Fagmannleg framganga í San Marínó
30.08.2025


Mikilvægasti leikur tímabilsins hingað til skildi fara fram á hinum sögufræga Stadio Olimpico di Serravalle í San Marínó sem var fyrst reistur árið 1969 en mikið endurnýjaður árið 2014. Mótherjarnir voru félagið Virtus sem stofnað var árið 1964. Það hafði fyrir tveimur vikum með glæstum 3-0 sigri á moldóvska liðinu Milsami Orhei orðið fyrsta liðið í sögu San Marínó að komast í umspil um sæti í Evrópudeild. Hér var í húfi sæti í Sambandsdeildinni og öruggir sex skemmtilegir evrópuleikir fram að jólum. Breiðablik vann fyrri leikinn gegn Virtus 2-1 en í þeim leik virtist vera viss þreyta og slen yfir okkar mönnum. Þótt augljóst væri þar strax að Breiðablik væri mun betra lið en Virtus gekk illa að nýta það til fulls. Hvað skyldi gerast úti?
Lið Breiðabliks: Anton Ari Einarsson, Ásgeir Helgi Orrason, Valgeir Valgeirsson, Kristinn Jónsson, Damir Muminovic, Arnór Gauti Jónsson, Höskuldur Gunnlaugsson, Viktor Karl Einarsson, Ágúst Orri Þorsteinsson, Davíð Ingvarsson, Kristófer Ingi Kristinsson.
Leikurinn byrjaði rólega og það fyrsta markverða sem gerðist var líklega er Anton misreiknaði sig aðeins í markinu eftir aukaspyrnu. Engin hætta fyrr en en hann missti smá einbeitingu og boltinn barst næstum því til sóknarmanna Virtus. Smá taugar í byrjun en Blikar tóku nú brátt öll völd á vellinum. Á sautjándu mínútu skoraði svo Kristófer Ingi er hann fylgdi eftir góðu skoti Davíðs Ingvarssonar.

Eftir þetta náðum við öllum völdum á vellinum og það virtist bara tímaspursmál hvenær við myndum klára leikinn. Hins vegar gekk illa að fá opin færi svipað og í fyrra leiknum. Virtus menn eru kannski ekki bestu fótboltamenn í heimi en þeir eru án efa vel skipulagðir og klókir. Á tuttugustu og annarri mínútu skallaði varnarmaður Virtus boltann í eigin þverslá eftir hornspyrnu frá Höskuldi. Tveimur mínútum seinna komust Blikar í fína stöðu þrír á móti tveimur en lokasendingin var ekki góð og því varð ekki meira úr því. Skyldi þetta þróast eins og fyrri leikurinn? Mikið hlaupið en ekki nóg af lokaafurð? Davíð átti svo góðan sprett á þrítugustu mínútu og náði skoti en það fór í varnarmann sem tók allan kraft úr skotinu.
Leikmenn Virtus jafna svo allt í einu metin. Abdul Niang átti frábæran óverjandi skalla eftir góða fyrirgjöf. Hinn tuttugu og tveggja ára Abdul sem fæddur er í Nantes en hefur spilað með hinum ýmsu liðum bæði í San Marínó og neðri deildum á Ítalíu var án ef langbesti maður Virtus í þessu einvígi. Eiginlega allt of góður fyrir þetta lið. Þegar hér var komið við sögu fór eflaust um marga Blika. En það var óþarft því leikurinn gjörbreyttist mínútu síðar er kantmaðurinn Mattheo Zenoni fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt. Hann hafði verið bókaður aðeins nokkrum mínútum áður fyrir kjaftbrúk. Að hinn geðþekki tuttugu og tveggja ára Ítali skyldi sendur í sturtu fyrir það sem hann gerði á þessum tíu mínútum var mjög harður dómur en ég kvartaði ekki. Eftirleikurinn hlyti núna að verða einfaldur. Ekkert gerðist samt markvert það sem eftir var af fyrri hálfleik og staðan 1-1 þegar flautað var til leikhlés.
Breiðablik hóf seinni hálfleik með sama lið. Lítið markvert gerðist í byrjun og þetta fór rólega af stað. Á fimmtugustu mínútu kom svo Kristinn Steindórs inn á fyrir Viktor Karl. Viktor hafði fengið gult spjald í fyrri hálfleik var búinn að brjóta af sér nokkrum sinnum eftir það. Líklega skynsamleg ákvörðun að taka hann út af miðað við spjaldagleði dómarans. Það var svo á fimmtugustu og áttundu mínútu sem sætið í Sambandsdeildinni varð öruggt í hendi er Davíð Ingvarsson kom Blikum í 2-1 og því samtals í 4-2.

Markið kom eftir mjög góða sendingu frá Ágústi Orra. Á sextugustu og áttundu mínútu kom Tobias Thomsen inn á fyrir Kristófer Inga og Aron Bjarnason fyrir Ágúst Orra. Leikurinn var í raun búinn þarna og Blikar höfðu tekið öll völd á vellinum. Á sjötugustu og fyrstu mínútu átti Kristinn Jónnson svo ágætt skot sem breytti um stefnu af varnarmanni og endaði í hliðarnetinu. Nokkrum mínútum síðar átti Arnór Gauti ágætis skalla en var of langt frá markinu og því var það auðveldlega varið. Höskuldur komst svo nálægt því að skora á sjötugustu og sjöttu mínútu eftir frábæran undirbúning frá Kristnunum, Steindórs og Jónssyni en skot Höskulds í miðjum vítateig fór framhjá markinu.
Það var svo Tobias Thomsen sem lagði boltann fagmannlega inn og skoraði þriðja markið á sjötugustu og sjöttu mínútu eftir frábæra sendingu frá Valgeiri Valgeirssyni og staðan því samtals 5-2.

Óli Valur og Gummi Magg komu svo inn á í staðinn fyrir Kristinn Jóns og Arnór Gauta. Tobias kom boltanum í markið rétt fyrir leikslok en búið var að flauta á Blika. Leikurinn fjaraði út. Frábær sigur í höfn og Evrópukeppni allavega fram að jólum.
Úlfar