Evrópudeild UEFA 2025/26: Breiðablik - Zrinjski
12.08.2025
Evrópukvöld á Kópavogsvelli
Enn einn stórleikur í karlaliðs Breiðabliks í Evrópukeppni UEFA þegar við fáum Zrinjski í heimsókn í síðari umspilsleik liðanna í Evrópudeildinni 2025/26.
Flautað verður til leiks kl.17:30. Miðasala á leikinn er á Stubb.
Ef frá er talið umspils-einvígið við FC Struga um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar UEFA 2023/24, er leikurinn við Zrinjski á fimmtudaginn mikilvægasti leikur karlaliðs Breiðabliks í Evrópukeppni frá upphafi.
Sigri okkar menn einvígið gegn Zrinjski tryggir það Breiðabliki þátttöku í deildarkeppni Sambandsdeildar UEFA 2025/26 – og það óháð niðurstöðu í einvígi Breiðabliks og Utrecht frá Hollandi um sæti í deildarkeppni Evrópudeildar UEFA 2025/26, en það verkefni bíður okkar ef sigur vinnst í leiknum gegn Zrinjski. Leikdagar eru 21. & 28. ágúst. Utrecht á reyndar eftir að spila síðari leikinn í einvíginu gegn Servette en fyrri leikur liðanna fór 3:1 fyrir Utrecht á útivelli í Sviss.
Tapi Blikar leiknum gegn Zrinjski á fimmtudaginn bíður Breiðabliki umspilsleikur við Milsami Orhei frá Moldóvu eða San Marínó um sæti í deildarkeppni Sambandsdeildar UEFA 2025-26. Fyrri leikur liðanna fór 3:2 fyrir Milsami, í Moldavíu. Leikdagar eru: 21. & 28. ágúst.
Fyrri leikurinn gegn Zrinjski
Sjá pisil: Mikilvægt í Mostar!


Evrópusaga Breiðabliks
Karlalið Breiðabliks hefur spilað 52 Evrópuleiki frá 2010 til 2025 og mætt yfir 30 mismunandi liðum frá Evrópu. Þeir hafa tekið þátt í öllum helstu Evrópukeppnum UEFA keppnum: Meistaradeild, Evrópudeild og Sambandsdeild.
Fyrsti Evrópuleikur liðsins var gegn Motherwell í Skotlandi 15. júlí 2010. Síðan þá hefur Breiðablik tekið þátt í Evrópukeppnum í 11 ár af 16 mögulegum - þar af 7 ár í röð.
Leikurinn við Zrinjski á fimmtudaginn verður 53. Evrópuleikur karlaliðs Breiðabliks frá upphafi.
Þátttaka í Evrópumótum:
- Meistaradeild: 2025, 2023, 2011.
- Evrópudeild: 2025, 2023, 2020, 2019, 2016, 2013, 2010.
- Sambandsdeild: 2024, 2023, 2022, 2021.
Andstæðingar Blika í Evrópukeppnum frá upphafi:
52 leikir við lið frá 27 löndum.
EvrópuBlikar
Þrír leikmenn í núverandi leikmannahópi tóku þátt í fyrsta Evrópuleik karlaliðs Breiðabliks fyrir 15 árum. Þetta eru leikmennirnir Andri Rafn Yeoman, Kristinn Steindórsson og Kristinn Jónsson.
Höskuldur Gunnlaugsson hefur verið duglegar að skora mörk í Evrópuleikjum, er með 11 mök, en markahrókurinn Kristinn Steindórsson var fyrstur núverandi leikmanna að skora mark fyrir blikaliðið í Evrópukeppni þegar hann skoraði seinna markið í 2:0 sigri á Rosenborg í undankeppni Meistaradeildarinnar á Kópavogsvelli 20. júlí 2011.
HŠK Zrinjski
HŠK Zrinjski er atvinnuknattspyrnufélag með aðsetur í Mostar í Bosníu-Hersegóvínu. Félagið leikur í úrvalsdeildinni þar í landi og hefur verið eitt af bestu liðum landsins enda unnið marga meistaratitla undanfarin ár.
Félagið spilar heimaleiki sína á Stadium of HŠK Zrinjski. Stuðningsmannaklúbbur Zrinjski heitir Ultras Mostar og var stofnaður árið 1994.
Félagið var stofnað árið 1905 og er elsta knattspyrnufélagið í Bosníu-Hersegóvínu. Eftir seinni heimsstyrjöldina voru öll félög sem höfðu tekið þátt í króatísku deildinni á stríðstímum bönnuð í Júgóslavíu, Zrinjski var einn af þeim. Bannið stóð frá 1945 til 1992.
Eftir sjálfstæði Bosníu-Hersegóvínu voru gerðar umbætur á félaginu. Zrinjski Mostar lék í 1. deildinni til ársins 2000. Eftir það lék liðið í úrvalsdeildinni og vann sinn fyrsta titil þar árið 2005.
Frægasti leikmaður sem hefur spilað í Zrinjski treyju er án nokkurs vafa króatíski miðjumaðurinn Luka Modrić. Hann skrifaði undir sinn fyrsta samning 18 ára gamall, hjá Dinamo Zagreb, en eyddi fyrsta tímabili sínu á láni hjá Zrinjski. Þrátt fyrir ungan aldur spilaði hann 22 deildarleiki tímabilið 2003-04, skoraði átta mörk og sýndi að hann ætti bjarta framtíð fyrir sér.
Árangur Zrinjski í Evrópukeppnum
Liðið tók fyrst þátt í Evrópukeppni árið 2000 í UEFA Intertoto Cup. Leikir liðsins í Evrópukeppnum síðan eru:
Dagskrá
Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli kl.17:30 á fimmtudaginn. Leikurinn verður sýndur á Sýn Sport.
Kópacabana hitar upp á Mossley frá kl.14:00!
Brasserie Kársnes vagninn og Bæjarin Bestu á svæðinu.
Blikaborgarar á grillinu og Græna stofan frá kl.16:30!
Dómarar eru frá Grikklandi. Aðaldómari er Anastasios Papapetrou. Aðstoðardómarar eru: Tryfon Petropoulos og Iordanis Aptosoglou. Fjórði dómari: Christos Vergetis. Myndbandsherbergið: Athanasios Tzilos og Spyridon Zampalas,
Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!
PÓÁ