BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Hamagangur og læti!

04.03.2024 image

Breiðablik og Vestri gerðu 1:1 jafntefli í Lengjubikarnum á Kópavogsvelli í dag. Vestandrengirnir mættu með hamagangi og látum frá fyrstu mínútu og greinilegt að þetta verður uppleggið hjá þeim í deildinni í sumar. Þessi djöfulgangur virtist það slá okkar pilta út af laginu. Við náðum ekki að opna vörn Vestraliðsins enda var uppspil okkar of hægt og fyrirsjáanlegt. Jafnteflið þýðir að við verðum að vinna Keflavík á  fimmtudaginn til að komast í undanúrslit í þessari keppni.

Vestramenn voru ívið sterkari en við í fyrri hálfleik. Þeir áttu meðal annars hörkuskot í slána en við áttum í raun ekkert færi í hálfleiknum. Fljótlega í seinni hálfleik náðu gestirnir forystu eftir misskilning í vörn Blikaliðsins. En aðeins örfáum mínútum síðar fauk einn Ísfirðingurinn út af eftir að Eyþór Wöhler hafði rænt af honum knettinum. Því miður náðu gestirnir að pakka svo gersamlega í vörn að það var ekki fyrr en rétt fyrir leikslok að Kristófer Ingi náði að jafna leikinn með öruggu skoti úr vítaspyrnu. Við svörum bara fyrir þetta jafntefli með því að vinna Suðurnesjapilta á fimmtudaginn á Kópavogsvelli kl.19.00. Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

-AP

Til baka