BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Stjarnan - Breiðablik í PEPSI miðvikudaginn 9. ágúst kl. 20:00

06.08.2017

Blikar ætla að bregða sér af bæ á miðvikudaginn og heimsækja granna sína í gamla Garðahreppi, nú Garðabæ. Tilefnið er ærið því þar er eru 3 stig í boði fyrir Blika í viðureign við andskota sína í Stjörnunni. Þessarar viðureignar er beðið með eftirvæntingu til sjávar og sveita enda þessi lið háð marga hildina í gegnum tíðina og oftar en ekki hafa Blikar haft yfirhöndina.

Upphitun fyrir leik.

Blikaklúbburinn og Kópacabana hópurinn blása til peppfundar fyrir Stjörnuleikinn á morgun miðvikudag. Fundurinn verður í tengibyggingu Fífunnar og hefst kl.18.30. 
 
Engin annar en Arnar Már Björgvinsson lögfræðingur og fyrrum leikmaður Breiðabliks og Stjörnunnar ætlar að mæta og ræða um leikinn. Hann mun fara í gegnum styrkleika og veikleika beggja liða og spá í spilin með Blikum varðandi áframhaldið í Pepsí-deildinni. Ef tími gefst til mun Arnar Már ræða um veðmál og annað sem tengist veðmálastarfsemi í knattspyrnunni í dag en kandidatsritgerð sinni fjallaði hann um lagalega hlið þessara veðmála í knattspyrnuheiminum.
 
Missið ekki af skemmtilegum fundi og áhugaverðum umræðum. Í boði verða pizzur og drykkir á kostnaðarverði. Svo munum við fara saman í Garðabæðinn og mála bæinn grænan!
 
Sagan.

Leikurinn á Stjörnuvellinum (Samsungvellinum) í Garðabæ á miðvikudaginn kl. 20:00 er 13. efstu deildar viðureign liðanna í Garðabæ frá því að liðin léku þar fyrst í efstu deild 14. september 1991. Blikar unnu leikinn 0:1 með marki Arnars Grétarssonar á 64. mínútu.  Fyrsti opinberi leikur

Breiðabliks og Stjörnunnar fór fram á Melavellinum í Reykjavík 22. ágúst 1970. Leikurinn var í 1. umferð Bikarkeppni KSÍ. Blikar unnu þessa fyrstu viðureign liðanna nokkuð stórt eða með 11 mörkum gegn engu!

Liðin hafa mæst 51 sinni í öllum keppnum frá árinu 1970. Leikirnir dreifast á 6 mót: A-deild og B-deild, Bikarkeppni KSÍ, Litla Bikarinn, Lengjubikarinn og Fótbolta net mótið. Blikar hafa unnið 23 leiki, Stjarnan 18 leiki og jafnteflin eru 10.

Í 17 efstu deildar leikjum liðanna, frá endurkomu Stjörnunnar í efstu deild árið 2009, hafa Blikar sigrað 10 viðureignir liðanna, Stjarnan hefur unnið 3 leiki og jafnteflin eru 4. Blikar hafa skorað 35 mörk gegn 21 marki Stjörnunnar. Samtals 56 skoruð mörk í 17 leikjum eða liðlega 3 mörk að meðaltali per leik. Í stigum talið skilar þessi árangur Blikum 34 stigum af 51 mögulegu (67% stigaárangur) gegn 13 stigum Stjörnunnar af 51 mögulegu (22% stigaárangur).

En munum að þessi tölfræði segir lítið þegar út á völlinn er komið á miðvikudaginn.

Leikurinn.

Okkar menn hafa verið á góðri siglingu undanfarið með 2 sigurleiki í röð, gegn Fjölni og KA, og landað 7 stigum af 9 mögulegum í síðustu 3 deildarleikjum. Stjörnu-vélin hefur einnig náð í 7 stig af 9 mögulegum í 3 síðustu deildarleikjum en hikstað í 2 síðustu leikjum.

Leikurinn er á Samsungvellinum í Garðabæ á miðvikudaginn og hefst klukkan 20:00!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar! Líka í Garðabæ!

Til baka