BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Vandræðalegt

15.09.2017
Það voru eins góðar aðstæður og hugsast getur til að leika knattspyrnu á fimmtudaginn þegar Breiðablik fékk KR í heimsókn. Góður hiti og logn – völlurinn eins og best verður á kosið. Blikarnir voru með óbreytt lið frá því á móti Val nema að Willum Willumsson kom inn í byrjunarliðið í stað Arnþórs Ara Atlasonar. 
 
Liðin:
Breiðablik: Mark: Gunnleifur Gunnleifsson. Vörn: Guðmundur Friðriksson, Damir Muminovic, Elfar Freyr Helgason, Davíð K. Ólafsson (Kristinn Jónsson 46). Miðja: Andri Rafn Yeoman, Willum Þór Willumsson (Hrvoje Tokic 72), Gísli Eyjólfsson (Arnþór Ari Atlason 81). Sókn: Aron Bjarnason, Sveinn Aron Guðjohnsen, Martin Lund. 
Varamenn: Ólafur Íshólm Ólafsson (M), Kolbeinn Þórðarson, Kristinn Jónsson, Arnþór Ari Atlason, Hrvoje Tokic, Ernir Bjarnason, Þórður Steinar Hreiðarsson. 
 
KR: Mark: Beitir Ólafsson. Vörn: Morten Beck, Skúli Jón Friðgeirsson, Aron Bjarki Jósepsson, Arnór S. Aðalsteinsson. Miðja: André Bjerregaard, Finnur Orri Margeirsson, Pálmi Rafn Pálmason (Robert Sandnes 82), Óskar Örn Hauksson. Sókn: Kennie Chopart (Ástbjörn Þórðarson 88), Guðmundur Andri Tryggvason (Tobias Thomsen 71). 
Varamenn: Stefán Logi Magnússon (M), Ástbjörn Þórðarson, Garðar Jóhannsson, Tobias Thomsen, Robert Sandnes, Valtýr Már Michaelsson, Óliver Dagur Thorlacius. 
 
Áhorfendur voru fáir – og ekki er hægt að kenna Sjávarútvegssýningunni um þá staðreynd. Vonbrigði tímabilsins eru mikil og það skilar sér í dræmri mætingu – eðilega. 
 
Svo virtist sem að Blikarnir hafi ekki mætt til leiks og KR-ingarnir nýttu sér það til fulls.  Eftir 13 mínútur var staðan orðin 0 – 2 fyrir gestina.  Bæði mörkin keimlík. Andvaraleysi í vörn eftir hornspyrnu og eftirleikurinn auðveldur fyrir Skúla Jón og André Bjerregaard sem nýttu sér einbeitingarleysið til hins ítrasta.  KR réð réð lögum og lofum í fyrri hálfleiknum án þess þó að sýna nein snilldartilþrif.  Við eigum að vinna þetta lið á heimavelli ef allt er eðlilegt. 
 
Mótstaðan hjá okkar mönnum varl lítil og ógnunin fram á við nánast engin. Þá sjaldan að fyrirgjafir komu inn í teig KR voru sóknarmenn okkar víðs fjarri eins og lengstum í sumar.  Við áttum lítið skilið þegar gengið var til leikhlés.  
 
Seinni hálfleikurinn byrjaði vel.  Andri Rafn vann boltann á miðjunni, lék vel fram og dró til sín 2 varnarmenn og sendi á Martin Lund sem lagði boltann framhjá Beiti í markinu.  Allt í einu var kominn  fótboltaleikur á ný. Kristinn Jónsson kom inn fyrir Davíð í hálfleik í bakverðinum og framan af hálfleiknum brá fyrir kunnuglegum töktum hjá honum. Nokkuð sem skilaði honum því að vera kosinn besti leikmaður Íslandsmótsins árið 2015. Bakvarðaspilamennska Breiðabliks með fyrirgjöfum eftir overlap upp kantinn hefur síðustu ár verið okkar flaggskip en því var ekki til að dreifa í kvöld frekar en fyrr í sumar.  Við vorum samt líklegir framan af hálfleiks en sama sagan – það vantaði allan brodd í sóknina og möguleikarnir fjöruðu út.  Það var því nokkuð táknrænt að  við fengjum á okkur 3ja markið upp úr þurru eftir fast leikatriði.  Eftir það rann leikurinn út og ég var farinn að sakna spennandi bókar sem beið á náttborðinu. Ef ekki var fyrir góðan félagsskap hefði maður farið fyrr heim.  Við fengum reyndar vítaspyrnu til að koma okkur inn í leikinn en menn eru enn að velta því fyrir sér hvað Gísli Eyjólfsson – einn albesti skotmaður landsins -  var að reyna í spyrnunni.  Við Bonni litum á hvorn annan en sögðum ekki neitt.    
 
Andri Rafn Yeoman var yfirburðamaður hjá Blikum í kvöld eins og svo oft áður.  Hann lagði upp markið og átti hörkuskot í stöng af löngu færi.  Hann braut niður margar sóknir KR-inga í fæðingu á la Barcelona og dreifði spilinu eins og herforingi.  Það er ljóst að ef hans og Gulla markmanns nyti ekki við værum við í enn alvarlegri fallbaráttu þegar aðeins 3 leikir eru eftir.  Við erum nú í þeirri baráttu í fyrsta sinn í langan tíma en sigur gegn Grindavík suður með sjó á sunnudag getur tryggt okkur sæti meðal þeirra bestu að ári. Þetta er lakasti árangur okkar í mörg ár – og er óásættanleg staða fyrir okkur sem stærsta félag landsins.   
 
„Þessi spilamennska er vandræðaleg“ sagði einn af okkar fyrrum leikmönnum í stúkunni þegar ráðleysið var hvað mest.  Það er hægt að taka undir þau orð.   Það er enn tækifæri fyrir strákana að hrista af sér þetta slyðruorð og það skiptir miklu máli fyrir framhaldið að klára tímabilið með stolti og sæmd. 
 
Hákon Gunnarsson

Til baka