BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Áfram í Evrópu!

28.07.2022 image

Þrátt fyrir að tapa 2:1 fyrir Buducnost í seinni leik liðanna í forkeppni Sambandsdeildar í Evrópu eru strákarnir okkar komnir áfram í keppninni. Mörkin tvö sem við settum á Svartfellinga undir lok leiksins í Kópavogi voru svo sannarlega að skila sér. Andstæðingur okkar í næstu umferð er tyrkneska liðið Istanbul Basaksehir og mæta Tyrkirnir í Kópavoginn næst komandi fimmtudag.

Byrjunarliðið:

image

Hitinn var í kringum 30 gráður í upphafi leiks og fljótlega sást að þetta sólarstrandar hitastig átti ekki alveg vel við okkar drengi. Einnig var grasvöllurinn loðinn og lélegur og áttum við í erfiðleikum að ná upp okkar fljótandi hraða spili. Ansi oft misstu okkar strákar boltann frá sér og náðu ekki að nýta sér ágæta stöðu á vellinum. En við byrjuðum samt fyrri hálfleikinn ágætlega. Einkum var Dagur Dan frískur og ógnaði vel með hraða sínum og krafti. Eftir góðan samleik fékk Ísak Snær þröngt færi en markmaður heimamanna lokaði vel. Á 32. mínútu fékk Kristinn Steindórsson óvænt skallafæri en náði því miður ekki að koma knettinum í markið.

En heimapiltar voru heilt yfir sterkari í fyrri hálfleiknumog við virtumst missa trúna á að spila rólega út úr vörninni. Miðjumennirnir okkar voru í erfiðleikum og bökkuðu full mikið inn í vörnina. Heimamenn náðu síðan forystunni og var það ekki gegn gangi leiksins. En samt má segja að með smá meiri yfirvegun hefði vörnin getið komið í veg fyrir það mark.

Það var miklu meiri kraftur og yfirvegun yfir Blikaliðinu þegar það kom til leiks í síðari hálfleik. Greinilegt var að Óskar Hrafn hafði lesið vel yfir hausamótunum á liðinu. Það skilaði sér fljótlega í frábæru marki Ísaks Snæs. Eftir snilldarsendingu Viktors Karls skeiðaði sóknarmaðurinn snjalli inn fyrir vörnina og þrátt fyrir að tveir varnarmenn heimaliðsins héngu á honum eins og hundar á roði þá hélt hann þeim auðveldlega fyrir aftan sig og renndi knettinum í markið. Algjör snilld!

Héldu nú Blikar að eftirleikurinn yrði auðveldur en því miður greip um sig einhver værukærð og við hleyptum heimapiltum aftur inn í leikinn. Skömmu eftir markið átti besti maður Blikaliðsins Anton Ari til dæmis snilldarmarkvörslu eftir kollspyrnu sóknarmanns. Vörn Blika var í þessum leik ólík sjálfu sér í svona föstum leikatriðum. Við höfum oft séð meiri grimmd og betri dekkun en í þessum leik.

Blikar fengu reyndar nokkur ágæt tækifæri til að gera út um leikinn og átti Höskuldur meðal annars skot í stöng. En tikki-takka fótbolti Blika hentar ekki á gljúpum grasvelli og það var næstum þvi búið að koma okkur í koll. Á 86. mínútu bættu heimapiltar við marki úr föstu leikatriði þar sem engin varnarmaður Blika dekkaði skorarann. En sem betur héldum við þetta út og þrátt fyrir sex langar aukamínútur þá tryggðum við okkur áfram í keppninni með þessum úrslitum.

image

Öflugur stuðnings- og foreldrahópur fylgdi strákunum okkar út. Efri röð frá vinstri Svava og Ingvar (Davíð),  Fjóla og Sigurjón (Oliver). Neðri röð frá vinstri. Erik ( Andri ), Svanþór og Anna (Jason), Hanna og Einar (Anton Ari). 

Þrátt fyrir að Blikaliðið hafi oft spilað betur en í þessum leik þá verður að taka tillit til aðstæðna. Spennan var mikil og hitinn úti kæfandi. Mikil umræða um stuðningsmenn heimaliðsins og þeirra óhefðundnu aðferðir að hafa áhrif á andstæðingana sýjast inn þrátt fyrir að menn ætli sér ekki að láta þetta trufla sig. Stuðningsmenn Buducnocsts sprengdu til dæmis flugelda um nóttina fyrir utan hótel Blikaliðsins en höfðu greinilega aldrei upplifað gamlárskvöld í Kópavogi! Það vantaði allt fútt í þessa flugelda hjá þeim. Blikar göntuðust með að þeir hefðu verið að skjóta upp  flugeldum til að heiðra Elfar Frey sem átti afmæli í gær!

Þessi leikur fer því í Reynslubankann víðfræða. Nú þurfa menn að núllstilla sig aftur þvi næsti leikur er strax á mánudaginn gegn Skagamönnum í Bestu deildinni. Svo mæta Tyrkirnir í Kópavoginn á fimmtudag 4. ágúst og þá ætlum við hefna fyrir Tyrkjaránið!

-AP

image

Gísli Eyjólfsson náði leikjaáfanga í leiknum í kvöld. 200 mótsleikir með Breiðabliki.

Gefðu kost á þér í Blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að skrifa efni, setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum blikar.is. 

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum.

Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir okkar eru:

www.blikar.is

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is

Til baka