BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar fá viðurkenningu

08.01.2016

Hinn árlegi jólamatur meistaraflokka karla og kvenna (í seinni kantinum í þetta sinn vegna fjarveru margra milli jóla og nýárs) var haldinn í Smáranum í gær með hefðbundinni dagskrá og viðurkenningum til leikmanna.

Eins og venjulega var andrúmsloftið afslappað og þægilegt. Eftirtaldir leikmenn voru heiðraðir.

Olgeir Sigurgeirsson. Hættir hjá okkur eftir 2015 tímabilið eftir langan feril hjá Breiðabliki. Olli er leikjahæsti leikmaður Breiðabliks frá upphafi með 321 opinberan leik og 39 mörk frá 2003 til 2015. Olli fékk blóm, gjafabréf og áritaðan platta vegna leikjafjölda.

Kristinn Jónsson og Árni Vilhjálmsson fengu áritaðan platta með kveðju- og þakklætisorðum í tilefni þess að vera farnir í atvinnumennsku. Þetta er hefð sem hefur komist á og kunna menn að meta þessa viðurkenningu. Þeir voru reyndar báðir fjarverandi því undirbúnings- tímabilið í Noregi er hafið.

Fanndís Friðriksdóttir fékk áritaðan platta vegna 200 leikja áfangans sem Fanndís náði í sumar. Fanndís er núna 3 leikjahæsti leikmaður meistaraflokks kvenna með 214 leiki og 111 !!!! mörk (þar af 22 mörk 2015). Fanndís getur náð að verða leikjahæst eftir aðeins 15 leiki og er það ótrúlegur árangur hjá henni því hún er aðeins 25 ára gömul. Fanndís var reyndar erlendis en það var klappað vel fyrir henni.

Arnór Sveinn Aðalsteinsson fékk áritaðan platta vegna þess áfanga að spila 200 opinbera leiki. Arnór er núna sjöundi leikjahæsti leikmaður Breiðabliks frá upphafi með 230 leiki.

Guðjón Pétur Lýðsson hættir hjá Breiðabliki og skiptir yfir í Val. Honum voru færðar hlýjar þakkir og blóm.

Guðrún Arnardóttir og Hildur Sif Hauksdóttir (fjarverandi) fengu viðurkenningarskjal vegna 100 leikja áfanga (komnar í „100 leikja klúbbinn“ svokallaða). Eru núna báðar með 102 leiki.

Knattspyrnudeild Breiðabliks

Til baka