BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2023: Breiðablik - FH

01.09.2023 image

Breiðablik - FH

Eftir stórkostlegt kvöld á Kópavogsvelli í gærkvöld þegar Breiðabliksliðið tryggði sér sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu 2023/2024 er komið að undirbúningi síðasta leiks okkar manna í hefðbundnu 22 leikja móti í Bestu deild karla. Mótherjinn er lið FH frá Hafnarfirði. Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli kl.14:00 á sunnudaginn.

Miðasala á Stubbur: Stubbur

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Staðan í Bestu deildinni fyrir síðasta leik fyrir úrslitakeppnina. Breiðablik öruggt með þriðja sætið en FH þarf stig til að gulltrygga sæti sitt í efri hlutanum. 

image

Sagan & Tölfræði

Heildarfjöldi innbyrðis mótsleikja FH og Breiðabliks í A & B deild, bikar, deildabikar og litla bikarnum, eru 122 leikir. Blikasigrar eru 45 gegn 53 - jafnteflin eru 24.

Efsta deild

Leikir í A-deild eru 57. Blikasigrar eru 23 gegn 21 sigri FH - jafnteflin eru 13.

Í leikjunum 57 hafa liðin skorað 174 mörk - Blikar með 92 mörk gegn 82 mörkum FH-inga

Öflug markaskorn (23 mörk) í síðustu 5 leikjum í efstu deild á Kópavogsvelli:

Leikmannahópur

Í leikmannahópi gestanna eru tveir leikmenn sem hafa spilað í Breiðablikstreyjunni. Finnur Orri Margeirsson söðlaði um 2022 og gekk til liðs við Hafnarfjarðarliðið. Það gerði einnig Ólafur Guðmundsson í júlí glugganum 2021. 

Í okkar hópi eru það Kristinn Steindórsson sem hefur leikið með FH-ingum. Davíð Ingvarsson spilaði með yngri flokkum FH frá 2011 til 2014. 

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Valdimar Valdimarsson er markmannsþjálfari liðsins. Hann tók við því starfi af Ólafi Péturssyni. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Eyjólfur Héðinsson hefur verið ráðinn sem afreksþjálfari hjá elstu flokkum karla í Breiðabliki. Eyjólfur mun einnig vera í þjálfarateymi meistaraflokks karla, þar sem hann mun halda utan um aðlögun yngri leikmanna inn í meistaraflokkshópinn. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar.

image

Stuðningsmaðurinn

Spábliki 22 umferðar er fæddur árið 1998 og spilaði upp alla yngri flokkana hjá Breiðablik. Spáblikinn hóf að æfa knattspyrnu með Breiðablik árið 2002 og var ýmist í a eða b liði upp alla yngri flokkana . Hápunktur yngri flokka ferilsins var sigur á Rey cup árið 2014 í 3. flokki þar sem Breiðablik vann Derby County í frægum leik. Sælla minninga.

Pétur Andrésson - Hvernig  fer leikurinn?

Ég spái hörkuleik á sunnudaginn. FH eru særðir eftir tapið gegn KA í seinustu umferð og vilja klárlega enda venjulega tímabilið á jákvæðan hátt áður en úrslitakeppnin hefst. Það er búið að vera mikið álag á okkar leikmenn en ég spái samt sigri Breiðabliks á sunnudag, 2-1. Kristófer Ingi skorar aftur snemma leiks en Vuk Oskar jafnar í seinni hálfleik. Gísli Eyjólfs setur svo sigurmarkið seint í leiknum.

Áfram Breiðablik!

Pétur Andrésson

Spábliki umferðarinnar kemur úr mikilli Blika fjölskyldu en faðir hans er einn dyggasti stuðningsmaður Breiðabliks í gegnum tíðina, Andrés Pétursson.

Dagskrá

Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli á sunnudag kl.14:00! 

Völlurinn opnar kl.13:00, börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni. 

Miðasala á Stubbur: Stubbur

Stöð 2 Sport sýnir leikinn fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Samantekt frá Hleragrilli fyrir leik og mörk/atvik í heimsókn FH-inga á Kópavogsvöll 2022 í boði Blikar TV:

Til baka