BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blesugrófarblús

22.04.2024 image

Blesugrófarblús

Sunnudagskvöldið 21. apríl sóttu Blikar Íslands- og bikarmeistarana heim í Víkina. Sól skein í heiði og það var vestan gola. Veður var milt og mætti jafnvel kalla þetta drög að vori. Tíðindamaður Blikar.is ákvað að mæta mjög tímanlega svo að hann þyrfti ekki að standa á bretti við hornfánann eins og einhvern tíma áður og sjá ekki neitt. Til öryggis kom hann við þriðja mann til þess að hafa tvö viðbótarsett af augum ef eitthvað skyldi fara framhjá honum. Aðsóknin var slík að við töldumst heppnir að fá sæti hér og þar í stúkunni – og vorum þó langt frá því síðustu menn í á svæðið. Fjöldinn allur tróð sér í tröppur, á bretti við hliðina á stúkunni, hver sat ofan á öðrum, opnað var fyrir svæði fyrir sunnan völlinn en lokað upp í trén fyrir aftan markið. Uppselt var á leikinn.

Ekki er að undra að spenna hafi verið fyrir stórleiknum  – það hefur skapast allnokkur rígur á milli félaganna undanfarin ár. Tengslin eru líka nokkur – t.d. voru þrír fyrrum Blikar í byrjunarliði Víkings og a.m.k. einn HK-ingur.

Lið Blika sem gekk inn á völlinn var þannig skipað:

Troðningur í stúkunni

Okkar menn hófu leikinn af miklum krafti. Það voru ekki liðnar nema um það bil 22 sekúndur þegar Damir sendi Stokke einan í gegn en Víkingar björguðu. Á fimmtu mínútu átti Viktor Örn gott skot sem fór framhjá eftir nokkurn darraðardans í teignum.

Blikar komu með öðrum orðum vel stemmdir til leiks. En þá fór allt í einu að síga á ógæfuhliðina. Víkingar áttu skot rétt framhjá, Anton Ari varði vel, það var skot sem fór af varnarmanni í hliðarnetið. En okkar menn voru engu að síður hættulegir.

Nema hvað. Og nú kemur að þessum troðningi í stúkunni og skorti á aðstoðarmönnum fréttaritarans. Það var sífellt verið að þramma upp og niður tröppurnar í stúkunni svo að ekki var alltaf gott að sjá hvað fram fór á vellinum. Það var einhver hávaði Víkingsmegin á pöllunum, jafnvel í tvígang, líklega einhvers konar fagnaðarlæti, og ekki var það til að bæta ástandið að nú fór síminn í vasanum að titra. Vinur fréttaritara, sem stundum hefur verið vitnað til í þessum pistlum, hafði sent skeyti en hann er bæði með tengingar við Stjörnuna og Víking: „Hvernig er í Víkinni? Amk lélegt netsamband. Hef áhyggjur … sendi bréfdúfuna til að fá fréttir.“

„Nú er þetta leikur“

Undirritaður skildi ekkert í þessum skeytasendingum. Hafði eitthvað gerst sem kallaði á svona spurningar sem mætti jafnvel flokka sem „passive aggressive“, eins og það er kallað á fagmáli? En nú var eins og lifnaði yfir Blikaliðinu. Þegar klukkan nálgaðist 30 mínútur átti Höskuldur skot sem endaði í horni, markvörður Víkinga varði frá Viktori Karli, mark var dæmt af Blikum vegna rangstöðu (hér hefði t.d. verið gott að fá staðfest hjá aðstoðarmönnunum að þetta hefði verið rangur dómur). Á 35. mínútu var brotið fólskulega á Alexander á miðjum vallarhelmingi heimamanna í afar efnilegri sókn. Upp úr aukaspyrnunni skoraði Kristófer fallegt mark og aftur pípti síminn: „Bjarghringur úr Garðabænum?“ Nú þegar aðeins hafði rofað til og fólk að mestu hætt að rápa sá tíðindamaðurinn að staðan var víst 2-1 fyrir heimamenn. Þá sagði sessunauturinn, nýkominn úr hnéaðgerð, og sat skakkur og kvalinn í tröppunum: „Nú er þetta leikur.“

 

Í hálfleik var það mál manna að nú hlyti landið að fara að rísa aftur. Það væri allt annað að fara inn í klefa einu marki undir en ekki tveimur. Gamall kunningi úr Kópavogi, sem er ekki með öllu ókunnur innviðum beggja félaganna, rifjaði upp leikinn fræga þegar Blikar höfðu sagt Arnari Grétarssyni upp störfum og unnu frækinn sigur í Víkinni, 3-2, eftir að soðið hafði upp úr hjá liðinu í klefanum í hálfleik. Kannski kæmu okkar menn eins og öskrandi ljón þegar flautað yrði til síðari hálfleiks? Annar benti á að okkar menn hefðu í fyrstu tveimur leikjunum átt góðan og slæman hálfleik – nú hlyti sá góði að bresta á.

Ómerkileg tjörn

Á 51. mínútu kom Kristinn Steindórsson inn á fyrir Stokke og við það breyttist leikur okkar manna. Hann varð beinskeyttari og nú dundu sóknirnar á vörn Víkinga. Þeir björguðu meðal annars á línu, við áttum skot naumlega framhjá en þeir áttu að vísu líka upplagða sókn á þessum mínútum.

Einu sinni var lítil og frekar ómerkileg tjörn á svipuðum slóðum og Víkingsvöllurinn stendur núna. Hún var ræst fram og líklega ekki að ástæðulausu. Hún hét Lómatjörn. Lómur er vatnafugl. Hann ver hreiðrið af hörku og drepur jafnvel fugla sem hætta sér of nærri. Nú ætlar tíðindamaðurinn sér ekki þá dul að líkja Víkingum við lóma. En þeir vörðu sannarlega markið sitt af hörku. Jasoni var t.d. hent flötum úti á miðjum velli og okkar menn komust lítt áleiðis til að jafna leikinn.

Ísak og Dagur Örn komu inn á og var þeim fagnað vel og innilega. Aftur hófst mikið ráp upp og niður tröppur svo að ekki var gott að sjá hvað fór fram á vellinum, sérstaklega ekki á hinum vallarhelmingnum, sólin var líka lágt á lofti og skein beint í augun, og engum aðstoðarmönnum til að dreifa. En þegar eitt skilningarvit dettur út tekur annað við. Eyrun námu fagnaðarlæti hjá heimamönnum í stúkunni, jafnvel í tvígang og með skömmu millibili.

Að öðru leyti fjaraði leikurinn út. Þá tók tíðindamaðurinn eftir því að staðan var víst 4-1, heimamönnum í vil.

Aflóga meri

Fyrir ofan Víkingssvæðið er hverfið Blesugróf. Tryggvi Emilsson rithöfundur sem þar bjó um tíma segir í einni af bókum sínum að nafnið á hverfinu hafi líklega orðið til vegna þess að blesótt hryssa hafi borið þar sín bein og fundist þar dauð eftir harðan vetur. Við skulum vona að okkar menn líti á þennan leik eins og þetta aumingja hross. Jafnvel mætti fara aðeins lengra í líkingasúpunni og vísa í það að á þessum slóðum var herskálakampurinn New Mercur Dump í síðari heimsstyrjöld. Í Bandaríkjunum voru svæði þar sem losa mátti eiturefni eins og kvikasilfur kölluð Mercury Dump. Það væri því ekki úr vegi að grafa þessa aflóga blesóttu meri sem sjálfsagt er hlaðin ýmsum óæskilegum efnum á þessum sorphaug sögunnar. Hins vegar var í þessum sama kampi lengst af birgðastöð fyrir skotfæri. Þar mætti örugglega grípa eitt og annað fyrir næstu leiki, við Keflavík í Mjólkurbikarnum á fimmtudaginn og á móti KR í deildinni, sunnudaginn 28. apríl. Þangað skulum við fjölmenna!

-PMÓ

Til baka