BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Breiðablik – Keflavík 2015

03.08.2015
Samkvæmt vef KSÍ hafa lið Breiðablik og Keflvíkinga mæst 74 sinnum í opinberum leikjum frá 1962. Bæði lið hafa sigrað 30 sinnum og jafnt hefur orðið 14 sinnum. 262 mörk hafa verið skoruð í þessum 74 leikjum eða 3.54 mörk per leik.
 
Heildarleikjafjöldinn er reyndar 116 þegar búið er að bæta við leikjum í gömlu B-deildinni (1957 og 1962) og 40 leikjum í Litlu Bikarkeppninni (1965-1995). Keflvíkningar er því sá andstæðingur sem Breiðablik hefur oftast keppt við í opinberri keppni frá upphafi knattspyrnudeildar Breiðabliks árið 1957.
 
Leikirnir liðanna í efstu deild eru 53 leikir. Fyrsti leikur liðanna í efstu deild var árið 1971 þegar Breiðablik lék fyrst í efstu deild. Keflavík hefur unnið 23 leiki og Breiðablik 17 en 13 leikjum hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 90-85 Blikum í óhag. 
 
En lítum aðeins nánar á tölfræðina eftir að Blikar komu aftur upp í efstu deild árið 2006, en það ár lék þjálfarinn Arnar Grétarsson með Blikum sem og núverandi leikmenn eins og t.d. fyrirliðinn Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Ellert Hreinsson, Kári Ársælsson, Olgeir Sigurgeirsson, og ári síðar eru Kristinn Jónsson og Guðjón Pétur Lýðsson komnir í leikmannahóp Blika. 
 
Heilt yfir er Breiðablik með yfirhöndina heima og úti í þessum 19 efstu deildar leikjum frá 2006. Blikasigrarnir eru 8, jafnteflin eru 6 og Keflvíkingar hafa unnið 5 sinnum. Mörkin eru hvorki meira né minna 71 mark í 19 leikjum eða tæplega 4 mörk í leik að meðaltali.
 
Það er athyglisvert að Blikum hefur gengið betur að ná hagstæðum úrslitum á Nettóvellinum í Keflavík en á Kópavogsvelli því 5 af 8 sigrum Blika eru í Keflavík og fjögur af sex jafnteflum liðanna eru á Kópavogsvelli. Blikar hafa tapað tveimur heimaleikjum; fyrra var 0-1 tap árið 2010 og seinna tapið var árið 2012 þegar Keflvíkingar snýttu okkur 0-4. 
 
Fyrri leikur liðanna í sumar endaði með 1-1 jafntefli þar sem Blikar jöfnuðu leikinn úr glæsilegri aukaspyrnu Guðjóns Péturs Lýðssonar. Spyrnan var jafnframt síðasta spyrna leiksins. Reyndar skoruðu Blikar 2 önnur mörk í leiknum sem voru ranglega dæmd af.
 
Leikur Breiðablikis og Keflavíkur verður á Kópavogsvelli klukkan 19:15 á miðvikudaginn.
 
Upphitun fyrir leikinn frá BlikarTV
 
Áfram Breiðablik!

Til baka