Pieta samtökin á Íslandi." /> Pieta samtökin á Íslandi.">

BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Stórmeistarajafntefli á Kópavogsvelli

01.06.2020 image

Blikar og Valsmenn skildu jafnir í 3:3 í hörkuvinuáttuleik á Kópavogsvell í gær. Þetta er í fyrsta skipti sem blikar.is vita um að selt hafi verið inn á æfingaleik enda var þetta styrktarleikur fyrir Pieta samtökin á Íslandi.

Vegna Covid19 reglna máttu einungis 400 manns mæta á leikinn, í 2 x 200 manna hólfum, og var að sjálfsögðu uppselt. Líklegast voru þetta sanngjörn úrslit enda skiptust liðin á að hafa yfirhöndina í leiknum. Þessi leikur lofar því góðu fyrir komandi tímabil!

image

Svona er full stúka á Kópavogsvelli þegar það er 200 (x2) manna fjöldatakmörkun. Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Það var smá taugatitringur í Blikum í upphafi leiks enda langt síðan liðið hefur spilað alvöru æfingaleik. Geysisterkt Valslið náði forystu strax á 12 mínútu leiksins. En Blikar létu ekki slá sig út af laginu og tvö mörk frá dönsku markamaskínunni Thomasi Mikkelsen komu Blikum yfir í leiknum. Sérstaklega var jöfnunarmarkið glæsilegt sem kom eftir eldsnögga sókn Blika. En því miður var óþarfa bakhrinding í vörn Blika þess valdandi að drengirnir hans séra Friðriks náðu að jafna rétt fyrir leikhlé.

image

Thomas fagnar marki í leiknum. Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Aðeins dró úr ákafanum í síðari hálfleik enda leikmenn búnir að spila á háu tempói allan leikinn. En það voru þó mistök aðstoðardómara sem ollu því að Valsmenn náðu aftur forystunni. Löng sending fram og gamli félagi okkar Aron Bjarnason var greinilega langt fyrir innan vörn Blika.  En sem betur áttu við Blika leynivopn í Kwame Quee. Hann kom inn á í síðari hálfleik og náði að jafna metin á 90 mínútu með mjög fallegu marki. Vel gert Kwame!

image

Kvame skorar jöfnunarmark Blika. Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Það var mjög margt vel gert hjá Blikaliðinu í þessum leik. Tempóið og hraðinn var góður og ógnunin á köntunum góð. Anton Ari var góður í markinu, varði nokkrum sinnum mjög vel og verður ekki ásakaður um mörkin sem við fengum á okkur. Honum er greinilega farið að líða vel í Blikabúningnum. Unglingalandsliðsmaðurinn Róbert Orri Þorkelsson var í fyrsta skipti í byrjunarliði og sýndi góða takta. Afmælisbarnið Gísli Eyjólfsson var öflugur á miðjunni og svo voru kantmennirnir Viktor Karl og Höskuldur baneitraðir, sérstaklega í fyrri hálfleik. Og það er þarf ekki að taka fram hve danska dýnamítið Thomas Mikkelson er góður framherji, þótt það hafi farið að draga af honum í síðari hálfleik. Við eigum hins vegar heilmikið inni og er öruggt að þjálfarateymið nota þennan ½ mánuð sem eftir er fram að móti til að fínpússa liðið.

Nokkrir leikmenn eiga við meiðsli að stríða og gátu því ekki spilað í gær. Kiddi Steindórs glímir við smávægileg meiðsli en verður til í slaginn á réttum tíma. Viktor Örn, Benedikt Warén og Alexander Helgi meiddust nýlega á æfingu og ekki er ljóst hvort þeir ná fyrsta leik. Svo er verkalýðsleiðtoginn Arnar Sveinn Geirsson alveg að ná sér eftir erfið meiðsli og uppskurð. Það er því ljóst að þjálfarateymið glímir við það lúxusvandamál að velja 11 bestu í fyrsta leik.

BlikarTV var með beina útsendingu af leiknum og eiga Heisi og félagar heiður skilið fyrir það framtak. Það voru engin smá nöfn sem lýstu leiknum; Hjörvar Hafliða, Keli og Guðjón Már. Svo var gamla legendið Arnar Björnsson með klassa viðtöl við fyrirliða og þjálfara liðanna fyrir og eftir leik. Svona á að gera hlutina!

image

Gamla legendið Arnar Björnsson var með klassa viðtöl við fyrirliða og þjálfara liðanna fyrir og eftir leik. Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Við getum varla beðið eftir fyrsta leik í Pepsí-deildinni um miðjan júní gegn Gróttu. Þá verður hátíð á Kópavogsvelli!

-AP

Til baka