BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Eins og kaffið í Twin Peaks

01.08.2022 image

Sumarið 2022 skartaði sínu skásta á mánudagskvöldið 1. ágúst að lokinni verslunarmannahelgi. Norðan garri, sól með köflum og hitinn sló í 10 stig eða svo þegar lið Breiðabliks og ÍA gengu inn á Kópavogsvöll. Og ekki farið að gjósa á ný á Reykjanesskaga. Stúkan var nokkuð þétt setin, gleði í lofti, Blikar á flugi á toppi deildarinnar en Skagamenn á botninum. Fyrir leik var Gísli heiðraður fyrir að vera kominn í 200 leikja klúbbinn, Dagur Dan leysti Davíð af í vinstri bakverði vegna leikbanns en annar sessunautur tíðindamanns Blikar.is kallaði það „út um allan völl“-stöðuna. Að öðru leyti var liðið þannig skipað:

image

Skagamenn á botninum? Það er von að maður spyrji sig. Frá 1974 til 1998 varð ÍA tíu sinnum Íslandsmeistari. Eftir það hafa þeir hampað titlinum einu sinni. Hvað breyttist sumarið 1998? Tíðindamaður Blikar.is velti þessu fyrir sér þegar hann ók niður í Hvalfjarðargöngin kvöldið fyrir leik án þess að komast að niðurstöðu.

Hrátt, kaldranalegt og storkandi

Áhorfendur voru varla sestir þegar Gísli hélt upp á 200 leikja-viðurkenninguna með því að brjótast upp að endamörkum, ungur markvörður Skagamanna missti boltann klaufalega yfir sig en skalli Kristins Steindórssonar sem var mættur eins og gammur fór yfir.

View this post on Instagram

A post shared by Blikar.is (@blikaris)

Þetta gaf tóninn fyrir það sem koma skyldi. Blikar sóttu, Skagamenn vörðust. Leikaðferð gestanna minnti svolítið á Steinar Sigurjónsson rithöfund af Akranesi. Hann er talinn einn af brautryðjendum í módernisma í íslenskum sagnaskáldskap en um skáldsögu hans, Blandað í svartan dauðann, hefur verið sagt að myndmálið sé hrátt, kaldranalegt og storkandi.

Leikurinn fór sem sagt meira og minna fram á vallarhelmingi Skagamanna. Óskari Hrafni fannst spil sinna manna þó ekki ganga alveg nógu smurt og skipaði meira að segja boltastrák að halda tempói. En það er ekki eins og Akranespiltar hafi gleymt þeirri list að spila fótbolta, þótt þeir virki hráir, kaldranalegir og jafnvel storkandi.

Rödd reynslunnar

Á 21. mínútu skapaðist hætta á vallarhelmingi okkar manna og minnti það eiginlega á senu úr hinni stjörnum prýddu kvikmynd Killer Elite sem Skagamaðurinn Sigurjón Sighvatsson framleiddi fyrir nokkrum árum. Gesturinn sem var með boltann spurði örugglega Oliver eins og persóna í nefndri mynd: „Who the fuck are you?“ Og Oliver svaraði eins og Robert DeNiro í nefndri kvikmynd: „Who, me? The voice of experience.“ Um leið og hann tæklaði gestinn hraustlega. Kannski mætti halda áfram að vísa í verk Sigurjóns og segja að gestirnir hafi svolítið minnt á Dale Cooper, FBI-fulltrúann ráðvillta, í hinni byltingarkenndu seríu þeirra Davids Lynch, Twin Peaks. Þeir vissu ekki alltaf hvaðan á sig stóð veðrið, leikplanið óvíst, sendingar enduðu vítt og breitt um hlaupabrautina og þar fram eftir götum.

Eða hvað? Var veruleikinn kannski flóknari en sýndist í fljótu bragði, rétt eins og í Twin Peaks? Skömmu eftir að Oliver tæklaði gestinn komst ÍA í dauðafæri en skotið fór framhjá. Ég er ekki viss um að Sigurjón Sighvatsson hefði klikkað á svona skoti þegar hann lék með Kára á Skaganum áður en hann sneri sér að bassaleik og kvikmyndaframleiðslu en þá voru tvö lið í bænum, KA og Kári, Upp-Skagi og Niður-Skagi, en allir voru hins vegar í ÍA.

Sjaldséð mistök

Þetta virtist kveikja í okkar mönnum. Damir skallaði yfir eftir aukaspyrnu, Höskuldur átti þrumuskot sem Ísak potaði í svo að boltinn söng í slánni, Dagur Dan skaut að marki, Viktor Karl skaut að marki, það fór um þjálfara Skagamanna, svo mjög raunar að hann tók hreinlega utan um aðstoðardómarann á hliðarlíunni. Það þýddi nú lítið því að skömmu síðar átti Kristinn hárnákvæmt skot af stuttu færi í hægra hornið niðri en markmaðurinn ungi bjargaði glæsilega. Kiddi náði boltanum strax aftur í næstu sókn, brunaði að teig frá miðju og skaut á ný en nú fór knötturinn framhjá.

Hálfleiknum lauk með því að Anton Ari átti slæma sendingu á Skagamann sem skapaði mikla hættu við mark okkar manna. „Langt síðan við höfum séð svona mistök,“ sagði sessunauturinn á aðra höndina. „Ég var eiginlega farinn að sakna þess,“ sagði sá á hina.

Flugriða?

Menn gengu því nokkuð brattir til hálfleiks. Þó var ekki öllum rótt. Einn talaði um að liðið væri með flugriðu. Annar valinkunnur Bliki sagði að það gæti skapast stórhætta ef Gísli Laxdal fengi að leika lausum hala á vinstri vængnum. Þriðji bætti við að okkar menn myndu skora þrjú í seinni. Sá fjórði klykkti út með því að vitna í FBI-fulltrúann Dale Cooper í Twin Peaks: „A damn fine cup of coffee.“

Nú tók heldur að hitna í kolunum. Gestirnir voru duglegir að atast í okkar mönnum, trufla uppspil með aukaspyrnum um allan völl, jafnvel með storkandi myndmáli, eins og módernistinn Steinar Sigurjónsson forðum. Litlu munaði að syði upp úr á milli Damirs og ungs framherja gestanna en okkar maður sneri hann kurteislega niður með því að vitna í persónu Nicholas Cage í hinni goðsagnakenndu verðlaunamynd Sigurjóns Sighvatssonar, Wild at Heart: „There is no need to make life tougher than it has to be.“

Maður á auðum sjó

Þjálfari Skagamanna var á þessum mínútum með ýmsar skoðanir á framgöngu dómaranna, sveiflaði fingri og mátti raunar segja það sama um liðsmenn hans. Þeir mótmæltu hástöfum öllum dómum gegn þeim, kannski eins og þegar blússöngkonan magnaða af Skaganum, Andrea Gylfadóttir, þenur sig upp úr öllu valdi; þeir meira að segja heimtuðu gult spjald þegar tveimur af þeirra eigin mönnum lenti saman. Þó er ekki ljóst hvor átti að fá áminningu.

Tveimur mínútum eftir að viðskiptum Damirs og piltsins unga lauk tókst Ísaki og Jasoni að koma boltanum yfir línuna en rangstaða var dæmd. Skömmu síðar varð mikill darraðardans í vítateig Akraness sem lauk með skoti yfir. Viktor Karl átti skot af löngu færi sem var varið.

Blikar voru sem sagt með leikinn í hendi sér.

En þá gerðist það sem hinn aldni þulur hafði varað við í hálfleik. Nefndur Gísli Laxdal var allt í einu á auðum sjó á vinstri vængnum og skoraði framhjá Antoni Ara.

Láta kné fylgja kviði

Hér mætti vísa í skrattann úr Skítalæknum, kalda vatnsgusu og jafnvel gang leiksins. Það breytir því ekki að á klukkunni stóð 0-1. Vorum við lent í einhvers konar hryllingsmynd eftir Sigurjón? Ég man þig?

Okkar menn létu samt ekki svona smámuni slá sig út af laginu. Þeir blésu strax til sóknar. Höskuldur og Gísli skutu nánast beint í kjölfarið í sameiningu í slá. Gestunum leist bersýnilega ekki á blikuna og reyndu að hægja enn frekar á leiknum, meðal annars með þeim afleiðingum að markmaðurinn ungi var spjaldaður fyrir að labba í kringum eigið mark með boltann.
Litlu síðar átti Oliver frábæra sendingu í gegnum vörn ÍA á Höskuld en markmaðurinn varði skot hans. Ísak náði til boltans og lagði hann fyrir Kidda og þá var ekki að sökum að spyrja. 1-1 og 62 mínútur á klukkunni.

Blikar létu kné fylgja kviði og tveimur mínútum síðar skallaði Damir í markið eftir hornspyrnu Höskuldar. Heimamenn komnir 2-1 yfir. 

Tíðindamaður Blikar.is hallaði sér að sessunautnum og sagði: „Og svo eigum við inni mark hjá Ísaki.“ Enda stóð það heima. Þremur mínútum síðar óð Dagur Dan upp vinstri kantinn, gaf fyrir þar sem Ísak kom aðvífandi og lagði boltann snyrtilega í netið.

Eftir þetta má segja að leikurinn hafi fjarað út.

Stóðust prófið

Leikur okkar manna var á löngum köflum góður en þó virkuðu þeir stundum ekki eins snarpir og verið hefur, það var ekki sami brilljans yfir leik liðsins og fyrr í sumar. Kannski var þetta flugriða, eins og sá vísi maður nefndi í hálfleik. Kannski voru viðbrigðin of mikil að koma úr hitabylgju af Balkanskaga í kuldann í Kópavogsdal, pólarloftslagið hafi lagst svona illa í þá.

Leikurinn í kvöld hefði verið dæmigert bananahýði til að renna á en piltarnir stóðust prófið með sóma. Okkar menn tóku sér orð Sailors (Nickolas Cage) í Wild at Heart til fyrirmyndar: Það er óþarfi að gera sér lífið erfiðara en það þarf að vera. Þetta var bara eins og kaffið í Twin Peaks: asskoti fínt.

Undir lok leiks skiptu Skagamenn inn á nokkrum leikmönnum sem virtust vart af fermingaraldri og litu allir vel út. Það er því ljóst að framleiðslu knattspyrnukappa hefur síður en svo verið hætt á Akranesi.

Breiðablik trónir enn á toppnum í Bestu deildinni, níu stigum fyrir ofan Víking sem á að vísu leik til góða. En það þarf að vinna þá líka. Framundan er viðureign við tyrkneska stórliðið Istanbul Basaksehir með sjálfan Mezut Özil innan sinna raða. Við erum síðan á leið í Kórinn innan tíðar til að etja kappi við HK í átta liða úrslitum bikarsins – þar sem verður að minnsta kosti hlýtt.

Það eru því skemmtilegar og spennandi vikur fram undan!

PMÓ

Hér fyrir neðan má sjá mörkin fjögur úr leiknum í gær.

Gefðu kost á þér í blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að skrifa efni, setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum blikar.is. 

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum.

Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir okkar eru:

www.blikar.is

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is

Til baka