BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deild karla 2025 - Efri hluti: Breiðablik - Fram

03.10.2025 image

Stuðningur og frítt á leikinn

Tryggingafélagið Vörður býður öllum sem mæta í grænu frítt á leikinn gegn Fram á sunnudaginn. Þetta er frábært tækifæri fyrir stuðningsfólk Breiðabliks að fylla stúkuna og styðja liðið í baráttunni um Evrópusæti. Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli kl.19:15.

Frítt er á lekinní í borði Varðar fyrir þá sem mæta í grænu. Annars er miðasala á leikinn á Stubb

Baráttan um Evrópu

Ef Breiðablik vinnur leikinn gegn Fram er liðið komið í stöðu til að keppa um 3. sætið í efri hluta Bestu deildarinnar. Það sæti veitir þátttökurétt í UEFA keppnum á næsta ári - sem yrði í áttunda skipti í röð af 16 mögulegum frá því liðið hóf þátttöku í Evrópukeppnum árið 2010. Evrópuleikirnir eru orðnir 55 gegn 27 félagsliðum frá 22 löndum.

Staðan í efri hlutanum fyrir leiki helgarinnar. 

image

Árið 2001, fyrsta heila ár nýrrar aldar, markaði ákveðin kaflaskil í sögu Breiðabliks

Í umræðunni núna er gjarnan vísað aftur til þess árs til að finna sambærilega röð leikja meistaraflokks karla án sigurs. Þó að röðin árið 2025 sé orðin óþægilega löng — átta leikir án sigurs — var þrautargangan árið 2001 enn erfiðari: tíu leikir í röð án sigurs, þar af níu töp frá lok maí fram í byrjun ágúst. Liðið endaði mótið með aðeins 14 stig og markatöluna -15, og féll í næst efstu deild. Valsmenn ströggluðu einnig á þessum tíma og enduðu einu sæti ofar með 19 stig.

Breiðablik kvaddi Símadeildina 2001 með 2:1 sigri á Val í lokaumferðinni  - síðasta skipti sem Breiðabliksliðið féll milli deilda. Eftir fallið hófst fjögurra ára uppbygging sem skilaði sér með glæsibrag árið 2005. Þá vann Breiðablik 1. deildina með yfirburðum: 44 stig, 13 sigrar, 5 jafntefli og ekkert tap. Víkingsliðið endaði í 2. sæti með 37 stig og markatöluna 41:9 - skoruðu flest mörkin og fengu á sig fæst.

Karlalið Breiðabliks er nú að spila í efstu deild 20. árið í röð - í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Félagið hóf knattspyrnuiðkun árið 1957 og spilaði fyrst á efsta stigi árið 1971. Frá 1973 til 2001 féllu Blikar sjö sinnum milli efstu og næst efstu deildar, en síðan þá hefur liðið haldið sér stöðugt í efstu deild.

Til fróðleiks má nefna samfellda veru sex þeirra sex félaga sem eru í efri hlutanum: FH frá 2001 - Valur frá 2005 - Breiðablik frá 2006 - Stjarnan frá 2009 - Víkingur R. frá 2014 - Fram frá 2019

image

Breiðabliksliðið sem fór taplaust í gegnum 2005 tímabilið og vann sig upp um deild.

Meistaraflokkur 2005 - Sigurvegarar í 1. deild

Efsta röð frá vinstri: Örn Örlygsson liðsstjóri, Jón Magnússon liðsstjóri, Pétur Benediktsson meistaraflokksráði, Jón Júlíusson meistaraflokksráði, Ólafur Björnsson formaður meistaraflokksráðs.

Miðröð frá vinstri: Steini Þorvaldsson formaður knattspyrnudeildar, Bjarni Jóhannsson þjálfari, Guðmann Þórisson, Pétur Magnús Birgisson, Olgeir Sigurgeirsson, Ragnar Heimir Gunnarsson, Hjalti Kristjánsson, Gunnar Örn Jónsson, Þór Steinar Ólafs, Birgir Hrafn Birgisson, Guðmundur Pétur Ólafsson, Arnar Bill Gunnarsson aðstoðarþjálfari.

Neðsta röð frá vinstri: Petr Podzemsky, Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Ellert Hreinsson, Kristján Óli Sigurðsson, Þorsteinn Einarsson, Hjörvar Hafliðason, Árni Kristinn Gunnarsson, Kári Ársælsson, Steinþór Freyr Þorsteinsson, Ágúst Þór Ágústsson.

Sagan & Tölfræði

Mótsleikir Fram og Breiðabliks í öllum keppnum frá fyrsta leik árið 1961 eru 78. Fram leiðir með 35 sigra gegn 24 - jafnteflin eru 19.

Efsta deild

Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild frá upphafi (1971) eru 60. Vinningshlutfallið fellur með Fram með 27 sigra gegn 16 - jafnteflin eru 17. 

Efsta deild frá 2006

Hlutfallið er jafnt frá endurkomu Breiðabliks upp í efstu deild árið 2006. Innbyrðis leikir liðanna í efstu síðan þá eru 23. Bæði lið með 8 sigra - jafnteflin eru 7.

í 12 leikjum frá 2006 hafa Blikar yfirhöndina á Kópavogsvelli með 5 sigra gegn 2 - jafnteflin eru 5

Síðustu 4 heimaleikir okkar á Kópavogsvelli gegn Fram í efstu deild. Leikurinn á sunnudaginn verður fyrsti leikur liðanna í lokakeppni Bestu deildar karla:

Leikmannahópurinn

 Alex Freyr Elísson er nú aftur leikmaður Fram eftr ársdöl í Kópavoginum 2023. Í júlí glugganum 2025 kom Guðmundur Magnússon frá Fram kom til okkar Blika sem lánsmaður. 

image

Leikmannahópur Breiðabliks

Breiðabliksteymið: Halldór Árnason er aðalþjálfari Breiðabliksliðsins. Aðstoðarþjálfari er Arnór Sveinn Aðalsteinsson. Eiður Eiríksson er transition þjálfari. Stryrktarþjálfari er Helgi Guðfinnsson. Haraldur Björnsson er markmannsþjálfari liðsins. Sjúkraþjálfari er Særún Jónsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Kristinn Orri Erlendsson er nuddari liðsins. Liðsstjórar eru Brynjar Dagur Sighvatsson og Dagur Elís Gíslason.

​​​​​​​Stuðningsmaðurinn

SpáBliki leiksins gegn Fram er uppalinn breiðhyltingur sem flutti í Kópavoginn 2006 og byrjaði að halda með Breiðablik fljótlega eftir það. Ég man lauslega eftir að hafa klappað yfir sjónvarpinu þegar við urðum Íslandsmeistarar 2010. Ég var svona að fatta það þá að maður gæti loksins haldið með liði sem væri mögulega að vinna einhverja bikara. Það hafði ekki farið mikið fyrir því hjá ÍR.

Þegar sonurinn byrjaði að stunda fótbolta  með Breiðablik 4 ára, árið 2012 var ekki aftur snúið og maður fór að kaupa sér grænar treyjur, trefla, húfur og annað til að vera klár á fótboltamótin. Dóttirin byrjaði svo í fótbolta 2015, einnig 4 ára. Fljótlega eftir það var ég svo plataður í vinnu á Símamótinu þar sem ég bar ábyrgð á öryggismálum og árið eftir var ég kominn og  í barna og unglingaráð. Ég er búinn að vera þar í 8 ár og síðustu tvö árin sem formaður BUR og stjórnarmaður í KND Breiðabliks.

Börnin eru núna í 2. og 3.flokk og lífið hefur því snúist um fótbolta með Breiðablik í mjög mörg ár sem er líka alveg frábært. Mér finnst gríðalega gaman að vinna fyrir félagið og er þetta eiginlega orðið að áhugamáli mínu. Iðkendur, foreldrar, starfsmenn og stuðningsmenn félagasins eru á stærð við bæjarfélag úti á landi og það er ekki hægt annað en að taka þátt þegar maður býr í Kópavogi. Mynd: Hópmyndin tekin þegar 4.fl kvk var boðið á East Girls Cup á Mallorca í október 2024. Þetta er s.s mynd af foreldra hópnum sem fylgdi með í ferðinni.

Hlynur Höskuldsson – hvernig fer leikurinn?

Ég hef fulla trú á að við vinnum þennan leik 2-0. Damir skorar eitt með neglu fyrir utan og Ágúst Orri setur hitt. Þetta verður leikur sem maður verður ekkert stressaður yfir. Þetta verður alltaf öruggt. Við munum svo vinna alla leiki sem eftir verða í deildinni, ekki nokkur vafi hjá mér með það. Fulla ferð og áfram Breiðablik.

SpáBliki leiksins Hlynur Höskuldsson formaður BUR og stjórnarmaður í KND Breiðabliks

Dagskrá

Flautað til leiks á Kópavogsvelli kl.19:15 á sunnudaginn.

Frítt er á lekinní í borði Varðar fyrir þá sem mæta í grænu. Annars er miðasala á leikinn á Stubb

Mætum í stúkuna á Kópavogsvelli og hvetjum okkar menn til sigurs.

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

/PÓÁ

Vörður býður stuðningsfólki Breiðabliks á völlinn!

Kvennalið Breiðabliks mætir Víking á Kópavogsvelli - Föstudaginn 3. október kl. 18:00

Karlalið Breiðabliks mætir Fram á Kópavogsvelli - Sunnudaginn 5. október kl. 19:15

Eina sem þú þarft að gera er að mæta í grænu.

Bæjarins Beztu verða á staðnum til að sjá til þess að allir séu vel nærðir og við lofum frábærri stemningu á vellinum!

Til baka