BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Tilraunastarfsemi

03.02.2018

Breiðablik mætti nágrönnum sínum í HK laugardaginn 3. febrúar í leik um 3. sætið í Fótbolti.net mótinu.  Það er alltaf ákveðin stemning þegar Breiðablik og HK mætast og áhorfendur í Kórnum voru fjölmargir.  

Byrjunarlið Blika: 1. Gunnleifur Gunnleifsson (m)  ('46) - 2. Casper Olesen  ('64) - 4. Damir Muminovic - 5. Elfar Freyr Helgason  ('46) - 7. Jonathan Hendrickx - 8. Arnþór Ari Atlason  ('85) - 9. Hrvoje Tokic  ('80) - 11. Gísli Eyjólfsson  ('67) - 15. Davíð Kristján Ólafsson - 21. Viktor Örn Margeirsson - 30. Andri Rafn Yeoman  ('46). Varamenn: 12. Ólafur Íshólm Ólafsson (m)  ('46) - 6. Alexander Helgi Sigurðarson  ('46) - 14. Óskar Jónsson  ('46) - 19. Danijel Dejan Djuric  ('64) - 25. Karl Friðleifur Gunnarsson  ('67) - 26. Páll Olgeir Þorsteinsson  ('80) - 27. Nikola Dejan Djuric  ('85).

Leikurinn var í jafnvægi fyrstu mínúturnar en smám saman náðu Blikarnir tökum á miðjunni og fóru að stýra leiknum með Gísla Eyjólfsson fremstan í flokki.  Vörnin var traust, yfirvegun  Elvars og co. eins og best gerist á góðum degi hjá okkur.  HK náði ekki að skapa sér nein alvöru færi og náðu aldrei að ógna Gulla í markinu – en hann var árum saman holdgervingur HK í knattspyrnu eins og allir vita. Breiðablik fékk aukaspyrnu á 16. mínútu vinstra megin fyrir utan vítateig. Allir í Kórnum bjuggust við spyrnu frá Gísla með hægri fæti en Davíð Kristján var á öðru máli. Bakvörðurinn tók 2 skref og sneiddi boltann í nærhornið með vinstri.  Afar snyrtilega gert og Blikarnir voru komnir verðskuldað yfir.  Stuttu síðar splundraði Gísli vörn HK – gaf hárnákvæmt á Tokic sem þakkaði vel fyrir sig og skallaði boltann örugglega í markið.  Blikarnir kláruðu hálfleikinn vel og staðan þægileg þegar flautað var til leikhlés. Elvar og Yeoman fóru út af í hálfleik og yfirburðir okkar voru ekki jafn miklir og áður. Arnþór Ari bætti marki við strax í upphafi seinni hálfleiks en þá breyttist leikurinn mikið.  Breiðablik notaði allar 7 skiptingar í hálfleiknum og ljóst að leikskipulag getur riðlast mikið við slíkt.  HK gekk á lagið og skoraði 2 mörk og allt í einu var komin spenna í leikinn.  Fyrra markið þeirra var afar slysalegt. Það er mælt með fyrirsjáanlegum svifboltum af löngu færi á næstu markmannsæfingu, þetta er nokkuð sem þarf greinilega að laga og gengur ekki efstu deild. Sigrinum var hinsvegar siglt í höfn.  

Það er ekki hægt að draga of miklar ályktanir af þessum leik.  Fyrri hálfleikur lofar hinsvegar góðu og spilamennskan þar gefur góð fyrirheit.  Síðari hálfleikurinn fór í ýmis konar tilraunastarfsemi sem gat orðið dýrkeypt en við sluppum fyrir horn.  Nýi leikmaðurinn, Casper Olesen verður ekki dæmdur af þessum leik. Hann er dæmigerður danskur spilari, með góða tækni og á eftir sína aðlögun hér.  Hefði átt að klára dauðafæri – en sjáum til.  Það er mikil gæfa að Gísli skuli vera búinn að gera samning við Blikana – hann var langbesti maður leiksins og hann gerir aðra leikmenn betri þegar hann spilar eins og í þessum leik.

HK er með fínt lið sem er í mótun og á vonandi eftir að gera það gott í næstefstu deild og við Blikar óskum HK góðs gengis.  Það er gott fyrir knattspyrnuna í Kópavogi að báðum liðum gangi vel.

Nefna má að Alexander Helgi Sigurðarson lék sinn fyrsta leik í 2 ár eftir meiðsli. Síðast leikur hans með Blikaliðinu var sigurleikur á Hásteinsvelli í Eyjum 15. júní 2016. Það er einnig langt síðan að Páll Olgeir Þorsteinsson spilaði síðast opinberan leik með Blikum. Reyndar kom hann við sögu í BOSE mótinu fyrir síðustu jól, en síðast skráði leikur Páls Olgeirs er í Fóbolta.net mótinu árið 2015.

Bræðurnir Danijel og Nikola Djuric sem eru 15 og 17 ára gamlir komu inná í leiknum.  Það er 27 ára aldursmunur á þeim Gulla markmanni og Danijel – það eru eflaust ekki mörg fordæmi fyrir þessu í alvöru fótbolta!

Nú fer að færast þungi í undirbúningnum fyrir átök keppnistímabilsins.  Deildabikarinn framundan, æfingaferð og svo er vorið komið fyrr en varir.  Það verður spennandi að fylgjast með hvernig til tekst hjá Gústa og strákunum. 

Umfjallanir netmiðla og upptaka af leiknum hér.

Hákon Gunnarsson  

Til baka