BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Þolinmæðissigur á Vestfirðingum

02.04.2015
Blikar unnu 4:0 sigur á liði BÍ/Bolungarvík í Lengjubikarnum í Fífunni i dag. Sigurinn var þó ekki eins sannfærandi eins og tölurnar gefa til kynna því Vestfirðingarnir stríddu okkur með mikill baráttu og krafti í fyrri hálfleik. Gestirnir misstu mann út af í sitt hvorum hálfleiknum og eftirleikurinn því auðveldur fyrir okkar menn. Það voru þeir Ellert Hreinsson, Ismar Tandir, Olgeir Sigurgeirsson og Arnþór Ari Atlason sem settu mörkin fyrir okkur í síðari hálfleik.
 
Leikurinn byrjaði nokkuð fjörlega og var kraftur í báðum liðum. En strax á 13. mínútur misstu BÍ menn mann út af eftir ljótt brot á hinum unga og efnilega Alfonsi Sampsted. Okkar drengir náðu hins vegar ekki að nýta sér liðsmuninn enda börðust Vestfirðingar eins og grenjandi ljón um hvern einasta bolta. Við náðum ekki að láta boltann fljóta nægjanlega vel og sóknartilburðir okkar voru of hægir. Að vísu átti Guðjón Pétur hörkuskot í stöngina og oft skall hurð nærri hælum upp við mark gestanna en það dugði ekki til.
 
Þjálfararnir skiptu mörgum mönnum inn eftir leikhlé og það virtist hafa góð áhrif á okkar lið. Ellert og Oliver komu inn á og breyttu miklu í sóknarleiknum. Fljótlega skoraði Ellert fyrsta mark leiksins eftir gullfallega sendingu frá Olgeiri. Izzy Tandir skoraði síðan gott mark þar sem hann snéri af sér varnarmann inn í teignum og skoraði með góðu skoti. Varnarmaður BÍ lét síðan reka sig út af eftir að hafa misst Ellert inn fyrir vörnina. Þar sem gáfust gestirnir hálfvegis upp. Olgeir skoraði ágætt mark og einnig Arnþór Ari eftir klafs við varnarmann.  Lokastaðan 4:0 fyrir okkur og öruggt sæti í 8-liða úrslitum keppninnar tryggt. Ungur og efnilegur markvörður Aron Snær Friðriksson skipti við reynsluboltann Gunnleif Gunnleifsson í síðari hálfleik og stóð sig með sóma.
 
Varnarlína Blikaliðsins var traust í þessum leik. Viktor Margeirsson fer vaxandi með hverjum leik og átti flottan leik með Kára Ársælssyni í miðju varnarinnar. Athygli vakti ungur og efnilegur leikmaður í hægri bakverðinum Alfons Sampsted. Hann er á fyrsta ári í 2. flokki og á framtíðina fyrir sér. Oliver og Ellert komu sterkir inn í síðari hálfleikinn og einnig var Andri Rafn sívinnandi að vanda.
 
Liðið fer til Spánar í æfinga- og keppnisferð á sunnudaginn og spilar síðan í 8-liða úrslitum Lengjubikarsins fimmtudaginn 16. apríl en ekki er ljóst á móti hverjum við leikum ennþá.
 
Leikskýrsla.
 
-AP

Til baka