BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Víkingur - Breiðablik í Pepsí-deild karla á Víkingsvelli á sunnudaginn kl.17.00

11.09.2015

Við minnum á leik Víkings og Breiðabliks í Pepsí-deild karla á Víkingsvelli á sunnudaginn kl.17.00.

Það má búast við hörkuleik enda hafa þessi lið eldað grátt silfur saman alveg frá stofnári knattspyrnudeildar Breiðabliks árið 1957. Fyrsti kappleikur liðanna var 2. deildarleikur sem fram fór Melavellinum 17.7.1957. Leikurinn tapaðist 6-2. Skrif um leikinn má sjá hér en þar segir m.a. „Lið Kópavogs er sýnilega lítið æft og kann ekki mikið í listum knattspyrnunnar, en þeir eiga mikinn kraft og flýti en það er ekki einhlítt. Leiknin og skilningur á því hvað knattspyrna er, verður að vera með, annars fara menn í flýtinu framhjá knettinum og skilja hann eftir. Vafalaust geta þessir ungu Kópavogsmenn náð miklum árangri en það kemur ekki nema með mikilli vinnu og elju“. Liðin áttust oft við í 2. deildinni og bikarkeppninni næstu árin. Árið 1962 sigruðum við lið Víkinga 9-0 í 2. deildinni. „Lið Víkings var vita gagnslaust í þessum leik“ skrifar blaðamaður.

Fyrsti stórleikur liðanna var svo úrslitaleikurinn í Bikarkeppni KSÍ á Laugardalsvellinum í september 1971, en það merkisár spilaði Breiðablik fyrst í efstu deild frá stofnun knattspyrnudeildarinnar. Blikar voru með fantalið árið 1971. Leiðin í úrslitaleikinn gegn Víkingum var ekki auðveld. Blikar unnu lið Keflvíkinga 1-2, Val 2-1 og Fram 1-0 en töpuðu úrslitaleiknum gegn Víkingum 1-0.

Liðin hafa leikið 72 leik í öllum keppnum inni og úti frá upphafi. Tölfræðin í þessum leikjum er nokkuð jöfn. Blikasigrarnir eru 26 á móti 27 sigrum Vikinga og jafnteflin eru 19.

Liðin hafa mæst 9 sinnum í efstu deild frá árinu 2000. Jafnt er á öllum tölum því Víkingar hafa sigrað í þremur leikjum, Blikar þremur og jafnteflin eru þrjú. Skoruð mörk eru 33 enda helmingur leikjanna miklir markaleikir; 2-6, 2-2 og þrír leikir hafa endað 4-1 þ.m.t. heimaleikur Blika á Kópavogsvelli 14. júní í sumar með mörkum frá Kristni Jónssyni (2 mörk), Höskuldi Gunnlaugssyni og Ellerti Hreinssyni.

Það má búast við hörkuleik í Víkinni á sunnudaginn.

Kópacabana stuðningshópur Blika hefur verið í gríðarlega góðum gír í undanförnum leikjum og ætlar að fjölmenna í Víkina á leikinn.

Vonandi sjá flestir sér fært að mæta í Fossvoginn og hvetja Blika til sigurs.

BlikarTV: Viðtöl fyrir leik

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka