BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Úti í Eyjum!

24.04.2016

Blikar unnu góðan 1:2 sigur á Eyjamönnum í æfingaleik á Hásteinsvelli í Vestmanneyjum í gær. Leikurinn var á margan hátt besti leikur okkar á þessu undirbúningstímabili og sáust liprir taktar hjá okkur drengjum á alvöru grasi á Heimaey. Það voru þeir Guðmundur Atli Steinþórsson og Gísli Eyjólfsson sem skoruðu mörkin fyrir okkur sitt hvorum hálfleiknum.

Leikurinn byrjaði frekar rólega og leikmenn greinilega ekki vanir að spila á alvöru grasi. Okkar drengir voru þó frekar grimmari án þess þó að skapa sér nein verulega hættuleg tækifæri. Eyjamenn undir stjórn gamla þjálfara okkar Bjarna Jóhannessonar spila taktískan bolta og gáfu fá færi á sér. Það var síðan nokkuð gegn gangi leiksins sem heimamenn tóku forystuna á 25 mínútu. Þá fengu þeir aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig og einn Eyjadrengur setti boltann snyrtilega í netið fram hjá Gunnleifi í markinu. Spurning hvort veggurinn hefði átt að vera betur staðsettur en spyrnan var góð. En skömmu fyrir leikhlé óð Andri Rafn upp völlinn og setti snyrtilega sendingu inn fyrir vörnina á Guðmund Atla sem hamraði knöttinn í markið. Mjög vel gert hjá Guðmundi og Andra!

Í síðari hálfleik tóku Blikastrákarnir öll völd á vellinum.  Alfons átti þá góða sendingu á Arnþór Ara upp kantinn. Hann sendi knöttinn hárfínt fyrir þar sem Gísli sneyddi boltann snyrtilega með kollinum í markhornið niðri óverjandi fyrir markvörð Eyjapeyja. Bæði lið leyfðu flestum varamönnunum að spreyta sig í síðari hálfleik og það hafði auðvitað ákveðin áhrif á gæði leiksins. Okkar piltar drógu sig óþarflega mikið aftur undir lok leiksins til að verja sigurinn en það kom ekki að sök. Góður 1:2 sigur staðreynd og það er gott að enda undirbúningstímabili á tveimur sigrum.

Blikaliðið virkaði heilsteypt í þessum leik. Mikið munaði um að Oliver Sigurjónsson spilaði í um 60 mínútur og sýndi það og sannaði að hann er orðinn einn besti miðjumaður deildarinnar. Arnþór Ari kom sterkur inn í þennan leik og sýndi gamalkunna takta frá því fyrra. Vonandi er hann að toppa á réttum tíma! Varnarmaðurinn efnilega Alfons Sampsted spilaði allan leikinn í bakverðinum, varðist vel og ógnaði vel með hraða sínum og krafti. Miðjumennirnir Elfar Freyr og Damir stóðu fyrir sínu en áttu nokkrar feilsendingar sem skrifast má á eyjavindinn og blautt grasið. Gunnleifur var öryggið uppmálað í búrinu en það verður erfitt að fylla hans skarð ef hann fer til Frakklands. Gísli Eyjólfsson, Davíð Kristján, Óskar Jónsson og Ágúst Hlynsson komu inn á síðari hálfleik og áttu góða spretti. Áhugavert verður að fylgjast með Águsti í framtíðinni en hann er einungis 15 ára gamall.

Brassinn Daníel Bamberg sýndi klókindi í leiknum og leysti oft vel úr erfiðri stöðu. Ljóst er að hann á eftir að reynast okkur mjög vel í sumar. Þess má geta að hvorki Höskuldur, Ellert né Glenn spiluðu vegna meiðsla. Glenn byrjar í tveggja leikja banni en Höskuldur og Ellert verða að öllum líkindum tilbúnir fyrir fyrsta leik.

Þetta var síðasti æfingaleikurinn fyrir fyrsta leik sem verður gegn Víkingi Ó á Kópavogsvelli sunnudaginn 1. maí kl.19.15. 

-AP

Til baka