BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Undirbúningur Blika að hefjast

09.11.2019

Eftir kærkomið frí eru Blikastrákarnir búnir að reima á sig æfingaskóna á nýjan leik. Nýju þjálfararnir, Óskar Hrafn og Halldór, er búnir að setja strákana í þrekpróf og æfingar eru hafnar á fullu. Reyndar fengu strákarnir smá frí um síðustu helgi því meirihluti þeirra fór í skemmtiferð til Ungverjalands. Þar hittu þeir meðal annars gamla félaga Aron Bjarnason sem leikur með liði í Búdapest. Ferðin var vel heppnuð og eru menn tilbúnir að takast á við næstu verkefni.

Bose mótið 2019 hefst í dag með leik FH og Víkings í riðli 2. Flautað verður til leiks kl.11:45 í Skessunni, nýju knatthúsi FH. Liðin í riðli 2 eru: FH, Grótta, Víkingur og KR.

Breiðablik er í riðli 1 með KA, Valsmönnum og Stjörnunni. Fyrsti leikur okkar manna er um næstu helgi þegar við fáum KA-menn í heimsókn á Kópavogsvöll kl.14:00, laugardaginn 16. nóvember.

Leikjaplan í riðli 1:

Breiðablik – KA. Laugardag16.nóvember kl.14.00 (Kópavogsvöllur)
Breiðablik – Valur. Fimmtudag 21.nóvember kl.17.00 (Kópavogsvöllur)
Breiðablik – Stjarnan. Laugardag 30.nóvember kl.12.00 (Kópavogsvöllur)

Lið KA og Vals taka nú þátt í Bose mótinu í fyrsta sinn, en þetta er í fimmta ár Blika í mótinu:

2018: Úrslitaleikur. Tap fyrir KR í vító eftir 2:2 jafntefli í venjulegum leiktíma.
2017: Úrslitaleikur. Sigur (2:0) á Stjörnunni.
2016: Sigur á Stjörnunni í vító eftir 3:3 jafntefli í venjulegum leiktíma.
2015: Tap (1:0) fyrir KR í Egilshöll.

En áður en Bose mótið hefst hjá okkar mönnum um næstu helgi geta almennir Blikar spurt þjálfarana spjörum úr. Þeir munu báðir mæta á opinn fund hjá Blikaklúbbnum á fimmtudagskvöldið 14. nóvember kl.20.00 í Smáranum. Allir eru velkomnir á þennan fund.

Til að hita upp fyrir fundinn er hægt að lesa hér frétt blikar.is um ráðningu Óskars Hrafns eða hlusta á viðtal sem Heisi átti við Óskar á BlikarTV:

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!
 

Til baka