BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blindir fá sjón

18.05.2015
Alls konar hugsanir fljúga í gegnum hugskot pistlahöfundar þegar sest er niður eftir 1:1 jafntefli drengjanna okkar við Keflavík í gær.  Munu blindir fá sjón? Er Stevie Wonder Keflavíkingur? Blæs alltaf úr öllum áttum á  Suðurnesjunum? Erum við dæmdir til að bæta jafnteflismetið okkar frá því í fyrra? Verður Guðjón Pétur markakóngur deildarinnar? En það skilar hins vegar engum árangri. Við breytum ekki fortíðinni og þurfum að hugsa til framtíðar.Tökum það sem vel var gert í leiknum í gær og förum með það í Valsleikinn á miðvikudaginn. Þá er hægt að lofa að fyrsti sigur okkar á keppnistímabilinu lítur dagsins ljós.
 
Þjálfararnir gerðu tvær breytingar á liðinu frá KR-leiknum.  Oliver kom inn á miðjuna í sínum fyrsta leik í Pepsí-deildinni og Gummi Friðriks leysti Arnór af í bakvarðarstöðunni. En Arnór er enn að jafna sig eftir höfuðhögg sem hann fékk í KR-leiknum. Ismar Tandir var veikur.
 
Annars var liðið þannig skipað:
 
Byrjunarlið:
1. Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (m) 
3. Oliver Sigurjónsson 
4. Damir Muminovic 
5. Elfar Freyr Helgason 
7. Höskuldur Gunnlaugsson 
10. Guðjón Pétur Lýðsson 
22. Ellert Hreinsson 
23. Kristinn Jónsson 
28. Davíð Kristján Ólafsson 
30. Andri Rafn Yeoman 
31. Guðmundur Friðriksson 
 
Varamenn:
24. Aron Snær Friðriksson (m) 
6. Kári Ársælsson 
8. Arnþór Ari Atlason 
11. Olgeir Sigurgeirsson 
13. Sólon Breki Leifsson 
19. Gunnlaugur Hlynur Birgisson 
20. Atli Sigurjónsson 
 
Leikskýrsla. 
 
Eins og venjulega blés hressilega í Keflavík. Vindur var að suðvestan norðan megin á vellinum en norðaustan grunnskólamegin. Það tók leikmenn liðanna nokkurn tíma að átta sig aðstæðum og voru gæði leiksins í öfugu hlutfalli við vindstyrk.Blikarnir stjórnuðu spilinu í leiknum en allur vindur var úr sóknaraðgerðunum þegar nálgaðist vítateig andstæðingana. Heimamenn vörðust vel og sóttu nokkrum hratt á  Blikaliðið. En það var ekki í raun nein hætta upp við markið fyrr en undir lok hálfleiksins að við fengum nokkrar hornspyrnur í röð. Boltinn dansaði nokkrum sinnum á línunni og á einhvern ótrúlegan hátt tókst okkur ekki að troða tuðrunni inn fyrir hvítu línuna.
 
Þó nokkur fjöldi harðgerðra Blika hafði lagt á sig langa ferð suður með sjó til að fylgjast með leiknum. Höfðu menn á orði þegar menn börðu sér til hita að meiri greddu vantaði í okkar menn. Þjálfararnir settu Arnþór Ara inn á síðari hálfleik og nokkru síðar nýja manninn okkar Atla Sigurjónsson. Því miður tókst Keflvíkingum að skora mark beint úr aukaspyrnu sem dæmd var á allt of mikinn gassagang varnarinnar. Markið var stórglæsilegt en við áttum aldrei að gefa aukaspyrnu á þessum hættulega stað. Það á ekki að rjúka í menn á fullri ferð á þessum stað. Með varamönnunum okkar kom mun meiri flæði í spil Blikaliðsins. Við tókum í raun öll völd á vellinum. En af einhverjum óskiljanlegum ástæðum ákvað annar varadómarinn að setja upp blindrastaf og gleraugu og dæmdi af okkur tvö fullkomlega lögleg mörk. En bjargvætturinn í grasinu, Guðjón Pétur Lýðsson, smurði knöttinn upp í hornið með síðustu spyrnu leiksins. Við erum því enn ósigraðir í deildinni en jafnteflin eru dýr. Það þýðir hins vegar ekkert að gráta Björn bónda, eins og Ólöf Loftsdóttir komst að á Rifi um árið. Við söfnum bara liði gegn Valsmönnum á miðvikudaginn og siglum fyrsta sigri sumarsins í hús. 
 
Þetta var nokkuð kaflaskiptur leikur hjá Blikaliðinu. Við vorum máttlausir fram á við framan af leiknum. En með innkomu Arnþórs Atla og Atla Sigurjóns jókst sóknarþunginn og við fórum að skapa okkur marktækifæri. Atli kom sterkur inn, lét strax finna fyrir sér líkamlega og dreifði boltanum vel. Ljóst er að hann mun styrkja Blikaliðið mjög mikið. Guðmundur Friðriksson nýtti tækifærið sem hann fékk í gær vel og einnig var Damir öruggur í vörninni. Ungur og efnilegur 16 ára framherji Sólon  Breki Leifsson fékk sitt fyrsta tækifæri í Pepsí-deildinni og verður gaman að fylgjast með honum í framtíðinni. En  nú þarf liðið í heild að þjappa sér saman og sýna Valsmönnum í tvo heimana. Okkur hefur gengið vel gegn þeim á undanförnum árum og er engin ástæða til að halda að það breytist eitthvað á miðvikudaginn!
 
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar.

Til baka