
Deildabikar KSÍ | Úrslit (frl)
Kaplakrikavöllur | #

Síðasti innbyrðisleikur liðanna

Fyrir réttum mánuði síðan mættust liðin í hörku úrslitaleik Fótbolta.net mótsins 2020 á flóðlýstum Kópavogsvelli. Það er skemmst frá því að segja að Blikamenn steinlágu 2:5 fyrir sjóðheitum Skagamönnum. Tíðindamaður blikar.is hafði orðaði þetta svona “Blikar þurfi ekki að missa svefn út af þessum leik. Hlutirnir féllu ekki með okkur að þessu sinni. Hins vegar verða menn að halda haus þegar á móti blæs og ekki láta æsa sig upp og þannig enda út af velli með rauð spjöld.”

Næsti leikur

Við hvetjum að sjálfsögðu alla stuðningsmenn til að mæta á leikinn á föstudaginn og hvetja sína menn áfram, en fyrir þá sem ekki eiga heimangengt verður leikurinn sýndur á Stöð 2 Sport.

Veitingar fyrir leik og í hálfleik. Endilega kíkið við á fyrstu hæðinni og fáið ykkur eitthvað gott.

Leikur Breiðabliks og ÍA verður á Kópavogsvelli föstudaginn 28. febrúar kl.19:15.

Frítt er inn á leikinn.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

image

Blikar hafa unnið báða leikina í Lengjubikarnum til þessa 3:1.

Til baka