BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2022: KA - Breiðablik

07.09.2022 image

Grafík: Halldór Halldórsson

Í pistli dagsins ...

Tuttugasti og fyrsti leikur okkar manna í Bestu deild karla 2022 > Blikar með 9 stiga forskot á toppnum > Heimsækjum KA á nýjan heimavöll á Akureyri > Miðasala á Stubbur > Sagan: 46 mótsleikir > Gamli leikurinn KA - Breiðablik 2017 > Blikahópurinn 2022 > Hannes Friðbjarnarson er SpáBliki leiksins > Dagskráin fyrir leik > Gefðu kost á þér í blikar.is liðið!

Áfangasigrar

Óskar Hrafn þjálfari og hans teymi stefnir hraðbyr í að slá hvert metið af öðru með okkar frábæra lið. 

Blikar fögnuðu vel og innilega eftir öruggan 1:0 sigur á Val í á mánudaginn enda steig liðið mjög mik­il­vægt skref í átt að Íslands­meist­ara­titli karla í fót­bolta með sigrinum. Við erum með 9 stiga forskot á næsta lið og Blikum nægir 13 stig af 21 mögulegu til að landa Íslandsmeistaratitlinum 2022 - í annað sinn í sögu félagsins og í fyrsta sinn eftir nýja keppnisfyrirkomulaginu sem er 12 liða / 22. leikja prógram  + 6 liða / 5 leikja tvískipt úrslitakeppni. 

Þýðing nýja fyrirkomulagsins á eftir að síast betur inn, en ef keppnisfyrirkomulagið sem byrjaði 2008, hefðbundn­ar 22 um­ferðir í deild­inni, væri enn í gildi hefði Breiðablik orðið Íslands­meist­ari eftir sigurleikinn gegn Val. Punktur. Ein­hverj­ir sögðu okkur deild­ar­meist­ara eft­ir leik­inn en þannig er það ekki í raun - því miður. Efsta deild held­ur áfram í októ­ber þegar fimm um­ferðum er bætt við og er ekki lokið fyrr en laugardaginn 29. október. 

Innanfélags stigametið frá í fyrra, 47 stig, féll í leiknum gegn Val. Blikar komnir með 48 stig eftir 20 leiki og enn 6 stig í pottinum m.v. 22 leiki og 21 stig í boði m.v. 27 leiki. Þessi staða býður upp á tvennt (a) slá 52 stiga met KR og Stjörnunnar m.v. 22 leiki og (b) setja stiga-rána ansi hátt m.v. nýja fyrirkomulagið - 27 leikja deild. 

Blikar eru búinir að skora 51 mark í deildinni í 20 leikjum. KR á markametið í 12 liða deild með 58 mörk árið 2009. FH er í öðru sæti með 57 mörk líka árið 2009. Ótrúlegt markaskor hjá þessum liðum 2009 sem skilaði FH Íslandmeistaratitlinum það ár. Blikar eru í þriðja sæti með 55 mörk 2021. Og Keflvíkingar í því fjórða með 54 mörk 2008. Og svo er það þetta met sem verður aldrei slegið - Skagamenn skoruði 62 mörk í 18 leikja deild árið 1993. Fyrirfram er ólíklegt að markamet KR frá 2009 falli, en það verður áhugvert að telja mörkin í lok fyrsta 27 leikja tímabils í efstu deild karla - sérstaklega í ljósi þess að Reykjavíkur Víkingar voru í kvöld að skora 9 mörk gegn Leiknismönnum og eru því 2 mörkum nær metinu en við.

Fyrr í sumar slógu Blikamenn 23 ára met ÍBV þegar þeir unnu sextánda heimasigur sinn í röð á Kópavogsvelli. Fyrra met átti ÍBV sem vann 15 heimaleiki í röð á árunum 1997-1999. Leikurinn við KR var 16. heima­sig­ur okkar manna í röð í efstu deild. Blikar eru nú taplausir í deild á heimavelli 20 leiki í röð með markatöluna 63:10. Liðið vann alla heimaleikina í fyrra, nema þann fyrsta, með markatöluna 32:1 og eru taplausir í efstu deild í ár með markatöluna 31:9 þegar einum heimaleik er ólokið fyrir úrslitakeppnina sem hefst 1. október. 

Nánar um ganga mála hjá Blikum á þessu ári > Sagan 2022

image

KA - Breiðablik

Næsti leikur okkar manna í Bestu deildinni er gegn sprækum KA-mönnum sem hafa ekki tapað mörgum stigum á nýja heimavellinum.

Flautað verður til leiks kl. 14:00 á sunnudaginn!

Miðasala hér: https://stubbur.app

Blikar ætla að fjölmenna á leikinn fyrir norðan. Það verður rúta frá Smáranum sunnudaginn 11.september. Lagt af stað kl.08:00 og áætluð koma AEY er kl.13:00. Leikurinn hefst kl.14:00. Lagt af stað heim frá AEY kl.16:30! Skráning í rútuferðina hér!

Staðan eftir 20 umferðir – Blikar á toppnum með 9 stiga forskot á næsta lið:

image

Sagan & Tölfræði

Keppnisleikir Breiðabliks og KA í öllum mótum frá fyrsta leik árið 1987 eru 45 leikir. Vinningshlutfallið fellur með okkur. Blikar með 30 sigra gegn 10 sigrum KA. Jafnteflin er 6. Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild eru 23. Blikar hafa unnið 16 leiki gegn 3 og jafnteflin eru 4. Liðin skora samtals 66 mörk: Breiðablik 46 og KA 20.

Síðustu 5 leikir gegn KA í efstu deild á Akureyri:

Gamli leikurinn

Gamli leikurinn að þessu sinni er ekki svo ýkja gamall frá 2017. Markt er athygslisvert við leikinn þ.m.t. að leikurinn var fyrsti innbyrðis leikur liðanna í efstu deild á Akureyri í 25 ár.

Milos Milojevic var þjálfari Breiðabliks á þessum tímapunkti 2017 eftir að Arnari Grétarssyni, núverandi þjálfara KA, var sagt upp störfum í upphafi móts. 

Eftir sárt 1:3 tap gegn nýliðum KA á Kópavogsvelli í fyrsta leik 2017 var komið að okkar mönnum að svara fyrir sig - sem þeir gerðu með stæl. 

Mörkin komu á færibandi. Fyrst Gísli Eyjólfs á 3'. KA menn svara fyrir sig með 2 mörkum frá Emil Lyng á 25' og 30'. Martin Lund jafnar fyrir okkar menn á 47'. Damir kemur okkur yfir á 59'. Og Aron Bjarna gulltryggir sigurinn á 87'.

Fyrirliðinn okkar, Höskuldur Gunnlaugsson, var sjóðandi heitur og lagið upp öll 4 mörk okkar manna í leiknum. 

Átta núverandi leikmenn Blika voru í leikmannahópi Blika í leiknum 2017: Damir, Elfar Freyr, Höskuldur, Gísli Eyjólfs, Andri Rafn, Oliver, Viktor Örn og Davíð Ingvars. Aðrir leikmenn eru annað hvort að spila með öðrum liðum á Íslandi (Arnþór Ari, Ólafur Íshólm), hættir að sparka Gulli Gull og Sólon Breki), eða spila sem atvinnumenn í Evrópu (Kolbeinn, Willum þór, Aron Bjarna og Davíð Kristján).

image

Mesistaraflokkur Breiðabliks 2017

Fremsta röð f.v.: Milos Milojevic aðalþjálfari, Olgeir Sigurgeirsson aðstoðarþjálfari, Gísli Sigurðsson, Aron Bjarnason, Ólafur Íshólm Ólafsson, Gunnleifur Gunnleifsson fyrirliði, Patrik Sigurður Gunnarsson, Ernir Bjarnason, Kristinn Jónsson, Ólafur Pétursson markmannsþjálfari, Ólafur Hrafn Ólafsson formaður knattspyrnudeildar. Miðröð f.v.: Snorri Arnar Viðarsson formaður meistaraflokksráðs, Jón Magnússon liðsstjórn, Marinó Önundarson liðsstjórn, Aron Már Björnsson styrktarþjálfari, Kolbeinn Þórðarson, Alexander Helgi Sigurðarson, Andri Rafn Yeoman, Dino Dolmagic, Davíð Ingvarsson, Elfar Leonardsson sjúkraþjálfari, Þorsteinn Máni Óskarsson sjúkarþjálfari, Sigurður Hlíðar Rúnarsson framkvæmdastjórn. Aftari röð f.v.: Martin Lund Pedersen, Davíð Kristján Ólafsson, Guðmundur Friðriksson, Damir Muminovic, Elfar Freyr Helgason, Þór Steinar Hreiðarsson, Hrvoje Tokic, Willum Þór Willumsson, Brynjar Óli Bjarnason, Arnþór Ari Atlason, Sveinn Aron Guðjohnsen, Sólon Breki Leifsson. Á myndina vantar leikmennina Höskuld Gunnlaugsson, Michee Efete, Oliver Sigurjónsson og Viktor Örn Margeirsson. Myndataka & umsjón: Helgi Viðar Hilmarsson, Pétur Ómar Ágústsson.

Höskuldur lagði upp öll fjögur mörk Blika í leiknum:

Blikahópurinn 2022

Okkar maður Mikkel Qvist spilaði 31 leik með KA árin 2020 og 2021 sem lánsmaður frá Horsens.

Nokkrir leikmenn KA liðsins hafa spilað í Blikatreyjunni. Steinþór Freyr Þorsteinsson lék 140 mótsleiki og skoraði 16 mörk með Blikum á árunum 2002-2008.  Elfar Árni Aðalsteinsson lék 105 mótsleiki með Blikaliðinu og skoraði 29 mörk á árunum 2012-2015.

Og þjálfari KA liðsins, Arnar Grétarsson er uppalinn Bliki. Hann byrjaði að spila með meistaraflokki í B-deild 1988 þá 16 ára gamall. Addi er nú fimmti leikjahæsti leikmaður Breiðabliks frá upphafi með 289 leiki og 61 mark. 

Einnig er framkvæmdastjóri KA, Sævar Pétursson, fyrrverandi leikmaður Blika með 119 mótsleiki og 23 mörk með Blikum.

Svo má ekki gleyma því að bræðurnir og Stór-Blikarnir Einar, Hinrik og Þórarinn Þórhallssynir (Huldusynir) hafa allir leikið með báðum liðum. Einar 1979, Þórarinn (Tóti) 1983/1984 og Hinrik lék yfir 100 leiki með KA á árunum 1981 til 1987.

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla hjá Breiðabliki. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Ólafur Pétursson er markmannsþjálfari liðsins. Ólafur hefur starfað sem markmannsþjálfari hjá Breiðabliki frá árinu 2005. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Og Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar meistaraflokks karla.

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 21. umferðar er fæddur árið 1975 og hefur búið mest alla sína tíð í Kópavoginum. Sleit barnsskónum á Kársnesinu og var malarvöllurinn í Vallargerði heimavöllurinn í því hverfi. Þó vissulega hefði mikið verið spilað á vellinum við Kársnesskóla og við hinn goðsagnakennda Stellu-róló. En þangað var stutt að fara fyrir unga drengi í gerðunum. Ferill blikans með Breiðablik fer nú seint í sögubækur, en hann telur árganginn sinn einn slakasta sem birst hefur í Kópavogi. Undantekningarnar eru fáar. Einna helst Gunnleifur Gunnleifsson sem náði að láta ljós sitt skína. Árgangur þessi var í öðru. Eftirminnilegast er þó leikur hjá 3. flokki Breiðabliks við Aftureldingu sem var háður árið 1990 minnir mig. Þá lék flokkurinn undir stjórn Antons Bjarnasonar. SpáBlikinn gerði sér lítið fyrir og þrumaði tuðrunni í gagnauga þjálfarans tveimur dögum fyrir leik, við litla hrifningu þjálfarans. Fannst honum þjálfarinn hafa tekið af sér spyrnu sem var á leið í vinkilinn. Þetta varð þó til þess að í leiknum gegn Aftureldingu var Spáblikinn sá eini í hóp sem ekki fékk að fara inn á. Leikurinn endaði 16-0 fyrir blikum og fengu allir að spila. Nema Spáblikinn. Þarna fannst Spáblika mál að linni og hætti iðkun með Breiðablik og snéri sér 100% að stuðningi við félagið. Atvikið var þó ekki örlagavaldur þar sem þetta var búið að gerjast í einhvern tíma. Hef mætt á hverju sumri á leiki meistaraflokks síðan í kringum árið 1985 og sat í stjórn knattspyrnudeildar á árunum 2010 til 2014. Eins hef ég komið að allskyns viðburðum sem tengdir eru félaginu. Spáblikinn býr í Reykjavík en er með útsýni til Kópavogs.

Hannes Friðbjarnarson - Hvernig fer leikurinn?

KA menn hafa oft verið erfiðir og hafa spilað ljómandi skemmtilegan fótbolta það sem af er sumri. Í rauninni skemmtilegri en maður átti von á því maður þekki þjálfarann aðeins og hefur hann verið þekktur fyrir meiri varnarleik í sinni þjálfun með góðum árangri. Nú er þó svo komið að KA menn eru tæpast í baráttunni um titilinn lengur og auk þess búnir að selja sinn aðal markaskorara. Því tel ég tennurnar aðeins farnar að losna. Blikar eru fullir sjálfstrausts eftir frækinn sigur gegn Val og virðast 8 fingur vera komnir á dolluna góðu eftir 12 ára bið.  Ég spái því að þessi leikur fari 1-3 fyrir græna í blíðunni fyrir norðan. Ísak er kominn aftur á bragðið og setur 2 og svo mun Andri Rafn Yeoman, einn besti þegn klúbbsins frá upphafi skora eitt. Líklega úr þvögu í teig eftir mikið skvaldur.
Semsagt. Sigur í mikilvægum leik og gripið þéttist á gullinu.

Blikakveðja
Hannes Friðbjarnarson

image

3. flokkur Breiðabliks 1990

Aftrari röð f.v.: Anton Bjarnason þjálfari, Guðmundur Sigfinnsson prestur, Gísli Sturluson, Elfar Guðmundsson, spilaði lengi með meistarfl Blika í handbolta, Gylfi Steinn Gunnarsson m.a. vefstjóri blikar.is, Kristinn, Stefán, Steinn Óskar verðlaunakokkur, Gunnsteinn Sigurðsson liðsstjóri.

Fremri röð f.v.: Njörður Sigurjónsson prófessor á Bifröst, Júlíus Kristjánsson, bróðir Sigurjóns Kristjánssonar markarskorara blika í denn, Dagbjartur Hilmarsson, Benedikt Nikulás Anes Ketilsson framleiðandi hjá RÚV, Einar Hannesson sem spilaði lengi með meistarafl Blika í körfu, Sigurgeir Halldórsson sem vinnur hjá Icelandair Cargo, Hannes Friðbjarnarson tónlistarmaður og SpáBliki leiksins gegn KA.

Dagskrá

Flautað verður til leiks kl. 14:00 á sunnudaginn!

Miðasala hér: https://stubbur.app

Blikar ætla að fjölmenna á leikinn fyrir norðan. Það verður rúta frá Smáranum sunnudaginn 11.september. Lagt af stað kl.08:00 og áætluð koma AEY er kl.13:00. Leikurinn hefst kl.14:00. Lagt af stað heim frá Akureyri kl.16:30! Skráning í rútuferðina hér!

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

Sjáðu klippur frá 4:1 sigri okkar manna í fyrri leik liðanna á Kópavogsvelli í sumar:

Gefðu kost á þér í Blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum blikar.is

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum. Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir okkar eru:

www.blikar.is og www.blikar.is/kvk

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is hér og hér

image

Til baka