BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Í miklu sólskini í Úlfarsárdal

15.07.2023 image

Í dag skein sól, rauluðu leikmenn Breiðabliks fyrir munni sér þegar þeir gengu inn á heimavöll Fram í Úlfarsárdal föstudagskvöldið 14. júlí. Hann hafði hins vegar dregið upp á sig og spurning hvort þetta yrði táknrænt fyrir leik okkar manna eftir frækinn sigur á Shamrock Rovers í Dublin á dögunum. Tíðindamaður Blikar.is var hins vegar fjarri góðu gamni, í norðan þræsingi í Skagafirði, og horfði á leikinn í sjónvarpi í Krossanesi, þar sem sjálfur Stefán Íslandi fæddist þann 6. október árið 1907. Byrjunarliðið var nokkuð breytt frá því sem við höfum vanist. Damir meiddur, Oliver, Höskuldur, Kristinn Steindórs, Jason Daði og Andri Rafn á bekknum. Að öðru leyti var liðið þannig skipað:

Alexander ræður för

Hafi þau sem lögðu leið sína í Úlfarsárdalinn úr Kópavogi haft áhyggjur af gengi okkar manna hurfu þær strax á annarri mínútu. Alexander vann boltann á miðjum velli, æddi af stað og sönglaði væntanlega á leiðinni eins og skagfirska skáldið Indriði G. (og ævisöguritari Stefáns Íslandi): „vegir liggja til allra átta“ nema nú réð hann sjálfur för, sendi boltann út til hægri á Ágúst Eðvald sem skaut óverjandi skoti á markið. 1-0 og 1.27 á klukkunni. Sannkölluð óskabyrjun fyrir okkar menn.

„Áfram veginn í vagninum ek ég,“ sagði skáldið og áfram héldu Blikar en þó einkum og sérílagi Ágúst Eðvald. Á sjöttu mínútu var skot hans varið í horn og aftur á tíundu mínútu. Okkar menn voru með öll völd á vellinum, léku lipurlega á milli sín en án þess að skapa sér teljandi færi. Þó átti Alexander sendingu á Gísla sem spólaði sig í gegnum megnið af vörn Frammara en skot hans var varið. Að öðru leyti léku okkar menn heimamenn um að hlaupa og elta. Nema hvað eftir hálftíma leik skapaðist fyrst hætta við mark Blika en Anton Ari bjargaði.

Bjartir englar

Að því frátöldu héldu okkar menn Frömmurum í heljargreipum og hleyptu þeim hvorki lönd né strönd. Svolítið eins og þeir væru að vagga þeim í svefn með Stefán Íslandi í eyrunum: Sofðu, sofðu, litla barnið blíða, / bjartir englar vaki þér við hlið.
Tveir Kópavogsbúar í miðjum Vallhólmi í Skagafirði voru því nokkuð kátir í hálfleik og töldu ekki mikla hættu á að þetta gæti farið illa.

Að vera í góðu skapi

Áhorfendur voru varla sestir þegar dró til tíðinda í upphafi síðari hálfleiks. Aftasti maður heimamanna sneri Klæmint niður á miðlínu þar sem sá síðarnefndi var að sleppa í gegn og hlaut verðskuldað rautt spjald. Kannski fór hann með danska þýðingu á kvæði Jóhanns Sigurjónssonar á leið sinni af velli: „bak við mig bíður dauðinn“ og svo framvegis – en ekki er vitað til þess að Stefán hafi sungið þessa snilld á tungu gömlu herraþjóðarinnar.

Mótlætið virtist leggjast nokkuð illa í heimamenn. Til dæmis kom eitt hvimleitt pirringsbrot á 53. mínútu á Gísla Eyjólfssyni fyrir utan teig. Tíðindamaður Blikar.is gat ekki betur séð en að Gísli hafi sagt við Frammarann illskeytta strax á eftir: „Menn eiga að hafa vit á því að vera í góðu skapi,“ eins og Dúddi á Skörðugili í Skagafirði sagði gjarnan (og stendur á legsteini hans í kirkjugarðinum í Glaumbæ).

„Gæti orðið erfitt ár“

Á 61. mínútu áttu þeir sem eitt sinn voru kallaðir Safamýrarpiltar skot á markið en Anton Ari varði. Strax í kjölfarið æddu okkar menn upp völllinn þar sem Gísli skaut eða gaf fyrir en Klæmint var sekúndubroti of seinn á fjærstöngina. Klæmint skallaði yfir þremur mínútum síðar og síðan liðu ekki nema tvær mínútur þar til hann skaut af vítateigsboga en markvörðurinn sló boltann í horn.

Óskar Hrafn rúllaði liðinu vel það sem eftir lifði leiks. Jason Daði, Höskuldur og Ágúst Orri komu inn fyrir Klæmint, Gísla og Viktor Karl; síðar var Oliver Sigurjónssyni skipt inn fyrir Alexander og Andra Rafni fyrir Arnór Svein. Með öðrum orðum: Blikar lokuðu leiknum nokkuð fagmannlega, boltinn var á vallarhelmingi heimamanna, það voru skot og það voru ógnanir án þess að mikil hætta skapaðist. Nema hvað heimamenn sýndu ofurlítið lífsmark í lokin, án þess að slík hætta skapaðist að tveir Kópavogsbúar kipptu sér upp við það handan Holtvörðuheiðar. Afturámóti æstist Frammari sem kominn var norður mikið og hélt að sínir menn væru að fara að jafna leikinn. En muldraði litlu síðar: „Þetta gæti orðið erfitt ár í Úlfarsárdalnum.“

Blikar voru með leikinn í hendi sér frá fyrstu mínútu. Þó að sú gula hafi ekki sýnt sig nema takmarkað má segja að í kvöld hafi okkar menn verið í miklu sólskini. Aftur á móti var eins og Frammarar hefðu aldrei trú á því að þeir gætu ógnað marki gestanna. Kópavogsbúar héldu glaðir heim úr Úlfarsárdalnum – og í Skagafirði héldum við áfram veginn inn í vaxandi kvöldskuggaþröng.

Á þriðjudag taka okkar menn síðan á móti Shamrock Rovers á Kópavogsvelli í síðari leik liðanna í Evrópubaráttunni. Það verður eitthvað.

PMÓ

Til baka