BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Gylfi Þór Sigurpálsson er fyrsti handhafi Huldunælunnar

26.09.2021 image

Ég hef stýrt mörgum fundum um ævina – enda stór hluti af mínum starfsvettvangi að gera slíkt.  Fáir fundir hafa þó verið jafn ánægjulegir og sá sem við aðstandendur blikar.is (sjálfstætt starfandi stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks) og Blikaklúbbsins stóðum að laugardaginn 25 september 2021. Þar var afhent í fyrsta sinn viðurkenning og virðingarvottur sem árlega verður veitt stuðningsmanni Breiðabliks, sem hefur með einlægum og öflugum hætti stutt við meistarflokka okkar í blíðu og stríðu gegnum árin.

image

Hákon Gunnarsson

“Huldunælan” er kennd við Huldu Pétursdóttur sem um áratuga skeið var einstakur bakhjarl og stuðningsmaður Breiðabliks. Það muna margir Breiðabliksfélagar eftir Huldu. Hún var áberandi í starfi félagsins, mætti manna best á leiki, bæði í blíðu og stríðu oft með eiginmann sinn Þórhall Einarsson, lögfræðing sér við hlið. Þau hjónin bjuggu í Kópavogi frá 1963 og eignuðust 5 börn. 3 synir þeirra, þeir Einar, Hinrik og Þórarinn léku með Breiðablik í öllum flokkum en sjálf var Hulda afrekskona í íþróttum og mikill skörungur. Hún vann sér það til frægðar að synda 16 ára yfir Hrútafjörð árið 1937 á móts við Borðeyri.  Hulda var virk í stjórnmálastarfi og framfaramálum í Kópavogi alla tíð auk þess sem margir þekktu hana af verslunarstörfum sem hún gegndi um áratuga skeið. Hún vann fullan vinnudag til 78 ára aldurs auk þess að sinna stóru heimili og ótrúlega yfirgripsmiklu starfi fyrir Breiðablik. Hulda var alla tíð nokkurskonar holdgervingur stuðningsmanns Breiðabliks og er grunnur alls þess sem Breiðablik stendur fyrir.

image

Fjölmargir vinir og ættingjar Huldu Pétursdóttur voru viðstaddir afhendingu fyrstu Huldunælunnar.

image

Athöfnin sem haldin var á þriðju hæð stúkunnar við Kópavogsvöll fyrir leik Breiðabliks gegn HK var afskaplega hátíðleg og ánægjuleg í alla staði. Fjölmargir gestir voru þar og má þar nefna gamla vini Huldu frá Breiðabliksárunum og fulltrúa stjórnar félagins. Þá voru einnig fyrirliðar meistarflokkanna, þau Höskuldur Gunnlaugsson og Ásta Eir Árnadóttir. Þau tóku við lófaklappi frá veislugestum, enda frammistaða liðanna einstök og það var viðeigandi að síðar um daginn sigraði Breiðablik nágranna okkar úr HK 3-0.  

image

Fyrirliðar meistarflokkanna: Höskuldur Gunnlaugsson og Ásta Eir Árnadóttir

Fulltrúar blikar.is þeir Hákon Gunnarsson, Pétur Ómar Ágústsson, Ólafur Björnsson og Andrés Pétursson stýrðu athöfninni. Ólöf Þorvaldsdóttir hafði yfirumsjón með hönnun og smíði nælunnar sem er forkunnarfögur.

image

Miðja nælunnar er grænn jaspis steinn hannaður inn í loga sem er skírskotun í merki félagsins.

image

F.v: Hákon Gunnarsson, Ólöf Þorvaldsdóttir, Andrés Pétursson, Gylfi Þór Sigurpálsson, Pétur Ómar Ágústsson, Ólafur Björnsson.

image

Fyrsti handhafi Huldunælunnar er Gylfi Þór Sigurpálsson og ætti það ekki að koma neinum á óvart. Gylfi hefur mætt á nánast alla leiki í karla og kvennaflokki síðan á sjöunda áratug síðustu aldar – eða í meira en hálfa öld og er stuðningur hans við Breiðablik ómetanlegur. Gylfi sagði nokkur orð og þakkaði þennan heiður sem hann sagði óverðskuldaðan. Við aðstandendur blikar.is erum langt frá því að vera Gylfa sammála þar. Fjöldi ættingja Huldu var viðstaddur og hélt Hinrik Þórhallsson, sonur hennar, þakkarræðu og sagði þau öll vera afar stolt af framtakinu.

image

Hinrik Þórhallsson hélt þakkarræðu

image

Þórarinn og Pétur synir Huldu. Andrés og Pétur Ómar, fyrsti handhafi Huldunælunnar, Gylfi Þór Sigurpálsson, Ólafur, Hákon og Hinrik sonur Huldu.

Hulda var mikil hugsjónakona og samvinnumaneskja í húð og hár. Hún taldi að slagorð Ungmennafélagshreyfingarinnar “Ræktun lands og lýðs” skipti sköpum við að búa til betra samfélag.

Við hjá blikar.is og Blikaklúbbnum erum stoltir af því að hafa komið að þessu framtaki. Við megum aldrei gleyma frumkvöðlunum og uppruna okkar.  Huldunælan er komin til að vera.  

Hákon Gunnarsson

Til baka