BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Tómas Óli kláraði Grindvíkingana

19.02.2014

Blikar unnu nauman sigur á  baráttuglöðu liði Grindvíkinga 2:1 í fyrsta leik Lengjubikarsins í Kórnum í gær. Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og áttu gestirnir í fullu tré við okkar pilta. Ekki var mikið um færi en þó skall hurð nærri hælum á eftir um tuttugu mínútna leik þegar Damir bjargaði á marklínu eftir góðan skalla þeirra gulklæddu. Það dróg til tíðinda á 34. mínútu þegar Andri Rafn átti góða sendingu inn í teig andstæðinganna og varnarmaðurinn misreiknaði  boltann illilega. Páll Olgeir fékk knöttinn og kláraði færið örugglega.  En nokkrum mínútum síðar jöfnuðu Grindvíkingar eftir slaka varnavinnu okkar pilta. Staðan var því jöfn í leikhléi 1:1.

Ólafur gerði fjórar breytingar eftir leikhléið.  Guðjón Pétur, Ellert, Gísli Páll og Tómas Óli komu inn á í staðin fyrir Finn Orra, Guðmund, Palla og Davíð. Skömmu síðan koma Elfar Árni inn fyrir Stefán og svo Olli fyrir Andra Rafn. Við þessar breytingar náðum við föstum tökum á leiknum en náðum samt ekki að skapa okkur nein alvöru færi. Grindvíkingar pökkuðu í vörn og börðust um hvern einasta bolta. Það var ekki fyrr en 81. mínútu að Tómas Óli skoraði magnað mark. Hár bogabolti kom inn í teiginn og Tómas Óli klippti boltann í netið með hjólhestaspyrnu. Áhorfendur spruttu úr úr sætum og klöppuðu hátt og lengi. Þetta reyndist sigurmark leiksins 2:1 og gestirnir löbbuðu niðurlútir að miðlínunni því þeir höfðu ekki gert sig líklega til að skora mark í síðari hálfleik.

Í heild getum við verið þokkalega sátt með þennan leik. Breiddin er mikil í hópnum og sjaldan hefur bekkurinn verið skipaður jafn sterkur leikmönnum og í þessum leik. Samt vantaði Elfar Pál sem er lítillega meiddur og Stefán Gíslason sem ekki er kominn til landsins.  

Leikskýrsla

Næsti leikur liðsins í Lengjubikarnum er á laugardaginn gegn BÍ/Bolungarvík í Fífunni kl.11.00.

-AP

Til baka