BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

BikarBlikablús í Bítlabænum

26.04.2024 image

Það samræmist ekki góðum bragarhætti að ofstuðla í fyrirsögnum. En 2:1 tapið fyrir Keflavík í bikarnum í gær kallar á sterk viðbrögð. Bæði Halldór þjálfari og Höskuldur fyrirliði viðurkenndu í viðtölum eftir leikinn að frammistaðan í leiknum hefði verið mjög slök. Sérstaklega var spilamennska Blikaliðsins í fyrri hálfleik ein sú slakasta sem sést hefur til liðsins um háa herrans tíð.  Enda var fjórum leikmönnum skipt inn á síðari hálfleik en það dugði samt ekki til sigurs.

Eitt af því fáa sem gladdi augað var mark Kristófers í síðari hálfleik en það var hálf-gerður Phyrrosarsigur því leikmaðurinn þurfti strax að fara af velli tognaður á læri eftir markið.

Það eru ýmsar varúðarbjöllur farnar að klingja eftir þessa fyrstu leiki tímabilsins. Blikaliðið hefur ekki náð að tengja saman tvo góða hálfleiki í öllum þessum fjórum leikjum. En þetta vita leikmennirnir betur en flestir aðrir. Ef við þekkjum þá rétt þá koma þeir eins og brjáluð ljón í næstu leiki. Og það eru engir smáleikir. KR bíður í Vesturbænum á sunnudaginn og svo kemur gríðarsterkt Valslið í heimsókn á Kópavogsvöll mánudaginn 6. maí. Þarna þurfum við ná upp alvöru Blikaanda og Blikaspili!

En við stuðningsmennirnir stöndum þétt við bakið á liðinu áfram. Það býr miklu meira í Blikaliðinu en það hefur sýnt hingað til. Þetta er bara spurning um tíma og þá fáum við að sjá góð úrslit aftur!

Sjáumst græn og glöð í Frostaskjólinu á sunnudaginn kl.18.30

-AP

Til baka