BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Veganesti úr Veghúsum

05.09.2020 image

Í Grafarvogi blasir íþróttasvæði Fjölnis við á aðra hönd en fjölmennasti grafreitur á Íslandi á hina. Þegar litið er á fótboltann hjá meistaraflokki karla þetta sumarið má vart á milli sjá hvor reiturinn er líflegri. Þrátt fyrir oft á tíðum frísklega framgöngu nú í sumar með uppöldum strákum virðist barátta liðsins dauðanum merkt þetta sumarið. Þétt Breiðablikslið sýndi heimamönnum enga miskunn og verðskuldaður stórsigur á íþróttavellinum við Veghús er gott veganesti fyrir frámunalega stífa leikdagskrá í þessum septembermánuði.

Fleiri komust að en máttu

Færri komust að en vildu í haustblíðunni á laugardag. Höskuldur var í fararbroddi gestanna í sínum hundraðasta efstudeildarleik hér á landi, en alla hefur hann spilað fyrir Breiðablik. Hérna sérðu svo hverjir þrömmuðu með honum inn á rennislétt grasið, sem í Grafarvoginum er af þeirri gerð sem er nákvæmlega eins og skaparinn hafði hugsað sér gras.

image

Okkar mönnum hafði lærst það í Þrándheimi að heillavænlegra væri að byrja leiki en að sleppa því. Strax á fyrstu mínútunum dró fyrir sól Fjölnis þegar gæði Breiðabliksstrákanna í hverri stöðu skinu í gegn. Mikkelsen skoraði á fjórðu mínútu og hálfleikurinn allur þinglýst einkaeign Breiðabliks. Færi fóru forgörðum en alltaf bara tímaspursmál hvenær bætt yrði við. Spilið upp kantana var einkar árangursríkt og Höskuldur flinkur í fyrirgjöfum en þær voru aðeins síðri af hægri kantinum í hálfleiknum. Svo þrumaði Mikkelsen í slá og boltinn datt fyrir Alexander, sem dobblaði forystuna fyrir hálfleik.

Flest annað en fótbolti

Ég hitti tvo Fjölnissinnaða Austfirðinga í hálfleik og við áttum gott spjall um byggðasögu Mjóafjarðar, hugsanlega lengd Fjarðarheiðargangna, ofanflóðavarnir í Neskaupstað og stöðu ferðaþjónustunnar á Héraði.

Þegar síðari hálfleikurinn hófst barst þó talið að fótbolta. Þá höfðu Fjölnismenn ákveðið að spila þéttar á Oliver, sem lunginn af uppspili Breiðabliks hafði farið í gegnum í fyrri hálfleiknum. Það var eins og samherjar hans í grænu treyjunum nenntu ekki að bregðast við breytingunni. Tvöföld skipting hjá báðum liðum breyttu engu um þetta til að með; gulklæddir meira áberandi á vellinum fyrri hluta seinni hálfleiksins og eftir að það hafði fyrirsjáanlega endað með marki frá þeim gulu barst tal okkar Austfirðinganna skyndilega að afrekum Ása Fjölnisþjálfara þegar hann kom þessu ungmennafélagi upp um nokkrar deildir meðan fólk mátti mæta á völlinn.

Á þessum tíma voru okkar menn að reyna ódýru leiðirnar, langa bolta upp miðjuna og sæmilegar vallarstöður fóru stundum forgörðum með áhugaleysislegum sendingum. Það var einmitt eftir eina slíka sem Mikkelsen skoraði mark leiksins. Hann kom og mætti hálfvonleysislegri sendingu Atla eitthvert inn á teiginn og sneiddi tuðruna í fjærhornið af stakri snilld.

Það var eins og við þetta mark rifjaðist upp fyrir okkar mönnum að þeir gætu eitthvað í fótbolta. Aftur sáum við, eins og í fyrri hálfleiknum, að við erum betur mannaðir í hverri stöðu. Það sást af hverju við erum í öðru sæti en Fjölnir hefur ekki enn unnið leik og talið við Austfirðingana barst að horfunum fyrir makrílvertíðina.

Þegar menn nenna því þá er Breiðablik besta lið landsins. Gísli Eyjólfsson átti stórfínan leik í dag og það sást langar leiðir hvað hann langaði að skora eftir að hafa þrusað í slá skömmu eftir að hann lagði upp síðasta mark leiksins fyrir Viktor Karl. Elfar var drottnandi í vörninni, dugnaður á miðjunni mestan part og kantmennirnir frískir og ógnandi. Framherjinn skoraði úr nægilega háu hlutfalli færanna í dag og það er bara fjári gott að vinna 4-1 og finnast liðið eiga inni.

Klippur og mörkin úr leiknum í boði BlikarTV

Umfjöllun fjölmiðla um leikinn

Smella hér til að sjá umfjallanir fjölmiðla eins og t.d. Fótbolta.net, RÚV, mbl.is og Visir.is um leikinn. 

Spennandi september

Það veitir ekkert af inneign. Að þessum leik loknum eru aðrir fimm leikir framundan í september. Engir dútl-leikir. Svona er dagskráin það sem eftir lifir mánaðar:

  • fimmtudaginn 10. sept. KR heima í bikar kl. 19:15
  • sunnudaginn 13. sept.   FH úti kl. 16:30
  • sunnudaginn 20. sept.   KR heima í deild kl. 19:15 (verður hugsanlega frestað vegna Evrópuleiks KR þann 17.)
  • fimmtudaginn 24. sept. Stjarnan heima kl. 19:15
  • sunnudaginn 27. sept.   Valur úti kl. 19:15

Það var fátt á vellinum í dag og það mátti heyra saumavél detta meira að segja þegar mörk voru skoruð.

Nú er verið að losa um samkomubannið og er þá ekki kjörið að mæta á völlinn, ræskja úr sér kóvidþögnina eftir sumarið og hvetja okkar menn?

Áfram Breiðablik!

Eiríkur Hjálmarsson

Til baka