Brunnmigar og skortur á brilljans
16.05.2025


„Ég er ekki alveg eins brilljant og venjulega,“ á Eggert Stefánsson óperusöngvari að hafa sagt á dánarbeði sínu, þar sem hann lá allt að því „tilbúinn undir tréverk,“ svo gripið sé til orðabókar séra Péturs Þorsteinssonar. Bróðir Eggerts, Sigvaldi Kaldalóns, var lengi læknir við Ísafjarðardjúp og naut mikilla vinsælda í héraði en öðlaðist líka frægð um allt land fyrir sönglög sín og reyndar hefur Ave Maria hans flogið víða um heim með Víkingi Heiðari píanósnillingi. Svo vinsæll var Kaldalóns að þegar hann kom heim úr vitjun einu sinni beið hans flygill sem Djúpmenn höfðu með mikilli fyrirhöfn og enn meiri rausnarskap ákveðið að færa honum að gjöf. Til þess að koma hljóðfærinu inn í læknishúsið varð að rjúfa útvegg og stækka glugga.
Þetta mætti kalla leiðarstefin í pistli dagsins um leik Blika og Vestra í sextán liða úrslitum Mjólkurbikars karla: örlæti, skortur á brilljans, veggir sem eru rofnir og stækkaðir gluggar.
Staðið á garginu
Stúkan var þétt setin þegar liðin gengu inn á völlinn í fögru vorveðri; það var skýjað, andvari og 12 stiga hiti. Lið Blika var nokkuð breytt frá sigrinum á KA í síðasta leik, meðal annars vantaði fyrirliðann, Höskuld Gunnlaugsson, og munar um minna.
Vestri lá til baka með vel skipulagða fimm manna vörn og leyfði Blikum að leika sín á milli úti á vellinum án þess að skapa sér færi. Ekkert óvænt þar. Þannig hafa þeir lagt leikina upp í sumar. Það kom heldur ekki á óvart að þeir vestfirsku börðust eins og öskrandi ljón – í orðsins fyllstu merkingu. Hverri tæklingu var fagnað sem marki, hverju innkasti, hverri hreinsun. Markmaðurinn stóð á garginu allan leikinn. Minnti þetta nokkuð á lýsingu í Fóstbræðra sögu á Þorgeiri Hávarssyni sem var Vestfirðingum kunnur til forna en „eigi var hjarta hans sem fóarn í fugli. Eigi var það blóðfullt svo að það skylfi af hræðslu heldur var það hert af hinum hæsta höfuðsmið í öllum hvaleik.“ Meira um þennan markvörð síðar.
Köld vatnsgusa
Á fimmtándu mínútu náðu okkar menn góðu spili sem lauk með hörkuskoti Arons Bjarnasonar en boltinn small í þverslánni. Tveimur mínútum síðar laumaði Aron boltanum inn fyrir vörn Vestra á Tobias en hann skaut naumlega framhjá.
Þetta leit með öðrum orðum vel út. Okkar menn að höggva skörð í varnarmúr Ísfirðinga.
Því var það eins og köld vatnsgusa framan í stuðningsmenn Blika þegar eitthvert stórfurðulegt klúður á báða bóga í teig okkar manna endaði með marki gestanna. Vestfirðingar komnir með forystu og þungt yfir syðri endanum í stúkunni. Það var engu líkara en Butraldi Brúsason sem lýst er í Gerplu Halldórs Laxness hefði stokkið inn á völlinn en hann var sem kunnugt er „mestur brunnmigi á Íslandi“. (Gerpla er eins og alþekkt er paródía á Fóstbræðra sögu sem reyndar er talin vera paródía á Íslendinga sögur.)
„Ekki taka hornið stutt! Skjóttu á hausinn á Obbekjær!“ hrópaði maður fyrir framan tíðindamann Blikar.is skömmu síðar og bætti því við að það væri enginn í deildinni betri en sá danski inni í teig. Hornið var tekið stutt.
Eftir tæplega háftíma leik átti Ágúst Orri gott skot sem var varið í horn og undir lok hálfleiksins komst Vestramaður einn í gegn en Brynjar Atli varði glæsilega.
Guðjohnsen-ættin
Stemmningin í hálfleik var frekar dauf. Kaffið súrt. Það örlaði jafnvel á örvæntingu. Vestri er ekki þekktur fyrir að fá á sig mörk. Menn bjuggust við skiptingu til að hressa upp á sóknarleikinn en hins vegar gekk sami hópur inn á völlinn að loknu hléi. Á 50. mínútu kom Óli Valur þó inn fyrir Ágúst Orra. Og skömmu síðar náðu okkar menn upp frábæru spili sem lauk með því að Aron gaf fyrir og þar var Tobias auðvitað mættur og jafnaði með laglegu skoti.

Það var einróma álit viðstaddra að nú myndi þetta koma, landið væri tekið að rísa aftur. Það væri búið að rjúfa vegg hinna ísfirsku, jafnvel stækka glugga, og fleiri mörk vís. Þessu til staðfesgingar fylgdi Kristinn Steindórsson markinu eftir með góðu skoti sem fór yfir.
Þá var komið að örlæti og vegg sem er rofinn og glugga sem er stækkaður eins og fyrr er getið. Blikar lágu á Vestfirðingum en eftir enn eitt áhlaupið var boltanum þrumað upp hægri kant þar sem laukur úr Guðjohnsen-ættinni tók á rás, braust áfram af harðfylgi, sendi fyrir og þar var félagi hans mættur eins og hver annar brunnmigi og staðan orðin 1-2. Þögn sló á stuðningsmenn Blika.
Neglur nagaðar
Þegar 69 mínútur stóðu á klukkunni skipti Halldór Obbekjær og Arnóri Gauta út fyrir Ásgeir Helga og Viktor Elmar og tíu mínútum síðar kom Kristófer Ingi inn fyrir Anton Loga. Sóknin þyngdist og reyndar skoraði Kristófer fallegt mark en var réttilega dæmdur rangstæður.
Uppbótartíminn var sex mínútur.
Stúkan farin að naga neglur.
Ásgeir Helgi átti glæsilegan skalla af markteig en á einhvern óskiljanlegan hátt blakaði markmaður gestanna boltanum í stöngina og aftur fyrir. Úr hornspyrnunni rataði knötturinn beint á kollinn á Kristófer Inga en fór yfir.
Það voru bókstaflega allir Blikar farnir í sóknina og eðli málsins samkvæmt frekar fáir – ef nokkrir – til baka. Á lokasekúndunum kom langur bolti fram og óþreyttur Vestramaður spretti upp allan völlinn, var einn á auðum sjó en aftur varði Brynjar Atli vel.
Og flautan gall.
Okkar menn voru ekki alveg eins brilljant og venjulega, þótt þeir séu fjarri því að vera tilbúnir undir tréverk. Þeir voru hins vegar afar örlátir, opnuðu allar gáttir á stundum, svo að leiðin að markinu varð fullgreið fyrir gestina. Þetta mætti gjarnan laga fyrir leikinn á móti Val í deildinni á mánudagskvöldið svo að þeim verði ekki gefnir einn eða fleiri flyglar eða brunnmigar fái að leika lausum hala.
Í fyrra féllu okkar menn snemma úr bikarnum en bitu í skjaldarrendur og stóðu uppi sem Íslandsmeistarar.
Vonandi var leikurinn á móti Vestra fyrirboði þess.
PMÓ