Evrópublikar komnir á flug!
16.07.2025


Blikar unnu frábæran 5:0 sigur á Egnatia frá Albaníu í seinni leik liðanna í forkeppni Meistaradeildar Evrópu á Kópavogsvelli í gær. Blikaliðið var komið upp að vegg eftir eins marks tap í fyrri leik liðanna í Albaníu. En okkar drengir léku við hvurn sinn fingur í gær og áttu gestirnir aldrei roð í léttleikandi Blikaliðið. Þar með erum við komin áfram í forkeppninni og mætum pólska liðinu Lech Posnan í næstu umferð. Fyrri leikurinn fer fram í Póllandi þriðjudaginn 22. júlí og heimaleikurinn miðvikudaginn 30. júlí kl.18.30.
Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru frábærar á Kópavogsvelli í gær. Þægilegt sumarveður, 14 gráður á mælinum og sumarangan í loftinu. Miðasala á leikinn hafði farið frekar hægt af stað enda hafði tapið í fyrri leiknum greinilega áhrif á einhverja stuðningsmenn Blika. Svo má ekki gleyma að nú er heyskapur á fullu og bjargræðistími bæði til sjávar og sveita. Því eru margir utan þjónustusvæðis og knattspyrnuleikir ekki efst á forgangslistanum. En eftir því sem leið á daginn tók miðasalan kipp og ekki skemmdi sumarblíðan fyrir. Þegar síðan var flautað var til leiks voru 1.109 Blikar mættir á völlinn, 35 Albanir og sex með óþekkt ríkisfang.Vel studdir af Kópacabana hópnum, undir öruggri stjórn Hilmars Jökuls og Sindra, tóku Blikar fljótt öll völd á vellinum.
Enagtia menn voru hálf-ringlaðir þegar Ágúst og Óli Valur sóluðu þá sundur og saman sitt hvoru megin á kantinum vel studdir af miðjumönnunum öflugu Höskuldi og Viktori Karli. Bakverðirnir Valgeir og Kiddi Jóns sóttu síðan hratt upp og gerðu gestunum lífið leitt út í það óendanlega! Gestirnir reyndu hvað þeir gátu og sendu háa bolta inn að teig Blika en þar skölluðu Viktor Örn og Ásgeir Helgi allt í burtu með gríðarlegum krafti.
Þessi spilamennska skilaði fjórum frábærum mörkum í fyrri hálfleik og leikurinn í raun búinn. Aðrir miðlar hafa þegar lýst mörkunum tveimur frá bæði Ágústi og Viktori Karli í þaula og eina sem við viljum bæta við er það þau voru algjört augnakonfekt! Við hefðum með smá heppni getað bætt við fleiri mörkum því þetta albanska lið var með allt niðrum sig í varnarleiknum í fyrri hálfleik.
Eins og við mátti búast hægðist nokkuð á leiknum í síðari háfleik enda voru gestirnir greinilega felmtri slegnir eftir útreiðina í fyrri hálfleik. Óli Valur sýndi snilli sína oftar en einu sinni en lét duga að skora eitt fallegt mark í síðari hálfleik. Þar með var síðasti naglinn rekinn í líkkistu Albananna og löbbuðu þeir sneyptir af velli enda var þetta stærsta tap liðsins í mörg ár!
Hrósa verður öllu Blikaliðinu fyrir gríðarlega góða innkomu í þessum leik. Það er ekki sjálfgefið að koma svona sterkt til baka eftir að hafa tapað fyrri leiknum. En nú heldur baráttan áfram. Við mætum bikarúrslitaliðinu Vestra á heimavelli á laugardaginn og þar verðum við að halda sömu einbeitingu. Enda höfum við harma að hefna eftir síðasta leik þessara liða á Kópavogsvelli. Svo halda strákarnir okkar út á sunnudaginn til Póllands til að keppa við hið sterka lið Lech Posnan. En með sama hugarfari og þessum Egnatia leik getum við náð enn lengra en áður í Evrópu.
Áfram Blikar- alla leið!
AP