BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikastoltið tók yfir í síðari háfleik

28.08.2020 image

Það voru frekar súrir Blikar sem yfirgáfu Lerkendal völlinn í Þrándheimi í gærkvöldi. 4:2 tap gegn norska stórliðinu Rósenborg var staðreynd. Samt segja þessi úrslit í raun ekki nema hálfa sögu um þróun leiksins. Blikaliðið spilaði ágætis bolta úti á vellinum en náði ekki að verjast sem lið í fyrri hálfleik. Því fór sem fór. En frammistaða Blikaliðsins í síðari hálfleik var til fyrirmyndar og má segja að við höfum fallið úr keppni með sæmd. Sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að liðið var 4:0 undir í leikhléi.

image

Breiðablikshópurinn við komuna til Þrándheims.

Saga Íslands og Þrándheims eða Niðurós eins og borgin hét á miðöldum er samtvinnuð. Talið er að margir af fyrstu landnámsmönnum hafi komið úr héruðunum í kringum Þrándheim. ,,Ísland byggðisk fyrst ýr Norvegi …“ segir Ari fróði, og Landnámabók staðfestir að þaðan hafi flestir landnámsmenn komið, flestir af vesturströndinni en aðeins örfáir úr héruðunum austanfjalls.  Einnig heyrði íslenska kirkjan undir erkibiskupinn í Þrándheimi um langa hríð ásamt þeim löndum sem þaðan höfðu byggst, allt frá Orkneyjum, Suðureyjum, Hjaltlandi og Færeyjum, til Íslands og Grænlands.

Þrándheimsbúar sýndu okkar piltum hins vegar lítið vinarþel og voru greinilega búnir að gleyma því að Íslendingar færðu þeim Heimskringlu og Snorra-Eddu. Sannast þar hið fornkveðna að sjaldan launar kálfur ofeldið. Einnig er vert að minna á að haustið 1239 sigldi Snorri Sturluson frá Niðarósi í banni Hákonar Hákonarsonar konungs. Þá mælti Snorri hin örlagaþrungnu orð: „Út vil ek!“ Sú ferð var hans banabiti síðar. Má færa ýmis rök fyrir því að Niðarósbúar hafi enn verið að refsa Íslendingum fyrir þessa ólöglegu heimför Snorra.

Sérstaklega var súrt að fylgjast með fyrri hálfleiknum. Blikaliðið var jafn mikið eða jafnvel meira með boltann í hálfleiknum og var samkvæmt sjálfu sér í leikskipulaginu. Reynt var að spila frá aftasta manni og oft tókst það ljómandi vel. En heiladísirnar voru algjörlega í liði með heimapiltum. Boltinn mátti ekki komast nálægt okkar vítateig því þá var komið mark. Það var með eindæmum hve óheppnir við vorum í varnarvinnunni og öll vafaatriði féllu með heimapiltum.

Áhugaverðar klippur og tölfræði úr leiknum:

Minni menn en Blikar hefðu látið deigan síga  og gefist upp. En uppgjöf er greinilega ekki til í orðaforða okkar manna. Blikapiltarnir komu út á völlinn í síðari hálfleik með reistan kassa og héldu áfram að spila úrvalsbolta. Það skilaði sér í tveimur mörkum. Hið fyrra kom eftir góðan samleik Gísla, Brynjólfs og Höskuldar upp vinstri kantinn. Viktor Karl fékk svo knöttinn hægra megin í teignum og sendi boltann í netið með fallegri spyrnu. Spilið í aðdraganda marksins var sérstaklega fallegt og þegar boltinn gekk marrkvisst á milli Róberts – Antons, Damirs, Alexanders, Olivers, Höskuldar, Brynjólfs, Gísla og Viktors Karls sem var einn á auðum sjó hægra megin í teignum. Sjá mörkin hér neðar. 

Svo var Gísli felldur í vítaeignum skömmu fyrir leikslok og Thomas skoraði af öryggi úr vítaspyrnunni. 

image

Gisladóttir að fylgjast með pabba sínum í sjónvarpinu.

En við vorum of lengi í gang og vorum því í raun úr leik strax eftir fyrri hálfleikinn. Það þýðir samt ekkert að láta þessi úrslit slá okkur út af laginu. Við spiluðum á köflum úrvalsbolta og er þetta gott veganesti fyrir baráttuna  í bikarnum og deildinni á komandi vikum.

-AP

Til baka