BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Uppskerubrestur

03.10.2016

Það var mikið undir í lokaumferð PEPSI deildarinnar í gær. 2 lið freistuðu þess að bjarga sér frá falli og önnur 4 áttu möguleika á að ná sér í sæti í Evrópukeppni á næsta ári. Blikar mættu Fjölnismönnum og í stuttu máli var staðan þannig að Blikum myndi nánast örugglega duga að vinna leikinn til að tryggja sér Evrópusæti. Það voru fínar aðstæður í gær, hægur vindur af suðaustri og 9°C hiti sem telst alveg þokkalega hlýtt miðað við árstíma. Völlurinn í toppstandi og hefur sennilega sjaldan verið svona flottur í október.

Byrjunarlið Blika;
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (FM)
Alfons Sampsteed - Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason - Davíð Kristján Ólafsson - Andri Rafn Yeoman - Höskuldur Gunnlaugsson  - Gísli Eyjólfsson - Arnþór Ari Atlason - Daniel Bamberg  - Árni Vilhjálmsson
Varamenn:
Hlynur Örn Hlöðversson(M) - Viktor Örn Margeirsson - Jonathan R. Glenn - Arnór Sveinn Aðalsteinsson - Atli Sigurjónsson - Ellert Hreinsson - Willum Þór Willumsson.

Sjúkralisti: Oliver Sigurjónsson - Guðmundur Atli Steinþórsson
Leikbann: Enginn

Blikar þurftu að breyta fyrirhuguðu byrjunarliði á síðustu stundu þegar ljóst varð að Oliver var ekki leikhæfur og Daniel Bamberg hóf því leikinn í hans stað.

Okkar menn hófu leikinn af krafti og Gisli átti skot að marki á fyrstu mínútu en gestirnir vörðu í horn.  Ekkert kom út úr hornspyrnunni. Skömmu síðar átti Höskuldur hörkuskot af löngu færi og markvörur gestanna mátti hafa sig allan við að verja í horn. Hornspyrnan dreif ekki fyrir markið. Ekki sú fyrsta og ekki sú síðasta. Hornspyrnur okkar hafa verið vandræðalega slakar í sumar. Á því varð lítil breyting í gær. Þær voru 10 í gær og jafnan fór Höskuldur með Bamberg út að hornfána en sá síðarnefndi spyrnti alltaf fyrir utan einu sinn eða 2svar og þá er manni spurn hvað Höskuldur var að gera þarna í stað þess að vera inn í teig, þar sem hann er stórhættulegur eins og dæmin sanna? En nóg um það. Gestirnir fóru smátt og smátt að láta að sér kveða og áttu sín færi þegar líða tók á. Í þrígang munaði litlu en þeir voru of seinir að taka skotin í tvígang og einu sinni bjargaði Damir með stórbrotinni tæklingu þegar Fjölnismaður var við að sleppa í gegn. Blikar áttu svo flotta sókn og Árni tók skotið en gestirnir björguðu í horn. Sú hornspyrna var reyndar fín og Blikar áttu skalla sem fór naumlega framhjá en sáralitlu munaði að Árni næði að teygja sig í boltann og stýra honum í markið. Eftir þessi læti róaðist leikurinn heldur og engin færi litu dagsins ljós það sem eftir lifði hálfleiksins.

Staðan í hálfleik 0-0.

Í Blikakaffinu voru ýmislegt skrafað. Stjarnan og KR yfir í sínum leikjum og alveg ljóst að okkar menn yrðu að vinna. Enn og aftur fannst mönnum við of hægir og varkárir. Ættum að geta farið hraðar upp völllinn þegar vð unnum boltann á okkar vallarhelmingi í stað þess að róa leikinn. Oft sent til baka í stað þess að ráðast á gestina sem fengu nægan tíma til að stilla sér upp og skipuleggja sig áður en við fórum í sóknirnar. Fyrir vikið gekk illa að finna glufur og niðurstaðan varð of oft langar og hættulausar sendingar upp völlinn og inn fyrir vörn gestanna þegar menn voru komnir í hálfgerða leikþröng. Elfar átti t.d. nokkrar en það var ekki við hann einan að sakast, það vantaði meiri hreyfingu á liðið og Fjölnismenn leyfðu miðvörðum okkar einfaldlega að koma upp með boltann. En fyrri hálfleikur var samt ekki alslæmur og menn voru alveg þokkalega bjartsýnir á að Blikar myndu láta til sín taka í seinni hálfleik.

Seinni hálfleikur fór hinsvegar mjög rólega af stað. Eins og menn væru að bíða eftir einhverju. Bókstaflega ekkert í gangi hjá okkar mönnum fyrren rúmar 15 mínútur voru liðnar af hálfleiknum þegar Alfons lagði boltann fyrir Bamberg eftir góðan samleik hægra megin en skotið fór framhjá. Loksins lífsmark. En þá kviknaði líka á gestun um og þeir komust í sannkallað dauðafæri skömmu síðar, en Gunnleifur bjargaði með frábæru úthlaupi. Þar skall hurð nærri hælum. Blikar urðu að gera breytingu skömmu síðar þegar Elfar fór meiddur af velli og Viktor Örn kom inn í hans stað.  Og nú fór í hönd skrautlegur hálftími. Skyndilega var eins og okkar menn áttuðu sig á því að þeir væru að missa af Evrópusætinu og þeir gerðu nú harða hríð að gestunum. Hvað eftir annað komumst við í góðar stöður við mark gestanna en inn vildi boltinn ekki. Hann fór í stöngina og samskeytin og stundum alveg lygilega langt framhjá. En maður hafði samt á tilfinningunni að það myndi koma. Blikar freistuðu þess að bæta í sóknina og Glenn kom inn fyrir Arnþór Ara þegar 5 mínútur voru til leiksloka. En þá dundi ógæfan yfir. Gestirnir komust í sókn og fengu hornspyrnu sem þeir tóku stutt. Svo kom fyrirgjöf og einn leikmaður gestanna náði að fleyta boltanum inn  á fjærstöngina þar sem samherji hans var, alveg greinilega rangstæður, og hann skallaði í netið. Þetta var gríðarlegt kjaftshögg, því nú þurftu Blikar að skora 2 mörk.Þeir fóru strax í sókn og náðu að skora en Árni var réttilega dæmdur rangstæður. Annað mark gestanna kom svo skömmu síðar þegar Blikar töpuðu boltanum á eigin vallarhelmingi og gestirnir voru fljótir að nýta sér það að okkar menn voru flestir komnir framarlega á völlinn og skoruðu auðveldlega. Skömmu síðar kom kornungur leikmaður úr 2. flokki, Willum Þór Willumsson inná í sinum 1. leik í efstu deild. Efnilegur leikmaður þar á ferð en kannski ekki hægt að búast við að hann sneri þessu við. Síðasta mark leiksins kom svo í uppbótartíma þegar sláarskot gestanna fór í bakið á Gunnleifi og þaðan í markið.  

Leiknum lauk því með 0-3 sigri gestanna og þar með var Evrópudraumurinn á bak og burt. Gríðarleg vonbrigði hjá okkar mönnum, þjálfurum og stuðningsmönnum liðsins. En uppskeran í lok móts er oftast í samræmi við frammistöðu og þetta var bara ekki nógu gott í sumar. Að vísu var útlitið enn dágott eftir góðan 3-0 sigur á Val, en eftir það náði liðið aðeins 1 stigi úr 3 leikjum. Það var einfaldlega of lítið og frammistaðan í heild ekki nógu góð.
Þetta tímabil hefur kannski vakið fleiri spurningar en það hefur svarað varðandi liðið okkar. Eitt er þó ljóst. Liðið er einfaldlega ekki nógu gott. Það er góður grunnur og beinagrind til staðar en það vantar meira kjöt og meiri kraft.

Áfram Breiðablik!
OWK.

Tölfræði 2016

Umfjallanir netmiðla

Til baka