BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Þar sem lundinn er ljúfastur fugla

16.09.2025 image

ÞAR SEM LUNDINN ER LJÚFASTUR FUGLA

„Nú verða léttleikandi Blikar að standa sig. Þú verður að hafa Fram-trefilinn með,“ sagði ónefndur bláklæddur útgáfustjóri með von í brjósti þegar hann kvaddi tíðindamann Blikar.is í lok vinnudags þann 15. september. Eftir tæpar tvær klukkustundir átti að hefjast leikur Breiðabliks og ÍBV í lokaumferð Bestu deildarinnar áður en hún skiptist í efri og neðri hluta. Ekki var hvatningin sprottin af mannkærleikanum einum saman. Færu Eyjamenn með sigur af hólmi þýddi það sæti í efri hluta úrslitakeppninnar á kostnað Fram.

Í ljósi þess hvernig Úlfarsárpiltar hafa verið við Blika í sumar hefðu óvandaðri menn en sá er hér strýkur lyklaborð vitnað í Sjálfstætt fólk þar sem segir: „Við verðum að standa saman bændurnir, sagði [Jón hreppstjóri]. Hann sem alla tíð hafði staðið sér, nú stóð hann altíeinu saman.“

Blikar þurftu aftur á móti sárlega á sigri að halda í baráttunni á toppnum. Það var því mikið undir í Smáranum.

Erfiðar aðstæður fyrir Eyjamenn

Lið okkar manna var nokkuð breytt frá leiknum uppi á Skaga.  Arnór Gauti, Tobias og Kristinn Jónsson byrjuðu allir á bekkinn og Viktor Örn var löglega afsakaður uppi á fæðingardeild. Í staðinn komu Kristófer Ingi, Viktor Karl, Ásgeir Helgi og Ágúst Orri. Aðrir sem hófu leikinn voru Anton Ari, Höskuldur, Óli Valur, Kristinn Steindórsson, Valgeir, Davíð og Damir.

Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru með besta móti, logn og skýjað og milt haustveður. Fyrirfram hefði mátt ætla að þetta væri framandi umhverfi fyrir Eyjapeyja sem eru vanari því að leika í að minnsta kosti þrettán vindstigum á sekúndu.

Peyjarnir voru enda nokkra stund að átta sig á því hvernig ætti að sækja í logni. Það var einstefna að marki gestanna. Svo mikil reyndar að sessunauturinn á vinstri hlið dæsti á tólftu mínútu: „Bara að við fáum ekki mark í andlitið.“ Meira um það síðar. Höskuldur þrumaði á markið en það var varið í horn. „Nú væri ég til í að fara að fá mark,“ tautaði sessunauturinn á hina hliðina eftir átján mínútur. Skömmu síðar átti Óli Valur gott skot sem var varið. „Guð láti á gott vita,“ hélt sá vísi maður áfram. Ljósmyndararnir virtust vera á sama máli því að þeir höfðu allir stillt sér upp bak við mark Eyjamanna.

Frægur vinstri fótur

Það var með öðrum orðum ekkert sem benti til þess að nein ógn steðjaði að Breiðabliksliðinu. En ef lífið hefur kennt Eyjamönnum eitthvað þá er það að sýna æðruleysi í öllum aðstæðum. Svo sem kunnugt er gerðu Alsíringar árás á Vestmannaeyjar forðum daga undir stjórn hollensks sjóliðsforingja (en Tyrkjum kennt um) og námu um helming íbúa á brott. Þar hafa verið framin ýmis óhæfuverk á síðari tímum, þótt aðallega hafi það verið í glæpasögum Yrsu Sigurðardóttur. Vestmannaeyingar hafa barist við náttúruöflin, sótt sjóinn í alls konar veðrum, búið við endalaust rok á Stórhöfða, fengið yfir sig eldgos um miðja nótt osfrv. Viðbröðin við því voru reyndar einstaklega yfirveguð. Sem dæmi má nefna að þrettán ára piltur sagði þegar hann horfði á eldtungurnar með föður sínum: „Þau hljóta allavega að fresta dönskuprófinu á morgun.“

Þess má reyndar geta að um aldarþriðjungi síðar hélt þessi sami piltur ræðu í ráðhúsinu í Liege og sagði frá því þegar liðið hans í Eyjum missti þjálfarann sinn um mitt sumar 1973 því að hann hafði gengið til liðs við belgíska stórliðið Standard Liege, Ásgeir Sigurvinsson að nafni. Fór þá kliður um salinn. Sá eitraði vinstri fótur var borgarbúum greinilega enn ofarlega í minni eftir öll þessi ár.

Frægur biðill, borgari og SMS

Nema hvað. Eyjamenn mættu sóknarlotum Blika af miklu æðruleysi, eins og hverju öðru fárviðri á Stórhöfða, og biðu þess sem verða vildi. Og á 26. mínútu voru þeir loksins orðnir vanir áttleysunni og brunuðu upp í sína einu sókn í fyrri hálfleik, skutu fyrst í stöng, síðan varði Anton Ari þrumuskot en í þriðju tilraun lá boltinn í netinu. Staðan orðin 0-1 og óhætt að segja að þögn hafi slegið á stúkuna.

Eftir ríflega hálftíma leik þurfti Davíð að fara meiddur af velli og Kristinn Jóns kom í staðinn.

Í hálfleik var þungt yfir mönnum. Biðillinn úr Bændablaðinu, sem verður ekki nafngreindur hér, sagði að þetta myndi ráðast á fyrstu tíu mínútunum í seinni hálfleik en var ekki bjartsýnn. Sessunauturinn sem ákallað hafði Guð taldi aftur á móti að það yrði algjör vendipunktur ef hann fengi sér borgara. Í sama bili barst SMS í Smárann frá bláklædda útgáfustjóranum: „Hvaða aumingjaskapur er þetta?“

Ljúfastur fugla

Blikar sóttu áfram í seinni hálfleik en varð lítið ágengt. Allir réttsýnir menn töldu dómarann hafa sleppt augljósu víti þegar varnarmaður gestanna handlék knöttinn allrækilega innan teigs. „Keyra upp hraðann!“ hrópaði sessunauturinn þegar 54 mínútur voru á klukkunni (og búinn að kyngja borgaranum með þessum orðum úr Pulp Fiction: „This is a tasty burger“) og fimm mínútum síðar mátti heyra: „rífið ykkur í gang!“ Það var með öðrum orðum mikill ákafi í áhorfendum. Á sextugustu mínútu átti Kristófer hörkuskalla að marki eftir hornspyrnu en markmaðurinn varði með ævintýralegum hætti. Má jafnvel ætla að Eyjamenn í stúkunni hafi hummað af því tilefni „undurfagra ævintýr“.

Nokkrum mínútum síðar gerði Halldór tvöfalda skiptingu. Tobias og Arnór Gauti komu inn fyrir Viktor Karl og Óla Val. Enn sóttu Blikar. Valgeir átti þrumuskot í varnarmann. Tobias skallaði framhjá. „Ég get ekki horft á þetta,“ dæsti ungur piltur vinstra megin við tíðindamanninn. Aftur átti Tobias kollspyrnu að marki en nú fór boltinn yfir. Sá danski var greinilega mættur til leiks. Meira um það örlítið síðar því að nú gerðist tvennt. Guðmundur Magnússon kom inn fyrir Kristófer Inga og tíðindamaðurinn fékk skeyti frá miklum KA-manni: „Hvað er í gangi í Kópavogi?“ Ekki gafst tími til að svara í öllu atinu á vellinum. Í stúkunni mátti heyra hvern manninn á fætur öðrum ákalla frelsarann („Jesús minn!“ var vinsæl upphrópun).

En aftur að Tobiasi Thomsen sem sannarlega var mættur til leiks. Kristinn Jónsson æddi upp vinstri kantinn og lyfti boltanum fallega inn á teiginn þar sem Daninn sveif um loftin blá eins og lundi (sem er ljúfastur fugla) og skallaði glæsilega í hornið fjær. 1-1.

Gefi nú góðan byr

Nú vöknuðu gestirnir til lífsins. Þeir voru skyndilega komnir í skammarkrók úrslitakeppninnar. Bæði lið kepptust við að sækja, bæði lið þurftu á sigri að halda en Eyjamenn áttu hættulegasta færið á lokamínútunum, þrumuskot sem stefndi í hornið niðri en Anton Ari varði stórkostlega í horn.

Þar með lauk þessum mikilvæga leik með jafntefli – og þannig gerðu léttleikandi Blikar Frömmurum mikinn greiða af sínum mannkærleika og algjörlega umfram skyldu. Nú er líka komið að þeim að launa greiðann. Á sunnudaginn fara þeir í Víkina –  væntanlega með Blikatrefil um hálsinn.

Það verður á brattann að sækja fyrir okkar menn að ná Evrópusæti  – hvað þá að verja titilinn.  En það vinnur enginn skák með því að gefa hana, eins og maðurinn sagði. Fyrsti leikurinn í efri hlutanum verður á mánudaginn á Hlíðarenda á móti Val. Því prófi verður ekki frestað og þangað skulum við fjölmenna og styðja Blika til sigurs. Eða eins og Ási í Bæ orti: „Gefi nú góðan byr / og glannaleg síldarköst!“

PMÓ

Til baka