BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

„Eins og gömul hefð – sem búið er að brjóta“

23.08.2022 image

Það var fallegt ágústkvöld í Úlfarsárdalnum.  Það er virkilega mikil fegurð í þessu umhverfi sem áður fyrr var nánast í óbyggðum.  Hinn stórglæsilegi nýi heimavöllur Fram er mannvirki sem Framarar eru – og eiga að vera – stoltir af. Völlurinn og stúkan eru afar vel hannaðar byggingar og samtengdar íþróttahúsinu þannig að flæðið er gott. Arkitektúr er mjög smekklegur og steinsnar frá eru sundlaug og bókasafn sem gegnir lykilhlutverki í þessari nýju byggð sem þarna rís.  Framörum hefur líka tekist að skapa mikla stemningu kringum liðið í sumar – og þeir voru taplausir í þessu vígi á þessu keppnistímabili.  Liðið er á mikilli siglingu undir stjórn Jóns Sveinssonar þjálfara sem ólst upp í hugmyndafræði Ásgeirs Elíassonar  og er trúr henni eins og Ólafur Kristjánsson benti á fyrir leik. 

Það er löngu vitað tölfræði og knattspyrna er sitt hvað.  Blikar.is birti fyrir þennan leik statistík sem ekki var sérlega uppörvandi fyrir okkur Blika. Hún efnislega þannig að Breiðablik hafði leikið 26 leiki gegn Fram í efstu deild á þeirra heimavelli frá upphafi.  Í þessum leikjum hafði okkur Blikum aðeins einu sinni tekist að knýja fram sigur.  Það var árið 1977.  Þá var Kristján Eldjárn forseti lýðveldisins Íslands.  Að vísu höfum við oft sigrað þá á okkar heimavelli – en hitt var engu að síður staðreynd. 

Arnaldur Indriðason rithöfundur er mikill Framari.  Hann skrifaði eina af sínum albestu sögum; „Grafarþögn“ sem hefur beina skírskotun til byggðarinnar í Úlfarsárdal. Þar segir frá þegar mannabein finnast í grunni nýbyggingar í Grafarholtinu og likur benda til að glæpur hafi verið framinn. Leit hefst að fólki sem gæti vitað eitthvað um málið.  Smám saman skýrist myndin, fortíðin er grafin upp úr moldinni, úr gömlum pappírum og úr fylgsnum hugans. Brotin raðast upp í óvænta og magnaða harmsögu. Af um 30 sögum Arnaldar held ég einna mest upp á þessa.  Í þessari fyrstu heimsókn mína á nýjan heimavöll Fram þá leitaði þessi magnaða saga á hugann – en það allt hvarf þegar Elías Ingi Árnason dómari flautaði til leiks.

Hrókeringar í liðsuppstillingu

Það var ekki einfalt mál fyrir Óskar þjálfara að stilla upp sínu óskaliði. 3 af lykilmönnum okkar voru í leikbanni.  Damir Muminovc, Dagur Dan Þórhallsson og Gísli Eyjólfsson.  Allir hafa þeir verið máttarstólpar í byrjunarliðum okkar. Þá var Kristinn Steindórsson líka frá vegna meiðsla.  Þarna ríður á að hafa stóran og samheldan hóp – ef menn ætla að halda þeim dampi sem þarf til að halda sig á toppnum.  En menn vita að það er vindasamt þar.   Elfar Freyr Helgason kom inn fyrir Damir í vörninni og lék með Viktori Erni -en Elfar spilaði sinn fyrsta hálfleik í 2 ár gegn HK og stóð sig vel.  Andri Yeoman fór í hægri bakvörðinn – en sá drengur hljóp gríðarlega mikið í kvöld og stóð sig vel.  Davíð var á sínum stað vinstra megin. 

image

Oliver kom inn sem leikstjórnandi og Viktor Karl var á miðjunni með  Höskuldi fyrirliða sem fór út bakverðinum hægra megin í nýtt  hlutverk sem átti eftir að skila sér ríkulega. Jason á hægri vængnum og  Sölvi  vinstra megin frammi. Ísak Snær kominn aftur og var núna alveg fremstur og stóð í ströngu allan tímann.  Það var alveg ljóst að varnarmenn Fram höfðu fengið ströng fyrirmæli að taka hann föstum tökum enda er drengurinn einhver sterkasti og hættulegasti framherji deildarinnar.

Góð tök í fyrri hálfleik

Það er oft sagt að stigataflan ljúgi aldrei. Það er margt til í því og sýndi sig í kvöld.  Það var alveg ljóst að það er stigsmunur í knattspyrnugetu á þessum liðum. Smám saman náðu Blikarnir tökum á leiknum og höfðu bæði tögl og hagldir eins og menn segja í heyskapnum.  Það var í raun aldrei spurning hvort liðið var sterkara – en erfiðlega gekk að brjóta þétta vörn Fram á bak aftur – og það var ekki farið mildilegum höndum um Ísak eins og áður segir. Oliver og Viktor Karl áttu ágætar tilraunir en inn vildi boltinn ekki.

Ég hitti Mikkel Qvist, Danann geðþekka á Skógum undir Eyjafjöllum í sumar þar sem tengdafjölskyldan var í heimsókn.  Hann kom inn fyrir Elfar í vörnina sem er óðum að komast í leikform í heilan leik.  Greinilegt að Mikkel ætlar að standa við orð sín við Skógafoss, hann ætlar að gera allt til að við náum markmiðinu því hann steig ekki feilspor.  Vörnin var þétt allan tímann – og það var kannski dæmigert að eina skot Framara á mark Blika var óviljaverk á 38. mínútu. Þá kom fyrirgjöf sem fór beint á markið og Anton Einar varði auðveldlega.

„Svo eigum við Sölva Snæ inni“

Ég kom sem leikmaður í meistaraflokkinn árið eftir að leikurinn gegn Fram var 1977 og við unnum á útivelli.  Kristján Eldjárn var ennþá forseti lýðveldisins. Vigdís Finnbogadóttir var ekki einu sinni hugmynd í það embætti.  Ég hef fylgst vel með liðinu mínu alla tíð og hef góða tilfinningu fyrir hvernig andinn er á hverjum tíma. Ég verð að segja að liðsandinn núna í hópnum er sérlega þægilegur og léttur. Velgengni  hjálpar til – en oft er það ekki nóg.   Fyrr í sumar átti ég samtal við Halldór Árnason, aðstoðarþjálfara Óskars og umræðuefnið var hin erfiðu verkefni framundan og að mikið mæðir á lykilmönnum. Eitt af því sem hann sagði var „Svo eigum við Sölva Snæ inni“.   Þá hafði Sölvi ekki spilað einn einasta leik – og í hugum okkar stuðningsmanna ekki endilega í kortunum.  Hvað hefur svo gerst?  Sölvi Snær skorar markið mikilvæga gegn Víkingi fyrir viku – og á 56. mínútu gegn Fram fær hann boltann frá Viktori Karli með bakið í markið. Hann snýr sér laglega og skorar utan vítateigs með vinstri. Ísinn er brotinn og Blikarnir í stúkunni (sem voru fleiri en Framarar þetta kvöld í Úlfarsárdalnum) ærðust úr fögnuði.  Halldór vissi sem sagt sínu viti.

Sókn okkar hélt áfram og á 71 mínútu fékk Ísak sendingu inn fyrir Framvörnina – og varnarmaður þeirra –  sem heitir því lítilláta nafni Jesus, fékk að lita rauða spjaldið.  Maður getur ekki annað en dáðst að spilamennsku Ísaks í kvöld við hrikalega erfiðar aðstæður.   Þá tókum við endanlega völdin – og viðbótarmark lá í loftinu.  Jason – sem er flinkasti kantmaður deildarinnar  -  flutti sig yfir á vinstri vænginn og átti stórkostlega sendingu á Davíð sem kom utan á í „overlap“.  Davíð renndi honum út með frábærri sendingu. Þar var Höskuldur mættur – og afgreiðsla hans var óaðfinnanleg

Jason ætti að prófa meira óvæntar skiptingar af þessu tagi. 

2-0 sigur í höfn.  Líkt og segir í kvæðinu góða: 

„Eins og gömul hefð,

sem búið er að brjóta“

Ég sakna þess ekki neitt.

Allez Breiðablik

Núna eru 18 umferðir liðnar af mótinu af 22 í hefðbundnum hluta hennar. Við erum með 6 stiga forskot  á KA og forystan virkar örugg.  Það er alls ekki svo .  Leikirnir í mótinu eru alls 27 og því 9 leikir eftir.  Næsti leikur er erfiður.  Gegn Leikni á Kópavogsvelli sem vann frækinn 4-3 sigur á KR í Breiðholti á sama tíma og við lögðum Fram.  Þeir eru að berjast fyrir lífi sínu og mun ekki gefa neitt eftir.  Við munum ekki gera það heldur.  Mætum öll á sunnudaginn og hvetjum Óskar og strákana, þeir eiga það virkilega skilið. 

Það var ánægður og stoltur Bliki sem keyrði heim úr Grafarholtinu að leik loknum.  Ágústhiminninn var forkunnarfagur í vesturátt í sólsetrinu.  Kajakróður í kvöldlogninu hefði sennilega verið valkosturinn nema fyrir að þessi mikilvægi leikur var á dagskránni.  Hefði ekki viljað missa af honum. 

Hákon Gunnarsson

Mörkin úr leiknum: 

image

Smella á mynd til að sjá hápunkta leiksins á Youtube

Gefðu kost á þér í blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum blikar.is

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum. Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir okkar eru:

www.blikar.is og www.blikar.is/kvk

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is hér og hér

Til baka