BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2024: HK - Breiðablik

01.06.2024 image

Það er komið að Kópavogsslagnum. Blikar heimsækja HK-inga á erfiðum útivelli inn í Kórnum. Flautað verður til leiks kl.19:15 á sunnudaginn.

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Stöð 2 Sport sýnir leikinn fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Mætum í stúkuna í Kórnum og hvetjum okkar menn til sigurs. 

Staðan í Bestu deildinni fyrir leikinn gegn HK þegar fjögur efstu liðin eru búin með sína leiki í 14. umf.:

Sagan & Tölfræði

Breiðablik og HK eiga að baki 36 mótsleiki auk góðgerðarleikja enda hefur samstarf Kópavogsfélaganna verið mjög gott. Yfirlit mótsleikja.

Leikurinn á mánudaginn verður  37. mótsleikur liðanna og 12. innbyrðis leikur liðanna í efstu deild frá upphafi.

Staðan í 11 leikjum í efstu deild til þessa nokkuð jöfn. Blikasigar eru 4 gegn 5 sigrum HK - jafnteflin eru 2.

Fimm síðustu leikir gegn HK í efstu deild. Í Kórnum (4) og á Kópavogsvelli (1) árið 2008 þegar Kópavogsvöllur var heimavöllur beggja liða: 

Leikmannahópurinn

Nokkrir núverandi leikmanna Blika hafa leikið með báðum liðum.

Fyrrum HK-ingurinn Damir Muminovic spilar nú með Breiðabliki eins og alkunna er.

Viktor Örn Margeirsson lék sem lánsmaður hjá HK árið 2014.

Og fyrrum leikmenn Breiðabliks, þeir Arnþór Ari Atlason og Atli Hrafn Andrason, leika nú með HK.

Leikmenn sem komu til okkar fyrir keppnistímabilið:

Kristinn Jónsson (KR) Kiddi Jóns kominn heim * Aron Bjarnason (Ungverjaland) Aron Bjarna mættur í grænt * Arnór Gauti Jónsson (Fylkir) Arnór Gauti mættur í Kópavoginn * Benjamin Stokke (Noregur) Norski framherjinn Benjamin Stokke til Breiðabliks * Daniel Obbekjær (Færeyjar) Daniel Obbekjær gerir 3 ára samning við Breiðablik * Ísak Snær Þorvaldsson á láni (Noregur) Ísak Snær aftur í Kópavoginn.

Leimenn Breiðabliks sem voru á láni hjá öðrum liðum 2023: Dagur Örn Fjeldsted (Grindavík) - Eyþór Aron Wöhler (HK) - Pétur Theódór Árnason (Gróttu). Í mars rifti Pétur samningi sínum við Breiðablik og íhugar að hætta í fótbolta, en meiðsli hafa sett risastórt strik í feril hans undanfarin 2-3 ár. - Tómas Orri Róbertsson (Grindavík) - Tumi Fannar Gunnarsson (Augnablik) - Viktor Elmar Gautason (Augnablik)

Leikmenn Breiðabliks á láni hjá öðrum liðum keppnistímabilið 2024: Ásgeir Helgi Orrason (Keflavík). Tómas Orri Róbertssson (Grótta). 

Farnir: Alex Freyr Elísson (Fram...var á láni hjá KA) - Anton Logi Lúðviksson (Noregur) - Arnar Númi Gíslason (Fylkir...var á láni hjá Gróttu) - Ágúst Eðvald Hlynsson (Danmörk) - Davíð Ingvarsson (Danmörk) - Gísli Eyjólfsson (Svíþjóð) - Hilmar Þór Kjærnested Helgason (Fylkir) - Klæmint Olsen (Færeyjar ...var á láni frá NSÍ) - Oliver Stefánsson (ÍA). - Eyþór Aron Wöhler (KR)

Teymið: Halldór Árnason er aðalþjálfari Breiðabliksliðsins. Aðstoðarþjálfari er Eyjólfur Héðinsson. Eiður Eiríksson er transition þjálfari. Stryrktarþjálfari er Helgi Guðfinnsson. Haraldur Björnsson er markmannsþjálfari liðsins. Sjúkraþjálfari er Særún Jónsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Kristinn Orri Erlendsson er nuddari liðsins. Liðsstjórar eru Marinó Önundarson og Brynjar Dagur Sighvatsson. 

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki leiksins er fæddur í Bandaríkjunum og er Garðbæingur. Þorsteinn Geirsson (Steini Geirs) og segja má að fyrrum formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, Jón Ingi Ragnarsson og Gissur Guðmundsson, þá markmaður meistarflokks Breiðabliks, hafi átt stærstan þátt í því að hann gekk ungur til liðs við Breiðablik. Steini var og er mikill áhugamaður um veiði og fengsæll veiðimaður og oft kallaður Minkurinn. Aðeins 10 ára gamall settist ég upp á DBS hjólið mitt og hjólaði með veiðistöngina yfir Hellisheiðina og endaði ferðina við Sogið í Grímsnesi þar sem ég hóf veiðar. Vart þarf að taka það fram að ferðalagið var í fullkominni óþökk foreldra minna. Þegar fór að húma var ég orðinn kaldur og svangur og bankaði því upp á bóndabæ við Sogið og bað húsfreyjuna um hjálp við að komast aftur heim í Garðabæ. Húsfreyjan hringdi því í lögregluna og stuttu síðar birtist vörpulegur lögreglumaður, Gissur Guðmundsson, á hlaðinu og bauðst til að keyra mig heim í Garðabæinn. Gissur hafði séð til mín spila á Vallargerðisvelli með 5. flokki Stjörnunnar og hvatti hann mig til að mæta á æfingar með Breiðablik. Pabbi minn, Geir H. Þorsteinsson, var þá heimilislæknir margra Kópavogsbúa og einn þeirra var Jón Ingi Ragnarsson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks. Þvi voru hæg heimatökin að ganga frá félaskiptum úr Stjörnunni yfir í Breiðabliks.

Þorsteinn Geirsson - Hvernig fer leikurinn?

Grænn er litur orku og lífskrafts og tengist hann því æsku og lífsþrótti órjúfanlegum böndum og því spái ég Blikum sigri í miklum markaleik. Rauði litur HK er litur ástríðunnar, styrks og spennu og leikurinn verður því spennandi frá fyrstu mínútu.

Ást kópavogsbúa á knattspyrnu er jafn sterk og lyktin af nýbökuðu brauði frá Reyni Bakara á Dalveginum. Kópavogur býr svo vel að eiga tvö sterk knattspyrnulið sem hlúð hafa aðdáunarlega að unglingastarfi sínu og bæði félögin eiga meistaraflokka í fremstu röð. Félögin fylla Kópavogsbúa stolti og sem íbúi og fyrrum leikmaður Breiðabliks þá er ég mjög stoltur af því hvernig til hefur tekist. Leikir Breiðabliks og HK í knattspyrnu hafa oft verið sögulegir og hin síðari ár hefur HK sýnt mikið hugrekki og oftar en ég kæri mig um hafa úrslitin orðið óvænt.

Tvö barnabarna minna æfa og spila undir merkjum HK og ég er því settur í erfiða stöðu þegar liðin mætast en ekki erfiðari en svo að rætt er um einvígi félaganna með sömu virðingu og árleg bökunarkeppni fjölskyldunnar þar sem ég fer hamförum í bakstri á bæði hjónabændssælum og skinkuhornum. Það upplýsist hér með að ég sigraði í þeirri keppni fyrir ári síðan með óvæntri innáskiptingu á marsipani í stað haframjöls. Þessi óvænta en “sæt-taktíska” innáskipting var það sem réð baggamuninn og því spái ég því að óvæntar og taktískar innáskiptingar þjálfaranna verði það sem skilji liðin að í leikslok.

Steini Geirs (til hægri) í leik gegn Víking árið 1984. Mynd: Íslensk knattspyrna

Ég viðurkenni að ég gleðst alltaf yfir því óvænta í boltanum og hver man ekki þá tíð þegar ÍA var stórveldi, ÍBV Íslandsmeistari og svo ekki sé talað um “Fossvogsundrið” Víking sem spilar á velli Hamingjunnar og skaust félagið á gleðinni einni upp á stjörnuhiminn íslenskrar knattspyrnu og situr þar enn. Þetta færir okkur sanninn heim um að fjöldi þátttakenda eða fjárhagur ræður ekki úrslitum leikja enda er það leikgleðin innan sem utan vallar sem öllu skiptir. Leikmenn meistaraflokka í knattspyrnu eru rokksstjörnur bæjarfélagsins og það eru fáir útvaldir sem fá að keppa í efstu deild.

Einvígi Kópavogsliðanna er hátíð Kópavogsbúa og á hátíðisdögum þá skemmtum við okkur saman og tökum því sem að höndum ber, gleðjumst og/eða berum harm okkar í hljóði. Leikmenn Breiðabliks og HK eru vissulega keppinautar þegar á völlinn er komið en utan hans eru þeir sendiherrar knattspyrnunnar í Kópavogi og leikmennirnir eiga að minna okkur að íþróttin snýst um ástríðu, gleði og einingu enda er knattspyrnan í Kópavogi ekki bara leikur; heldur lífsmáti ótal stoltra Kópavogsbúa þ.s. gleði og heilbrigður skammtur af keppnisanda ræður ríkjum.

Skemmtum okkur saman á vellinum í sumar! 

SpáBliki leisins, Steini Geirs, með sinn stærsta lax 39 punda hæng. 

Dagskrá

Flautað verður til leiks í Kórnum kl.19:15 á sunnudaginn.

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Stöð 2 Sport sýnir leikinn fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Mætum í stúkuna í Kórnum og hvetjum okkar menn til sigurs. 

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

PÓÁ

Rifjum upp leik frá 23. september 2007 sem var fyrsti heimaleikur HK gegn Blikum. Leikið var á Kópavogsvelli - heimavelli beggja liða í efstu deild árin 2007 og 2008. 

Til baka