BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deild karla. Úrslitakeppni 2022: Breiðablik - Stjarnan

27.09.2022 image

Grafík: Halldór Halldórsson

Í pistli dagsins ...

Tuttugasti og þriðji leikur okkar manna í Bestu karla 2022  > Venjulegu móti lokið > Úrslitakeppnin að hefjast > Blikar eru með 8 stiga forskot á toppnum > Stjörnumenn koma í heimsókn á Kópavogsvöll > Miðasala á Stubbur > Sagan: 66 mótsleikir > Blikahópurinn 2022 > Hildur Einarsdóttir er SpáBliki leiksins > Dagskráin fyrir leik > Gefðu kost á þér í blikar.is liðið!

Nokkrir punktar í lok venjulegs 22. leikja móts. 

image

Breiðablik skráði sig á spjöld sögunnar þegar sigur vannst á KR-ingum á Kópavogsvelli í lok júní. Leikurinn var 16. heima­sig­ur okkar manna í röð í efstu deild. Með sigrinum sló Blikaliðið met sem ÍBV hafði átt í 23 ár. Eyjamenn unnu 15 heimaleiki í röð á Hásteinsvelli á árunum 1997 til 1999 og hafa átt metið síðan, eða þar til Blikar jöfnuðu það í sigurleik gegn KA um miðjan júní.

Liðið skorar 55 mörk í 22 leikjum í deildinni annað árið í röð og bætir stigametið frá í fyrra um 4 stig - endar með 51 stig og er með 8 stiga forskot á næstu lið fyrir úrslitakeppnina í október og þar eru 15 stig í pottinum.

Félög sem hafa náð 50+ stigum í 22 leikjum frá 2008 eru: KR 2013, 2019 og Stjarnan 2014 52 stig. FH 2009 og Breiðablik 2022 51 stig. Valur 2017 50 stig. 

Blikar eru taplausir á heimavelli í efstu deild í 21 heimaleik í röð með markatöluna 66:10. Blikaliðið vann alla sína heimaleiki í fyrra, nema fyrsta leik, með markatöluna 32:1 og eru taplausir í efstu deild í ár með markatöluna 34:9.

Alls hefur Blikaliðið skorað 98 mörk í 42 mótsleikjum, heima og heiman, á árinu 2022. 

Þrir leikmenn eru með yfir 90% spilaðar mínútur í deildinni: Anton Ari Einarsson 22 leikir 100% mínútur. Höskuldur Gunnlaugsson 22 leikir 99% mínútur 5 mörk. Viktor Örn Margeirsson 20 leikir 91% mínútur 1 mark.

Ítarlegt yfirlit ársins 2022 hér. 

ÚRSLITAKEPPNIN 2022

Fyrsti leikur Blikamanna í úrslitakeppninni er gegn Stjörnumönnum á Kópavogsvelli, mánudaginn 3. október. Flautað verður til leiks kl.19:15!

Græna stofan opnar tímanlega, börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni. 

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Kópacabana menn mæta fylktu liði á leikinn og ætla að tendra bálköst í hjörtum leikmanna, eins og þeim einum er lagið, og fá stúkuna með í stuðið!

Staðan eftir 22 umferðir - Blikar með 8 stiga forskot á toppnum og 20 stiga forskot á Stjörnuna:

image

Sagan & tölfræði

Keppnisleikir Breiðabliks og Stjörnunnar í öllum mótum frá fyrsta leik árið 1970 eru 66. Breiðablik hefur unnið 29 sinnum gegn 26 sigrum Stjörnunnar. Jafntefli eru 11.

Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild, fyrst árið 1991, eru 35 leikir. Staðan er Blikamönnum í vil með 17 sigra gegn 10 sigrum Stjörnumanna. Jafnteflin eru 8.  

Önnur mót 2022. Stjarnan hefur yfirhöndina í innbyrðis leikjum liðanna á þessu ári. Allir miklir markaleikir - liðin skora 21 mark í leikjunum: Í lok janúar 2022 tapa Blikar fyrir Störnunni 3:1 í Garðabæ í úrslitaleik Fótbolta.net mótsins. Í byrjun mars eru Blikar aftur mættir í Garðabæinn í 1. umferð Lengjubikarsins. Stjarnan vinnur þann leik 4:1.

Og í deildinni var ekki síður skorað - fimm mörk í fyrri leiknum á Kópavogsvelli og sjö mörk í seinni leiknum í Garðabæ. 

"Steinn yfir steini

5-2 var niðurstaðan og þessi mörk eru fjórðungur allra marka sem við höfum fengið á okkur í sumar. Við höfum fengið á okkur 20 mörk en allt sumarið í fyrra voru þau 21."

"Eltingarleikur í afmæli

Sigur í höfn. Fullt hús stiga eftir fimm umferðir. Það gerist ekki betra. Liðið sýndi frábæra takta í fyrri hálfleik. Þá var í raun bara eitt lið á vellinum. Það var því alveg óþarfi að slaka á klónni og hleypa gestunum inn í leikinn í þeim síðari."

Blikahópurinn 2022

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. 

Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. 

Ólafur Pétursson er markmannsþjálfari liðsins. Ólafur hefur starfað sem markmannsþjálfari hjá Breiðabliki frá árinu 2005. 

Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. 

Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu.

Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar meistaraflokks karla

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 23. umferðar er 37 ára þriggja barna móðir fædd og uppalin á æfinga og keppnissvæði Breiðabliks. Pabbi minn, Einar Egilsson er mikill bliki sem mætir á alla leiki ásamt því að vera virkur í umsjónarmannastarfinu með eldri bróður minn. Ég á honum að þakka að hafa byrjað í fótbolta, enda hvatti hann mig til að mæta á mína fyrstu æfingu á Kársnesi um 6 ára aldur. Eftir þá æfingu var ekki aftur snúið og lífið fór að snúast um fótbolta. Móðir mín Ester Ásbjörnsdóttir tók svo að sér umsjónarmannastarfið í mínum flokki og fylgdi okkur meðal annars til Englands í keppnisferð í 3.fl kvk. Í dag er ég svo umsjónarmaður hjá báðum drengjunum mínum og má því segja að umsjónarmannastarfið sé mögulega ættgengt.

SpáBlikinn spilaði upp yngri flokka Breiðabliks. Ég var með frábæra þjálfara og liðsfélaga mér við hlið og spilaði svo minn fyrsta alvöru meistaraflokks leik árið 2001 sem endaði í 40 leikjum í heild, 15 mörkum og einum íslandsmeistaratitli árið 2001. Lagði þá skóna frægu á hilluna og fór að búa til litla Blika sem allir spila í grænu treyjunni í dag.

Ég á Breiðabliki margt að þakka, eignaðist mínar bestu vinkonur þar, kynntist manninum mínum Gunnleifi Gunnleifssyni á æfingu á Vallargerðisvelli og vann með honum á íþróttavöllum Kópavogs nokkur sumur, ásamt því að starfsfólk Fífunnar hefur tekið stóran þátt í að ala upp börnin okkar. Blikahjartað er því stórt og mun slá um ókomna tíð.

Hildur Einarsdóttir – Hvernig fer leikurinn?

Það er mikill heiður að fá að vera SpáBliki væntanlegs leiks okkar við Stjörnuna í upphafi fyrstu úrslitakeppni Bestu deildarinnar. Leikir Breiðabliks og Stjörnunnar hafa alltaf sérstakann sjarma, enda nágrannaslagur af bestu gerð.

Varðandi úrslit leiksins þá er enginn vafi á því að við munum vinna leikinn örugglega. Það er einfaldlega einhver sérstök stemmning í kringum okkar menn þetta sumarið. Það er enginn að fara að stoppa okkur á vegferðinni að titlinum, það er bara þannig!

Spáin mín er því 3-1 sigur.

Áfram Breiðablik!

image

Hildur Einarsdóttir SpáBliki leiksins. Samsett mynd: Hildur er lengst til hægri í femri röð á hópmynd og með eiginmanninum Gunnleifi Gunnleifssyni.

Íslandsmeistarar 2001

Aftari röð f.v.: Sigrún Óttarsdóttir, Heiðrún Hansdóttir liðsstjóri, Sigurbjörg Rós Hjörleifsdóttir, Jörundur Áki Sveinsson þjálfari, Vilfríður F. Sæþórsdóttir, Dúfa Dröfn Ásbjörnsdóttir, Guðbjörn Þór Ævarsson formaður meistaraflokksráðs, Erna Björk Sigurðardóttir, Björg Ásta Þórðardóttir, Kristján Ragnarsson sjúkraþjáfari, Laufey Ólafsdóttir, Sandra Karlsdóttir, Sophus Klein Jóhannson liðsstjóri, Bryndís Bjarnadóttir, Hólmfríður Ósk Samúelsdóttir, Harpa S. Steingrímsdóttir, og Ásdís Marion Gísladóttir liðsstjóri. Fremri röð f.v.: Bjarnveig Birgisdóttir, Margrét Ákadóttir, Hjördís Þorsteinsdóttir, Anna Þorsteinsdóttir, Sigrún Aðalheiður Gunnarsdóttir og Hildur Einarsdóttir. Mynd: Íslensk knattspyrna

Dagskrá

Græna stofan opnar tímanlega, börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni. 

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Flautað verður til leiks kl.19:15!

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Kópacabana menn mæta fylktu liði á leikinn og ætla að tendra bálköst í hjörtum leikmanna, eins og þeim einum er lagið, og fá stúkuna með í stuðið!

Áfram Breiðablik, alltaf - alls staðar!

Klippur frá leik liðanna á Kópavogsvelli 11. maí - í boði BlikarTV: 

Gefðu kost á þér í Blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum blikar.is

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum. Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir eru:

www.blikar.is og www.blikar.is/kvk

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is hér og hér

image

Til baka