BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Huldunælan 2022: Guðmundur Þórðarson er verðugur handhafi

19.10.2022 image

Huldunælan er viðurkenning sem Blikar.is - stuðningasmannavefur meistarflokka Breiðabliks í knattspyrnu  og Blikaklúbburinn standa sameiginlega að og veita árlega þegar líður að lokum keppnistímabilsinsins í knattspyrnu. Þessi viðurkenning er veitt einstaklingi sem dómnefnd telur að verðskuldi hana í ljósi áralangs stuðnings við uppbyggingu og umhyggju fyrir velferð knattspyrnunnar hjá Breiðabliki.

Sérstaða Huldunælunnar er að hún beinir sjónum að sjónum sínum að grasrótarstarfinu og viðurkenning til þeirra sem með mikilli ósérhlífni hafa unnið að viðgangi starfseminnar innan knattspyrnudeildar Breiðabliks en hafa ekki endilega unnið í hefðbundnu stjórnarstarfi eða verið afreksfólk á leikvellinum.

image

Miðja nælunnar er grænn jaspis steinn hannaður inn í loga sem er skírskotun í merki félagsins. Ólöf Þorvaldsdóttir hannaði nælunna.

Huldunælan er veitt í minningu Huldu Pétursdóttur sem var einhver dyggasti stuðningsmaður Breiðabliks um áratugaskeið. Hulda var fædd árið 1920 og lést árið 2007 en stuðningur hennar við okkur í knattspyrnunni í Breiðablik var í senn gríðarleg hvatning og ljóslifandi fyrirmynd alla tíð.

Huldunælan var veitt í fyrsta sinn í fyrra – árið 2021 – og fyrsti handhafi hennar var Gylfi Þór Sigurpálsson og mæltist sú ákvörðun afar vel fyrir.

Það var samdóma álit dómnefndar að handhafi Huldunælunnar árið 2023 yrði Guðmundur Þórðarson

Guðmundur er er fæddur árið 1945 og í stuttu máli má segja að ævi hans og saga Breiðabliks séu samofin. Guðmundur var sjálfur gríðarlega öflugur knattspyrnumaður og er enn í dag markahæsti leikmaður félagsins. Hann skoraði 92 mörk í 173 leikjum. Hann var líka fyrsti landsliðsmaður okkar en hann lék 3 landsleiki fyrir Íslands hönd.

Huldunæluna hlýtur hann að mati dómnefndar fyrir gríðarlega fórnfúst starf á vegum félagsins. Hann var einn sigursælasti þjálfari Breiðabliks bæði í karla og kvennaflokki og mótaði marga leikmenn sem síðar gerðu garðinn frægan. Þá hefur Guðmundur, sem er lögfræðingur komið að gríðarlega mörgum störfum innan félagsins. Hann er alltaf boðinn og búinn til að leggja hönd á plóg. Nafn Guðmundar, störf hans og afrek munu lifa með félaginu um ókomna tíð.

image

Guðmundur Þórðarson - Handhafi Huldunælunnar 2022

Huldunælan var afhent á Kópavogsvelli þann 26. september og voru fjölmargir viðstaddir, Þar á meðal þjálfarar og leikmenn nýbakaðra Íslandsmeistara í karlaflokki. Fulltrúar dómnefndar greindu frá tilurð Huldunælunnar og störfum Guðmundar innan Breiðabliks. Ólöf Þorvaldsdóttir, hönnuður nælunnar sagði frá hugmyndafræðinni að baki þessum fallega grip og Guðmundur Þórðarson þakkaði fyrir þennan heiður.

Þetta var ánægjuleg stund og við aðstandendur Huldunælunnar þökkum stjórn knattspyrnudeildar fyrir veitingar og stuðning við þetta framtak frá upphafi.

Hákon Gunnarsson

Til baka