BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Stórmeistarajafntefli í Vesturbænum

28.07.2014

Það voru blendnar tilfinningar hjá Blikum eftir 1-1 jafntefli gegn KR í Frostaskjólinu í gær. Stigið var kærkomið en þrátt fyrir að KR-ingar misstu markvörð sinn af leikvelli um miðjan síðari hálfleik tókst okkar piltum ekki að nýta sér liðsmuninn til að tryggja sér stigin þrjú. Við erum þvi enn að troða marvaðann í neðri hluta deildarinnar og er það hundleiðinlegt. Við sýndum hins vegar lipra takta í leiknum og ef við höldum áfram á sömu braut þá munu fleiri stig koma í hús.

Veðurskilyrði til knattspyrnuiðkunar voru hinar bestu í Vesturbænum. Hægur andvari, örlítiil rigning og völlurinn hæfilega blautur. Þó nokkur hópur Kópavogsbúa mætti  og studdi við Blikaliðið. Þar vöktu mesta athygli nýkrýndir Rey-Cup meistarar 3. flokks karla sem mættu vel og studdu vel við bakið á meistaraflokknum. Óskandi væri að fleiri flokkar myndu taka þessa drengi til fyrirmyndar. Hins vegar virðist vera nokkur lægð í stuðningi í Vesturbænum.  Árangur þeirra röndóttu hefur líka verið undir væntingum og þar með fækkar áhorfendum á leikjum.

Eins og oft í sumar byrjuðu okkar drengir vel í leiknum. Höskuldur Gunnlaugsson sýndi snilli sína strax á upphafsmínútunum og prjónaði sig í gegnum KR-vörnina vinstra megin og var hársbreidd frá því að koma knettinum í markið. En það var síðan á níundu mínútu sem Guðjón Pétur sendi snilldarsendingu inn fyrir KR-vörnina og Árni Vill tók vel á móti knettinum, skýldi honum vel og sendi tuðruna í markið með hárnvæmri sendingu í stöngina og inn.

Eftir þetta drógu þeir grænklæddu sig aftar á völlinn og leyfðu þeim röndóttu að sækja á markið.  Ekki tókst heimapiltum að skapa sér nein alvöru færi en Blikar voru stórhættulegir í skyndisóknum. Úr einni þeirra var Guðjón Pétur felldur rétt utan vítateigs en röggsamur dómari leiksins, Garðar Örn Hinriksson, var allt of fljótur að flauta á brotið. Boltinn barst nefnilega til Ellerts Hreinssonar sem sendi knöttinn í netið en aukaspyrnan stóð samt. Blikar misstu síðan Árna Vill af leikvelli vegna meiðsla og dróg það nokkuð úr sóknarþunga okkar liðs.

KR-ingar komu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og náðu fljótlega að jafna leikinn. Þar voru okkar drengir of svifaseinir að dekka svæði og því fór sem fór. Það er hins vegar spurning hvort markaskorari KR-inga kæmi úr rangstöðu og hefði því markið í raun ekki átt að standa. En eins og alltaf skipta frænkurnar ,,ef“ og ,,hefði“ engu máli þegar starfsmenn leiksins dæma markið gilt. En fljótlega eftir jöfnunarmarkið dróg til tíðinda. Húsvíkingurinn knái Elfar Árni elti boltann inn fyrir vörn KR-inga og felldi markvörður heimadrengja hann á klaufalegan hátt. Dómarinn sá enga aðra lausn en að sýna Stefáni Loga óvinsæla spjaldið. Harður dómur að margra mati en eins og fyrri daginn þýðir litið að deila við dómarann. Sérstaklega ef hann heitir Garðar Örn og er þekktur harðhaus.

En okkar drengir náðu ekki að halda haus einum manni fleiri. Það var eins og menn yrðu taugaóstyrkir, hættu að þora að spila boltanum og KR gekk á lagið. Stórhættulegar sóknir buldu á Blikavörninni og eina svar okkar var að þruma eins langt fram og við gátum og leggjast í vörn. Þetta var ekki mjög karlmannlegt og er spurning hvort okkar drengir þurfa ekki að dæla í sig lýsi og vítamínum fyrir Keflavíkurleikinn. Við getum og og eigum að gera betur en þetta. En sem betur fer tókst heimapiltum ekki að bæta við markið og getum við á margan hátt verið sátt við stigið.

Þess má geta að þetta var síðasti leikur Gísla Páls og Tómasar Óla í Blikabúningnum í bili. Þeir eru báðir á leið til Bandaríkjanna í nám og sendum við þeim baráttu- og námskveðjur í þeirri dvöl. Við sjáum þá síðan tvíeflda koma til leiks á síðari stigum. Baldvin Sturluson kom inn á leiknum og er þetta hans fyrsti leikur í Blikabúningnum en hann kom á láni frá Stjörnunni. Einnig er vert að geta þess að þetta var fyrsti byrjunarliðsleikur Ellerts Hreinssonar á þessu keppnistímabili en hann hefur glímt við meiðsli. Þar að auki spilaði Stefán Gíslason sinn fyrsta leik síðan  22. júní. Endurkoma þessara sterku leikmanna er gríðarlegur styrkur fyrir Blikaliðið sem sannarlega þarf á öllu sínu að halda í næstu leikjum.

Það er ekki mörg lið sem sækja stig í Frostaskjólið og getum við tekið það með okkur heim.  

En við þurfum að spila af fullum styrk allar 90 mínúturnar gegn hvaða andstæðingi sem er. Nú er rúmlega viku hlé vegna bikarleikja og Verslunarmannahelgarleyfa og það getur okkur góðan tíma að undirbúa okkur gegn Keflavík á heimavelli miðvikudaginn 6. ágúst.  Suðurnesjapiltarnir fóru illa með okkur í fyrri umferðinni og eigum við þar harma að hefna. 

Við hvetum alla Blika til að mæta og hjálpa  liðinu að spyrna sér frá þessari  ömurlegu botnbaráttu.

-AP

Til baka