BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Ásta B og Siggi Grétars tekin inn í Frægðarhöll knattspyrnudeildar Breiðabliks

06.05.2015

Á Vorhátíð Breiðabliks á laugardaginn voru þau Ásta B. Gunnlaugsdóttir og Sigurður Grétarsson tekin inn í ,,Frægðarhöll knattspyrnudeildar Breiðabliks“. Fáir Blikar hafa náð öðrum eins hæðum í knattspyrnu og þau tvo þannig að þessi nafnbót var svo sannarlega verðskulduð. Ásta B spilaði í næstum því 20 ár með meistaraflokki Breiðabliks og  er langmarkahæsti leikmaður félagsins frá upphafi með 206 mörk í 181 leik. Sigurður er einn besti leikmaður sem Breiðablik hefur alið.  Hann lék sem atvinnumaður í Þýskalandi, Grikklandi og Sviss auk fjölmargra leika með Blikaliðinu. Sigurður spilaði 421 leik og skoraði í þeim 161 mark sem er frábær árangur.

Í undirbúningi þesarar hátíðar kom upp sú hugmynd að heiðra einstaklinga sem skarað hafa framúr í sögu Breiðabliks. Því var ákveðið að stofna svokallaða ,,Frægðarhöll knattspyrnudeildar Breiðabliks“. Frægðarhöll hugtak sem byggt er á þekktum fyrirmyndum úr heimi íþrótta og tónlistar erlendis sbr. ,,Hall of Fame“ og Rock Hall of Fame“. Í ræðu sem Jóhann R. Benediktsson veislustjóri hélt á Vorhátínni kom fram að þessu framtaki vilji Breiðablik minnast afreka þeirra og tryggja að ferill þeirra sé kunnur yngri kynslóðum og þeim sem heimsækja félagssvæði Breiðablik.  Því hefði verið ákveðið að hefja þann sið taka einstaklinga sem skarað hafa fram úr í Frægðarhöll Knattspyrnudeildar Breiðabliks.  Jóhann sagði að það væri von stjórnar knattspyrnudeildar að þetta verði reglubundinn viðburður eftirleiðis en þegar kemur að Frægðarhöllinni eru hins vegar margir kallaðir en fáir útvaldir.  Þar sem textinn sem veislustjórinn var mjög fræðandi hefur blikar.is ákveðið að birta hann í heild sinni. Og hér kemur hann!

Sigurður Grétarsson

Sigurður Grétarsson er fæddur 2. maí árið 1962.  Hann lék í yngri flokkum Breiðabliks og var margfaldur Íslandsmeistari ásamt félögum sínum, meðal annars það fræga ár 1974 þegar Breiðablik varð í Íslandsmeistari í 5, 4 og 3. flokki karla sama daginn.   Sigurður var valinn íþróttamaður Kópavogs árið 1976 við það tilefni kom meðal annars fram að hann hefði skorað 89 mörk í 43 þremur leikjum.  Geri aðrir betur.  Hann var lánsamur að leika með mörgum frábærum leikmönnum í yngri flokkum Breiðabliks sem síðar mynduðu eitt besta og skemmtilegasta lið sem Breiðablik hefur átt.  Við heimildarleit kom í ljóst að Siggi var líka liðtækur víðavangshlaupari og lenti í 10 sæti í víðvangshlaupi Íslands árið 1979 sem er í sjálfu sér ekki merkilegur árangur, nema að það hefur líklega glatt Sigga meira en annað að vera 20 sekúndum á undan Jóa bróðir sínum, enda mikill keppnismaður og mikil keppni ríkir enn á milli þeirra bræðra. Siggi lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir Breiðablik árið 1979 og lék með liðinu fram til ársins 1984 þegar hann fór í atvinnumennsku.  Hann snéri svo aftur sem spilandi þjálfari árið 1998 og lék með okkur Blikum fram til ársins 2000, en þjálfaði liðið einu ári lengur. Siggi lék 159 leiki fyrir Breiðablik og skoraði í þeim 71 mark. 

Sigurður á ótrúlega feril að baki sem knattspyrnumaður og á meistaraflokksferli sínum lék hann samtals 421 leik og skoraði í þeim 161 mark. Hann á glæstan feril í atvinnumennsku þar sem lék lengst af í Sviss þar sem hann varð tvívegis meistari með tveimur liðum Luzern og Grasshoppers. Þá lék hann einnig í Grikklandi og Þýskalandi.  Siggi lék 46 A landsleiki og skoraði í þeim 8 mörk og var hann um tíma fyrirliði landsliðsins.  Þá á hann landsleiki fyrir yngri landslið Íslands.  Siggi var fljótur og útsjónarsamur leikmaður og gríðarlega góður skotmaður, alla vega með annarri löppinni, hin var meira notuð til stuðnings.  Helsti kostur Sigga var mikið keppnisskap og gríðarlegur vilji til að vinna, en umfram allt var hann markaskorari.  Hann var leikmaður sem allir vildu hafa með sér í liði en enginn á móti.  Árið 1992 var Bjarni Sigurðsson landsliðsmarkmaður spurður út í það hvern hann vildi síst fá á móti sér í góðri skotstöðu og þá nefndi hann Sigurð Grétarsson og Lothar Matthaus.  Þetta segir mikið um gæði Sigga sem leikmanns. 

Eins og allir Blikar vita kemur Siggi úr mikilli knattspyrnu- og Blikafjölskyldu.  Grétar faðir Sigga lék 113 leiki og skoraði 50 mörk fyrir Breiðablik, Jói bróðir Sigga lék 189 leiki og skoraði 13 mörk og Addi lék 289 leiki skoraði 60 mörk, þannig að samanlagt hefur karlleggur fjölskyldunnar leikið 750 meistaraflokksleiki og skorað í þeim 193 mörk.  Hildur systir þeirra var einnig frábær íþróttamaður en hún valdi blakið sem sinn vettvang. 

Það eru forréttindi fyrir félag eins og Breiðablik að hafa notið krafta Sigga sem leikmanns og þjálfara og hann er þegar orðinn goðsögn meðal okkar Blika.  Það er því með mikilli ánægju sem við tökum Sigurð Örn Grétarsson inn í Frægðarhöll knattspyrnudeildar Breiðabliks og mun nafn hans og afrek verða sýnilegt þeim sem koma á Kópavogsvöll um ókomna tíð.  Það er vel við hæfi.

Ásta B. Gunnlaugsdóttir

Ásta B. Gunnlaugsdóttir er fædd 13. maí árið 1961.  Fyrstu kynni hennar af íþróttum var þegar hún tók þátt í Hljómskálahlaupi sem unglingur og vakti þá strax athygli þjálfara. Hún æfði frjálsar, handbolta og fótbolta um skeið en þegar æfingarnar voru orðnar fleiri en 20 á viku varð hún að velja og sem betur fer varð fótboltinn ofan á. Hún spilaði sinn fyrsta leik með Breiðablik árið 1973 þegar hún var þrettán ára gömul. Árið 1974 var umsögn um Ástu B. í Æskunni þar sem fjallað var um afrek hennar á Kóngsberg leikunum í Noregi. Þar sigraði hún í 60 metra hlaupi með yfirburðum á 8,2 sekúndum og var það besti árangur sem náðst hafði á leikunum frá upphafi og var Ásta sögð mesta afrekskona þessara leika þar sem hún fékk alls þrenn gullverðlaun.

Ásta á einstakan feril að baki í knattspyrnu með Breiðablik sem spannaði yfir rúmlega 20 ár. Hún er langmarkahæsti leikmaður félagsins frá upphafi með 206 mörk í 181 leik.  Hún hefur  þrisvar sinnum verið markahæst í efstu deild kvenna. Hún varð 10 sinnum Íslandsmeistari með Breiðablik, fjórum sinnum bikarmeistari og komst með kvennalandsliðinu í átta liða úrslit Evrópukeppni kvenna.  Hún lék með Breiðablik allan sinn feril og var lánsöm með liðsfélaga og varð hluti af mörgum frábærum Breiðabliksliðum og upplifði fjölmörg kynslóðaskipti í liðinu á sínum ferli.

Ásta var lék fyrsta kvennalandsleik fyrir Íslands hönd árið 1981 og lék alla landsleiki nema þrjá (vegna barneigna) milli áranna 1981 og 1994. Hún lék alls 26 landsleiki og skoraði í þeim 8 mörk.   

Hún var valin íþróttamaður Kópavogs árið 1994.  Ásta var fyrst kvenna til að vera valin knattspyrnumaður ársins árið 1994 og ákvað hún í kjölfarið að leggja skónna á hilluna, þrátt fyrir að vera nörruð í einn leik árið eftir. 

Ásta var ekki bara frábær knattspyrnukona heldur var hún einnig öflugur spretthlaupari og var í landsliði Íslands í frjálsum íþróttum.  Þá á Ásta einnig landsleik í handbolta.

Ásta var ótrúlegur markaskorari sem nýtti hraða sinn vel má eiginlega segja að flestar stungusendingar frá liðsfélögum hennar hafi endað með dauðafæri eða marki. 

Ásta er ekki eina frábæra knattspyrnukonan í fjölskyldunni heldur eiga dætur hennar Hólmfríður og Gréta Mjöll glæsilegan knattspyrnuferil með Breiðablik þar sem Hófí lék 20 leiki og skoraði í þeim 5 mörk og Gréta Mjöll lék 171 leik og hefur skorað 104 mörk.  Samtals hafa þær mægður spilað 372 leiki og skorað í þeim 315 mörk.  Það mátti því gera ráð fyrir að í hvert skipti sem einhver þeirra steig fæti á knattspyrnuvöllinn skiluðu þær marki. 

Ásta B hefur markað ótrúleg spor í sögu Breiðabliks og er saga hennar samofin félaginu.  Hún er mikilvægasti leikmaður félagsins frá upphafi og nær orðið goðsögn varla utan það sem hún er í hugum okkar stuðningsmanna Breiðabliks. Það er því með mikilli ánægju sem við tökum Ástu Breiðfjörð Gunnlaugsdóttur  inn í Frægðarhöll knattspyrnudeildar Breiðabliks og mun nafn hennar og afrek verða sýnilegt þeim sem koma á Kópavogsvöll um ókomna tíð.  Það er vel við hæfi.

-AP

Til baka