BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Batamerki í skyldusigri

16.08.2016

Blikar mættu botnliði Þróttar í 15.umferð PEPSI deildarinnar í kvöld. 15 stig skildu liðin fyrir leikinn og var það a.m.k 3 stigum of lítið frá okkar sjónarhóli en Blikar töpuðu fyrri leiik liðanna eins og mönnum var enn í fersku minni í morgun þegar þeir fóru í inniskóna og slöfruðu í sig morgungrautinn. Okkar menn fóru illa að ráði sínu í síðasta leik og áttu skuld að gjalda sjálfum sér og stuðningsmönnumm. Lágmarkskrafa dagsins hljóðaði því upp á sigur.
Tryggingafélagið Vörður bauð upp á pylsur og hoppkastala fyrir leik og eitthvað á annað þúsund pylsur runnu ofaní mannskapinn með tilheyrandi meðlæti og ropvatni. Vel gert. Veður var prýðilegt og mun betra en spár gerðu ráð fyrir. Hrein og tær sunanátt með bjartviðri og stinningskalda framan af en hægari þegar á leið. Hiti 16°C  í forsælu. Völlurinn í toppstandi. Viktor Örn kom inn í byrjunarlið í stað Damirs sem var í skammarkróknum eftir rauða spjaldið í leiknum sem við tölum aldrei um aftur. Aldrei.

Byrjunarlið Blika:
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M)(F)
Alfons Samsted - Viktor Örn Margeirsson - Elfar Freyr Helgason - Davíð Kristján Ólafsson - Andri Rafn Yeoman - Oliver Sigurjónsson - Gísli Eyjólfsson - Arnþór Ari Atlason - Daniel Bamberg - Árni Vilhjálmsson
Varamenn:
Kári Ársælsson - Hlynur Örn Hlöðversson(M) - Jonathan R. Glenn - Atli Sigurjónsson - Agúst E, Hlynsson - Ellert Hreinsson - Höskuldur Gunnlaugsson.

Sjúkralisti: Guðmundur Atli Steinþórsson, Arnór Aðalsteinsson
Leikbann: Damir Muminovic

Blikar biðu ekki boðanna í kvöld heldur létu hendur standa fram úr ermum frá byrjun. Pressuðu gestina nokkuð hátt uppi og nógu vel til þess að það var heldur fátt að frétta af spili þeirra röndóttu megnið af fyrri hálfleik. Og þeir áhorfendur sem aftastir voru í pylsunum voru varla nema nýsestir þegar boltinn lá í marki gestanna. Það var strax eftir 5 mínútur. Eftir nokkra pressu og tilraunir Blika til að setja gat á varnarlínu gestanna barst boltinn til Árna sem var rétt utan vítateigs gestanna og hann tók boltann og lagði hann í rólegheitum á hægri fótinn og smellti svo boltanum í bláhornið niðri með þéttingsfastri innanfótarspyrnu. Laglega gert og sýnir að það þarf ekki alltaf að gera hlutina með látum. Yfirvegun er líka góð. 1-0 fyrir Blika og ekki óx sjálfstraust gestanna við þetta. Blikar héldu áfram að hamra járnið og komu sér í fínar stöður til að bæta við marki næsta korterið en það gekk lítið. Andri fékk úrvalsfæri en reyndi sendingu í stað þess að skjóta. Þar fór gott færi. Árni skoraði flott mark, en var dæmdur rangstæður og Blika vantaði enn herslumuninn til að auka við forskotið. En á 25. mínútu dró til tíðinda. Þá geystist Gísli í framhjá leikmönnum gestanna og nálgaðist vítateiginn þegar Viktor Unnar, okkar gamli félagi sem nú leikur með Þrótti, brá á það ráð að krækja í hann og skella honum flötum og uppskar gult sjald. Og hann hefði kannski betur sleppt því að skella Gísla því úr aukaspyrnunni skoruðu Blikar, eða nánar til tekið Oliver, mark af dýrari gerðinni. Þrumaði boltanum lóðbeint upp í samskeytin af rúmlega 20 metra færi. Glæsilegt mark. Blikar komnir í 2-0 og nú vonaði maður að okkar menn létu kné fylgja kviði. En það gekk ekki eftir og okka rmenn fóru herfilega að ráði sínu þegar þeir fengu dauðafæri upp í hendurnar þegar leikmaður gestanna datt beint á rassinn þegar hann ætlaði að fara í boltann.  Skyndilega voru Arnþór og Árni tveir á móti markmanni og í stað þess að klára þetta og setja 3ja markið á gestina, og loka þar með leiknum, þá skaut sá fyrrnefndi á markið en skotið var slakt og auðveldlega varið. Það voru fáir ánægðir með þetta og enn má setja stórt spurningamerki við ákvarðanatöku Blika á síðasta þriðjungi vallarins. Þetta er reyndar með grófara klúðri sem maður hefur séð í sumar hjá okkar mönnum.  Ég segi nú einsog þjálfari í PEPSI sagði um daginn í viðtali eftir að leikmaður hans fór illa að ráði sínu;  „Þú vilt ekki einu sinni vita hvað ég myndi gera ef við værum í Serbíu. Því miður erum við ekki þar, eða sem betur fer fyrir hann“. Svo mörg voru þau orð.  Skömmu fyrir leihlé átti Árni svo lagleg tilþrif, eftir góða sendingu Gísla sem var snöggur að hugsa þegar Blikar fengu aukaspyrnu, en markvörður gestanna sá við honum. Síðasta færi hálfleiksins fengu hinsvegar gestirnir og með smá heppni hefðu þeir getað skorað, en laus skalli eftir hornspyrnu endaði í fangi Gunnleifs. Það var eins gott því Blikar áttu eiginlega ekki skilið að fá á sig mark þó þeir hefðu gefið færi á sér þarna. Til þess var munurinn á liðunum of mikill.  En stundum er nú bara ekki spurt að því.
Blikar með 2-0 í hálfleik.  7. flokkur karla var heiðraður í hálfleik. Flottir strákar sem eru búnir að spila og æfa  frá morgni til kvölds í allt sumar. Þeir vita sem er að það er ekki æfingin sem skapar meistarann, heldur aukaæfingin.
Í hálleikskaffinu voru menn glaðir með 2-0 en fúlir í bland með að hafa ekki sett fleiri mörk. Þróttarliðið enn slakara en Fylkisliði að mati flestra. Nokkrir voru að velta því fyrir sér hvernig í veröldinni við fórum að því að tapa fyrir þessu liði í fyrri umferðinni. Mál fyrir X-files.

Gestirnir voru sýnu hressari í síðari hálfleik en komust þó hvorki lönd né strönd. Fengu nokkar hornspyrnurog voru stundum full nálægt marki Blika fyrir minn smekk en allt kom fyrir ekki og Blikar réðu ágætlega við þá. Blikar fengu sannkallað dauðafæri þegar Árni fékk boltann við vítaigshornið vinstra megin en hann lét verja frá sér. Og Árni fékk annað færi um miðbik hálfleiksins en þá hitti hann ekki boltann í upplögðu færi. Skömmu síðar kom Höskuldur inn fyrir Bamberg. 2-0 staða býður alltaf upp á dramatík og taugaspennu og blóðið fraus í æðum Blika í stúkunni þegar gestirnir fengu skyndilega dauðafæri. Tveir Þróttarar aleinir á markteig en arfaslakur skalli beint í fangið á Gulla. Þetta hefði hæglega getað hleypt leiknum upp og orðið vesen.
Þess ber að geta að þegar þarna var komið sögu hefðu gestirnir átt að vera búnir að missa a.m.k. einn mann af velli, ef ekki tvo. Það er ráðgáta hvernig þeir hengu inná. Aftur og aftur voru okkar menn ýmist sparkaðir niður aftanfrá eða togaðir niður, og menn á gulu spjaldi komust upp með þetta ítrekað. Samræmið ekkert á milli leikja, að ekki sé nú talað um dómara. Svo verða þeir alveg brjálaðir þegar menn láta í sér heyra á bekknum. Þá virka skyndilega öll skilningarvit allra dómaranna og þeir hvessa sig. En síbrotamennirnir sleppa. Hvernig væri að dæma bara með augunum en ekki eyrunum? Er það til of mikils mælst?
Blikar gerðu tvær breytingar til viðbótar. Atli og Glenn komu inn fyrir Gísla og Árna. Síðustu tíu mínúturnar bar hinsvegar fátt til tíðinda og Blikar héldu fengnum hlut án teljandi erfiðleika.
Þessi 3 stig eru vel þegin eftir rýra uppskeru undanfarið. Blikar léku ágætlega í kvöld og unnu verðskuldaðan sigur sem hefði mátt vera stærri. Það þarf að bæta færanýtingu og koma fleiri skotum á markið. Þau voru ekki mörg í kvöld. 5 skot voru talin á rammann. 2 fóru í markið en 3 voru varin. 2 þeirra úr dauðafærum. Við getum og verðum að gera betur.

Næsti leikur okkar manna er gegn KR næsta sunnudag kl. 18:00. Það verður eitthvað.
Fjölmennum í Frostaskjólið og sækjum 3 stig.

En fyrst er það Breiðablik OPEN golfmótið á föstudaginn.

Áfram Breiðablik!
OWK.

Sjáðu mörkin.

Umfjallanir annarra netmiðla

Til baka