BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Veni, vidi, vici!

10.06.2016

Það var hinn 16 ára Ágúst Eðvald Hlynsson sem kom, sá og sigraði í leik ÍA og Blika í 16-liða úrslitum Borgunarbikarsins á Skaganum í gær. Ágúst kom inn á fyrir Andra Rafn á 77. mínútu og skoraði svo sigurmark Blika 1:2 í síðari hluta framlengingarinnar. Blikar fögnuðu ákaft enda höfðu okkar drengir farið illa með mörg góð marktækifæri í leiknum. Þar með erum við komnir í 8-liða pottinn en dregið verður í höfuðstöðvum KSÍ í hádeginu á mánudaginn.

Þeir frændur og vinir Sverrir Davíð Hauksson og Húgó Rasmus af Barðaströndinni voru vart komnir inn á völlinn þegar Andri Rafn sendi hárfína sendingu inn á Jonathan Glenn og Trinidadbúinn skoraði sitt fyrsta alvöru mark á tímabilinu. Vel gert hjá þeim félögum en þetta kennir þeim Sverri og Húgó lexíu að mæta á réttum tíma á völlinn!

Blikar réðu lögum og lofum á vellinum fram að leikhléi en tókst ekki að koma tuðrunni aftur í markið þrátt fyrir nokkur ágæt marktækifæri. Meðal annars átti Atli Sigurjónsson hörkuskot í markslána og nokkrum sinnum björguðu Skagamenn á síðustu stundu.En af og til var kæruleysi í vörn Blika og Skagamenn fengu 1-2 þokkaleg færi.

Síðari hálfleikur spilaðist svipað og sá fyrri. Blikar voru með boltann á meðan Skagamenn pressuðu ofarlega. En okkur tókst ekki að nýta breidd vallarins nægjanleg vel og spila inn á svæði til að veita Skagamönnum náðarhöggið. Það er nefnilega ekki nóg að særa bráðina heldur þarf að klára drápið algjörlega. Það gerðum við ekki og okkur var refsað grimmilega. Stærsti Skagamaðurinn á vellinum var skilinn eftir einn og óvaldaður ogskallaði knöttinn í netið á 60. mínútu.   Þarna sofnaði vörnin en vandamálið var samt fyrst og fremst að við vorum ekki að nýta þau færi sem við fengum. Og þau voru fjölmörg!  Því þurfi að grípa til framlengingar því hvorugu liði tókst að bæta við marki.

En varamennirnir Guðmundur Atli, Ellert og Ágúst redduðu heiðri okkar Kópavogsbúa. Í síðari hluta framlengingar skallaði Ellert knöttinn inn í teiginn, Gatli flikkaði honum til Ágústar sem eins og Spánverjinn Butrageno í leiknum gegn Danmörku á HM í Mexíkó 1986 setti knöttinn óverjandi í netið.

Áhorfendur Blika ærðust af fögnuði og Atli, fyrrum framkvæmdastjóri, kyssti nánast alla í stúkunni sem hann náði til. Það er því hægt að taka undir með Júliusi Cesar þegar hann sagði við Ágúst frænda sinn ,,Ég kom, sá og sigraði“ VENI, VIDI, VICI!

Þessi sigur var hins vegar ekki ókeypis. Andri Rafn, Daníel Bamberg og Atli þurftu allir að yfirgefa völlinn vegna meiðsla. Ljóst er að meiðsli Daníels og Atla eru það alvarleg að þeir missa að minnsta kosti af leiknum gegn ÍBV úti í Eyjum á miðvikudaginn. En þá reynir á hópinn og það kemur alltaf maður í manns stað.

Það er hins vegar dauft yfir knattspyrnustemnningunni á Skaganum þessa dagana. Mjög léleg mæting var hjá heimamönnum og höfðu þeir sem mættu fátt fallegt um liðið að segja. En það verður að segjast að framkoma stuðningsmanna Skagamanna sem fengu að koma inn á svæðið á bíl var ekki til fyrirmyndar. Alltaf þegar Blikar voru að sleppa inn fyrir flautuðu þeir og trufluðu okkar menn í að minnsta kosti í tvígang. Þetta er ekki íþróttamannsleg framkoma og verða vallaryfirvöld á Skaganum að grípa í taumana.

Á margan hátt líkist bikarbarátta okkar núna leið okkar í úrslitin á því góða ári 2009. Við höktum í gegnum fyrstu leikina en komust síðan á gott flug þegar nær dró Laugardalnum.

Vonandi er þetta upphafið að nýju bikarævintýri hjá okkur!

BlikarTV/útvarp og nánari umfjöllun um leikinn.

-AP

Til baka