BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Varaliðið fór á kostum

15.01.2017

Varalið Blika og ÍBV áttust við í æfingaleik í Fífunni á föstudagskvöldið. Okkar piltar unnu öruggan 4:1 sigur og voru mörk okkar flest af dýrari tegundinni. Í leiknum fengu yngri leikmenn tækifæri til að sýna sig og sanna. Einnig sýndu eldri kempur óvænta takta og greinilegt að Kári Ársælsson hefur verið að spila ranga stöðu alla sína tíð. Þjálfararnir settu hann á miðjuna og sýndi hann þar takta sem Gylfi Sigurðsson hefði verið stoltur af. Hann stöðvaði flestar sóknir Vestmannaeyinga og dreifði síðan boltanum til hægri og vinstri með annað hvort stuttum hnitmiðum sendingum eða 30 metra Beckenbauer upp í hornin á kantmennina okkar.

Arnór Gauti Ragnarsson gaf tóninn með hörkuspyrnu fyrir utan vítateig þegar hann snéri boltann upp í hornið eftir góða rispu upp völlinn. Síðan var komið að 2.flokksdrengnum Davíð Ingvarssyni sem setti vinstri fótar þrumuskot af 28 metra færi beint upp í samskeytin. Ekki vildi aukaspyrnusérfræðingurinn Gunnar Geir Baldurssyn vera síðri og skoraði gullfallegt mark beint úr aukaspyrnu með smá viðkomu í baki markvarðar. Lokatóninn gaf síðan Arnór Gauti með ágætu marki eftir mikinn dugnað eins og honum er einum lagið.

Við gáfum aðeins eftir í síðari hálfleik enda fengu þá fleiri leikmenn tækifæri til að spreyta sig. En jafnræði var samt með liðunum en rétt fyrir leikslok minnkuðu gestirnir muninn en 4:1 öruggur sigur staðreynd. Þessi leikur lofaði góðu og sýndi að við eigum öflugan hóp sem getur bankað á dyr meistaraflokksins á næstu misserum.

-AP

Til baka